Tengdar greinar

Verður fyrst gamall ef hann hættir að hreyfa sig

Ragnar slær golfkúlur í golfherminum og nær fínni æfingu heima í stofu þótt úti sé snjóbylur.

Ragnar G. Kvaran, fyrrverandi flugstjóri, stendur nú á níræðu en hann þakkar hreyfingu góða líkamlega og andlega heilsu. Á göngulagi hans sést glöggt að þar fer þróttmikill maður þrátt fyrir háan aldur. Ragnar fór 19 sinnum í Bláfjöll í fyrra en hefur ekki náð nema fjórum ferðum í ár vegna veðurs. Eins og allir sem ná háum aldri, hefur Ragnar orðið að fylgja ástvinum til grafar, þar á meðal tveimur sonum og eiginkonu. Hann segist fást við þá miklu sorg m.a. með því að þreyta sig líkamlega. Hann segist eiginlega finna til samviskubits yfir að vera enn lifandi en þau öll látin því hann hafi í raun oft verið ótrúlega nálægt því að farast í flugslysum. Sér í lagi þegar hann flaug með vistir fyrir Rauða krossinn í Biafra á stríðstímum. Hann var þá að sinna mikilvægum verkum og kláraði hvert flug en þegar hreyflarnir stöðvuðust eftir að hafa flogið í gegnum kúlnahríð hafi sjokkið komið  svo um munaði. En alltaf slapp hann. “Ég er ótrúlega lánsamur þrátt fyrir allt,” segir Ragnar og er þakklátur fyrir góða ævi.

 Varð snemma hluthafi í Piper cup KAK

 Tilviljun réði því að Ragnar varð hluthafi í flugvél með vinum bróður sins.  Það var Piper cup vél sem bar stafina KAK og Ragnar segir að sé gæfuríkasta smávél sem

Fyrsta Piper Cub-vélin sem flutt var til landsins og var Jón N. Pálsson heitinn, fyrrverandi yfirskoðunarmaður Flugfélags Íslands, aðalhvatamaður þess að kaupa hana til landsins í apríl 1946 og þar í hópi var Ragnar G. Kvaran.

kom til Íslands á þessum tíma og fleiri lærðu á en nokkra aðra vél. Bróðir hans, Einar Kvaran, var þremur árum eldri en Ragnar og var í félagi við vini þeirra búinn að koma auga á þessa vél og hópurinn ætlaði að flytja  hana inn. En þegar Einar ákvað að fara til náms til Kaupmannahafnar varð úr að Ragnar gekk inn í hans hlut svo að þannig vildi til að hann varð eigandi að flugvél ungur að árum. Og þar með var framtíðin ráðin.

Líkamsrækt snemma hluti af lífsstílnu

Dagurinn hjá Ragnari byrjar alltaf á 100 hoppum með handahreyfingum á trampolini til að koma blóðrásinni í gang.

Vöffluilmur barst að vitum blaðamanns en Ragnar hafði skellt í vöfflur og hellt upp á í tilefni heimsóknarinnar. Ragnar ólst upp í miðbæ Reykjavíkur svo Tjörnin var leiksvæðið á veturna þar sem skautaferðir voru tíðar og síðar skíðaferðir upp til fjalla. Á sumrin var hann í sveit að Lýtingsstöðum í Holtum þar sem hann vandist líkamlegri vinnu og lærði að umgangast hesta. Hreyfing hefur því verið hlut af lífsstíl Ragnars alla tíð og hann fullyrðir að hún sé ástæðan fyrir bæði andlegri og líkamlega góðri heilsu sinni. Í íbúð hans má sjá trampólín sem Ragnar byrjar alla daga á að hoppa 100 sinnum á og segist þannig koma blóðrásinni almennilega í gang. Síðan teygir hann stífan teygjugorm og styrkir þannig handleggi og axlir. Síðan má sjá golfhermi inni í stofu sem hann nýtir á veturna og alltaf þegar ekki viðrar til golfiðkunar úti við. Þetta er sú líkamlega hreyfingin sem hann stundar heima við og svo fer hann daglega í sund og syndir aldrei minna en einn kílómetra. Með þessu segist hann halda sér nokkuð góðum.

Vildi ekki hægja á sér

Ragnar lenti í því að handarbrotna í fyrra fyrir utan heimili sitt og fann út að sundið hjálpaði honum mikið. Hann jók þá vegalengdina í tvo kílómetra. Þannig náði hann sér góðum og segist vera viss um að það versta sem hann hefði getað gert, hefði verið að hægja á sér

Ragnar teygir gorma á hverjum degi til að koma öxlunum í gang og að lokum tekur hann smásprett á þrekhjóli sem hann á og þetta segir hann að taki ekki nema korter og því korteri sé vel varið. Ragnar er með skakkan hrygg en þetta korter skiptir sköpum hjá þessum níræða manni.

Sundið kom snemma inn í lífsstílinn

Um það leyti sem Norðurlandamótið í 200 m sundi fór í gang fór Ragnar að synda reglulega en fannst svo ómerkilegt að synda bara í 4 mínútur að hann ákvað að bleyta sig ekki fyrir minna en einn kílómetra og hefur haldið sig við það síðan. Hann segir að það taki sig núna 25 mínútur að synda sömu vegalengd og hann synti á 21 mínútu fyrir 10 árum. Ragnar segir að annar kílómetrinn sé auðveldari en sá fyrsti því þá sé öndunin komin í jafnvægi.

