Tengdar greinar

Verkir í mjöðm geta stafað af því að annar fóturinn er styttri

Þeir sem eru með vandamál í stoðkerfinu eins og það kallast, það er bakverki, verki í mjöðmum, hnjám og ökklum geta látið athuga hvort orsök vandans liggi í fótunum. Eru fæturnir mislangir,  hællinn/ökklinn skakkur eða álagspunktarnir á fætinum ekki réttir?  Til að fá úr því skorið er hægt að fara í göngugreiningu og láta skoða þetta allt í bak og fyrir. Lýður B. Skarphéðinsson eigandi fyrirtækisins Fætur toga og sérfræðingur í göngugreiningu segir að þetta sé í raun alveg sama fyrirbærið og þegar menn skipta um dekk á bíl. „Þetta eru fjögur dekk og það þarf að jafnvægisstilla þau, annars fara þau að hristast og slitna ójafnt. Við erum að gera nákvæmlega sama með fæturnar. Ef hællinn er skakkur, eða öklinn, þá kemur vitlaust álag upp í leggina og hnén, jafnvel út í mjaðmir og bak“, segir hann og bætir við að skekkist hællinn eða ökklinn sem sé mjög algengt með aldrinum, þá sé hætta á að skekkjurnar orsaki slit í ökklum, hnjám og  jafnvel í  mjöðmum.

Fólk ætti að byrja á göngugreiningu

Hann segir að þegar verkir séu í stoðkerfinu  gleymist stundum að skoða hver orsökin sé.  Ef það er t.d. verkur í hægri mjöðm er oft skoðað hvort það sé slit í liðnum, vöðvar og sinar eru skoðaðar en það gleymist stundum að skoða hvort fæturnir eru misjafnlega langir. Ef hægri fóturinn er til dæmis styttri, veldur það oft  óþægindum hægra megin í líkamanum. Hann segist eiga gott samstarf við lækna,  sjúkraþjálfara og Kiropraktora, en mælir með að þegar verkir geri vart við sig í stoðkerfinu byrji fólk á því að fara í göngugreiningu. „Það er af því að þetta er einfaldasta lausnin og ætti að vera fyrsta lausnin sem fólk hugar að áður en ráðist er til dæmis í skurðaðgerðir. Að sjálfsögðu þarf oft að skera, en það ætti í mínum huga að vera síðasta úrræðið, þegar búið er að prófa allt annað“.

Innlegg til að létta álag á fæturna

„Við tökum 6500 manns í göngugreiningu á ári, en ættum kannski að taka miklu fleiri. Það sem hefur komið mér mest á óvart gegnum tíðina, er það að við getum hjálpað fólki á öllum aldri. Ég hafði í fyrstu efasemdir um hvort hún virkaði fyrir elstu kynslóðina, en hef uppifað það aftur og aftur að við höfum fengið eldra fólk til okkar og getað hjálpað því“, segir Lýður. Hann segir að ef fólk finni mikið til í mjöðm geti ástæðan verið sú að annar fóturinn sé styttri en hinn.  Það sem þá er hægt að gera, er að setja innlegg í skóna með hækkun undir styttri fótinn til að breyta álaginu upp í mjaðmir og bak. „Ef þér er illt í  il getur verið að sinarnar í ilininni séu of stífar eða skakkar. Með því að nota ilstuðning og stundum fleyga til að rétta fótinn af er hægt að minnka álagið á sinarnar. Ef það eru eymsli í táberginu er yfirleitt um tábergssig að ræða, en með því að setja púða í innleggin aftan við tábergið er hægt að minnka álagið á tábergsliðina.  Ef fólk komið með stuðning við il og táberg léttist álagið á fótinn“.

Mælir með að fólk prófi ýmsar leiðir

Lýður er eins og áður sagði, opinn fyrir því að fólk prófi allar leiðir til að bæta líðan sína, áður en lagt er í stærri aðgerðir. Hann nefnir göngugreininguna sem fyrsta úrræðið, síðan sjúkraþjálfun, kírópraktor, nudd, bowen, höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð og fleira í þeim dúr. Hann segir að uppbyggingarefni fyrir liði hjálpi stundum „ Ég hef fengið mikinn fjölda hingað sem segja að hin ýmsu efni virki fyrir sig, en þau virka ekki endilega fyrir alla. Ég hef tekið 60 þúsund manns í göngugreiningu og tel að hún sé þess virði að prófa hana. Ef hún virkar ekki fyrir þig hefur þú í versta falli tapað einhverjum peningum, en ef hún virkar bætir það lífsgæðin. Að sjálfsögðu þarf stundum að skera, en það ætti að mínu viti að vera síðasta úrræðið“.

Þeir sem ættu að vera í bestu skónum yfirleitt í þeim lélegustu

„Það væri rangt að segja að við gætum hjálpað öllum, til dæmis getum við ekki lagað eitthvað sem er skemmt, en með því að færa álagið til er hægt að gera ýmislegt, segir hann. „Ef annar fóturinn er styttri, mælum við fyrir neðan hné með þar til gerðu hallamáli og sú mæling er nokkuð pottþétt, frá hné og niður í gólf. Í meirihluta tilvika þar sem menn mælast með annan fótinn styttri, er mislengdin fyrir neðan hné. Við mælum líka frá hné og uppí mjöðm, en sú mæling er viðkvæmari“. Lýður segir að skórnir séu síðan grunnbúnaður, góðir höggdempandi skór minnki álag upp í hné , mjaðmir og bak, en það sé áberandi að þeir sem ættu að vera í bestu skónum, séu yfirleitt í lélegustu skónum.

„Eldra fólk sem er mjög þungt eða með mikla verki í stoðkerfinu, á erfitt með að beygja sig og komast í bestu skóna en smeygir sér kannski í töflur sem er auðveldara að fara í. Það eru engir skór betri en hlaupaskór, þeir eru bestir þegar gengið er á hörðu undirlagi, malbiki, steypu, flísum eða parketi. Við getum sett teygjureimar í skó eða franskan lás svo fólk þurfi síður að beygja sig. Skórnir skipta öllu máli í dag“.

 

 

Ritstjórn október 20, 2020 07:57