Villisveppir í forrétt

Sveppir eru eitt besta meðlæti sem um getur og margir Íslendingar eru búnir að finna út að íslensku sveppirnir gefa þeim erlendu ekkert eftir. En þeir íslensku eru ekki fáanlegir fyrr en nær dregur hausti en hægt er að fá dásamlega innflutta sveppi því sveppamenning er rík og mjög gömul meðal margra þjóða. Frakkar eru snillingar í að matreiða þetta dýrindis hráefni en það eru margir Íslendingar líka.  Hér á eftir er uppskrift að rétti sem tilvalið er að bera fram sem forrétt en uppskriftin er upphaflega frá Úlfari Finnbjörnssyni sem oft er kallaður villti kokkurinn enda snillingur í að matreiða hráefni sem náttúran gefur okkur og þar á meðal eru sveppir.

 

300-400 ferskir villisveppir eða 150 g þurrkaðir

60 g smjör

3 meðalstór hvítlauksrif, söxuð

rifinn börkur af einni sítrónu

2 tsk. ferskt tímían, saxað

hálf dós sýður rjómi

salt og pipar eftir smekk

2-3 msk. fersk steinselja, söxuð

 

Bræðið smjörið á pönnu, Saxið hvítlaukinn og blóðbergið og rífið sítrónubörkinn. Bætið því út í smjörið og steikið í stutta stund eða þar til yndislegur ilmur tekur að berast af pönnunni. Skerið stærri sveppina til helminga en leyfið minni sveppunum að vera heilum. Bætið sveppunum út á pönnuna og steikið við háan hita í 1 mínútu. Lækkið hitann í lægstu stillingu, látið lok á pönnuna og látið malla áfram í eina mínútu eða þar til sveppirnir eru orðnir mjúkir. Bætið að síðustu sýrða rjómanum út í og hitið að suðu. Saltið og piprið eftir smekk. Ef sósan er of þykk er í lagi að bæta svolítilli mjólk saman við til að þynna hana. Dreifið sveppunum á fjóra diska og dreifið steinseljunni yfir. Mjög gott er að bera hvítlauksbrauð fram með þessum rétti. Eina sneið á hvern disk.

 

 

Ritstjórn maí 28, 2021 20:39