Flugvélarnar flugu yfir æskuheimilið

Ragnar bjó i Smáragötunni sem barn og unglingur og heyrði flugvélarnar lenda reglulega á Reykjavíkurflugvelli svo flugáhuginn kviknaði snemma. Hann byrjaði í Menntaskólanum í Reykjavík en flugið átti hug hans allan og úr varð að hann hætti í menntaskóla en fór að læra flugvirkjun hjá Flugfélagi Íslands þar sem hann starfað í eitt ár. Þá var hann búinn að taka ákvörðunina um að fara í flugnám.

 Ævintýralegt líf

Líf Ragnars hefur verið ævintýri líkast. Eftir flugvirkjanám á Íslandi fór hann til Bretlands þar sem hann lærði flug og siglingafræði. Þegar Ragnar kom til Íslands eftir flugnámið var framtíð flugsins hér óbjörguleg því stjórn Loftleiða hafði tekið ákvörðun um að arðbærara væri að kaupa olíuskip en flugvél og best væri að hætta flugrekstri. Þá tóku stjórnarmennirnir Alfreð Elíasson, Kristján Guðlaugsson og Ólafur Bjarnason ákvörðun um að setja peninga í að kaupa flugvél. Það var svo árið 1952 sem Atlandshafsflugið var komið í gang og þá byrjaði flugævintýrið fyrir Íslendinga og ákvörðunin um að kaupa frekar flugvél en olíuskip sannaði sig. Þá vantaði siglingafræðinga hjá Loftleiðum og Ragnar leitaði ráða hjá Jóhannesi Snorrasyni sem réði honum frá því að fara til Loftleiða að vinna því það fyrirtæki væri bara bóla sem myndi springa. Það fór samt svo að Ragnar var ráðinn til Loftleiða sem flugmaður og þar starfaði hann í 15 ár. Hann varð svo flugstjóri hjá fyrirtækinu 1958.

Flaug á stríðstímum í Biafra

Ragnar segir að hann og tveir aðrir flugmenn hafi sagt starfi sínu lausu hjá Loftleiðum til stuðnings flugmanni sem var sagt upp starfi að ósekju að þeim fannst. Þeir þrír fengu ekki endurráðningu en sá sem þeir voru að sýna stuðning var ráðinn aftur. Þá æxluðust mál þannig að Ragnar réði sig hjá Rauða krossinum í Biafra og flaug þar með vistir fyrir Rauða krossinn á stríðstímum. Ragnar segir að stríðsmennirnir á jörðu niðri hafi ekki haft nægilega góð tæki til að miða skotunum rétt og hafi alltaf miðað á hljóðið þannig að þeir hittu vélarnar sjaldnast. Ragnar segist hafa verið ótrúlega heppinn allan sinn starfsaldur en hann hefur þurft á horfa á eftir nokkrum kollegum í flugslysum. Árið 1974 settust Ragnar og Hrefna, eiginkona hans, að í Luxemburg þar sem Ragnar réði sig til starfa hjá Cargolux þar sem hann starfaði í 18 ár.

Ragnar fékk viðurkenningu fyrir þátttöku í sundkeppni 2001 þar sem hann synti 8 kílómetra.

Lagði flugskírteininu inn um aldamótin

Ragnar hætti að fljúga hjá Cargolux 1992 en flaug litlum flugvélum fram til aldamóta. Þá hætti hann að endurnýja flugskírteinið því þá voru skynfærin farin að gefa sig, bæði sjón og heyrn. Um þetta leyti var eiginkona Ragnars, Hrefna Lárusdóttir Kvaran, orðin sjúklingur og Ragnar segir að honum hafi fundist hann skulda henni það að hugsa vel um hana því starf hans hefði alla tíð krafist þess að hann væri langtímum í burtu en hún ein heima. Það hafi því verið sjálfgert að hann hætti allri flugdellu en þar sem Ragnar er “dellukarl” hafi líkamsræktin tekið við svo um munaði.

Fann ráð við tímarugli

Fólk sem starfar við flug þarf að aðlagast nýjum tíma þegar það flýgur yfir lengdarbauga. Ragnar fann snemma út að ráðið við tímaruglingnum væri að þreyta sig líkamlega. Margir nota hlaup en Ragnar hefur alltaf notað sundið. Áhafnirnar bjuggu yfirleitt á góðum hótelum þar sem voru sundlaugar en ef þeirra naut ekki við notaði hann hafið og hefur synt í flestum höfum heims þar sem voru strendur.

Niðurlagsorðin í Áföngum eftir Jón Helgason varð Ragnari tilefni til að mála þessa mynd en í kvæðinu segir: “Jötuninn stendur með járnstaf í hendi.”

Yrkir í frístundum

Ragnar hefur alla tíð nýtt frítíma sinn vel en flugmannsstarfið byggist á hléum á milli flugferða. Auk þess að stunda hreyfingu í frítímanum hefur hann alltaf haft blað og penna við höndina og skrifað niður hugsanir sína, bæði í bundnu og óbundnu máli. Hann leyfði okkur að birta hér eitt ljóð þar sem hann veltir vöngum yfir hækkandi aldri.

Ellin færir mér annarleg kjör,

sem arka ég eftir án ekka,

víst er ég ekki kominn í kör,

en kem mér helst hjá því að drekka.

Því ærið er minnið víst reikult án mjaðar

en með honum ágerast afglöpin hraðar

það var sú tíð er hann örvaði fjör

án hans skemmra í æskileg svör.

Ritstjórn febrúar 13, 2018 12:15