Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
Undanfarið höfum við orðið vitni að óvenju hörðum ummælum milli fólks í fjölmiðlum. Þessi hörðu ummæli hafa farið fram á netinu og á vettvangi stjórnmála jafnvel milli náinna samstarfsfélaga og almennri. Getum við sagt hvað sem er við samferðafólkið í lífinu? Við getum það en slíkt hefur afleiðingar.
Fyrir mörgum árum starfaði ég um tíma við ráðgjafastörf í stjórnun og markaðssetningu. Þar fékk ég m.a. til meðhöndlunar mál sem tengdust erfiðleikum í samskiptum fólks á vinnustöðum. Þessi hluti ráðgjafastarfanna urðu mér mikill lærdómur í mannlegum samskiptum. Á þessum árum skrifaði ég pistla á vef Bústaðakirkju. Úr þessum pistlum og fleirum varð síðar hefti sem ég nefndi Gleðigjafann og Óskar Þór sonur minn setti í stafrænt form. Í tilefni þessarar beinskeyttu persónulegu umræðu í þjóðfélaginu langar mig til þess að birta sem pistil einn kafla úr Gleðigjafanum sem heitir Rispum ekki rúðurnar.
—————————-
Við höfum öll reynt það að verða særð vegna einhvers sem sagt var við okkur eða haft eftir einhverjum um okkur. Við höfum öll einhvern tíma sært aðra þótt við munum síður eftir því en því sem aðrir hafa sært okkur. Við verðum oft vitni að því þegar fólk að vanhugsuðu máli segir eitthvað særandi við og um samferðamenn sína og jafnvel fjölskyldu og vini. Í nokkur ár vann ég við fyrirtækjaráðgjöf. Ég tók að mér ýmis verkefni m.a. endurskipulagningu á rekstri fyrirtækja og stofnana. Í mörgum tilfellum leiddust verkefnin inn á svið erfiðleika í mannlegum samskiptum. Víða voru árekstrar og spenna milli einstaklinga og oft milli yfirmanna og undirmanna sem leiddi til margvíslegra vandamála í stjórnuninni. Þegar ég fór að leita orsaka þessarar spennu reyndust þær vera af ýmsum toga spunnar. Einum algengum þætti tók ég sérstaklega eftir. Þegar ég spurði starfsfólkið um viðhorf til tiltekins samstarfsmanns eða yfirmanns þar sem spenna var í milli var oft sagt að viðkomandi líkaði ágætlega við samstafsmanninn utan tiltekins atviks sem starfsmaðurinn mundi nákvæmlega hvenær hafði átt sér stað og hvenær ákveðin ummæli voru við höfð. Svo kom nákvæm lýsing á því hvað hafði verið sagt en starfsmanninum hafði sárnað mjög það sem sagt var og ekki síst hvernig það var sagt. Þegar ég ræddi við einstaklinginn sem hafði sært samstarfsmann sinn mundi hann oft ekki eftir því eða sagðist alls ekki hafa meint það eins og viðkomandi túlkaði ummælin. Í augum hans var þetta lítilfjörlegt atvik sem ekki skipti neinu máli.
Samskiptum okkar við annað fólk má líkja við að horfa til þess gegnum gluggarúðu. Þá sem við þekkjum ekki og höfum ekkert heyrt um sjáum við gegnum hreina og tæra rúðu. Þegar við heyrum um viðkomandi eða kynnumst honum litast rúðan. Hún verður bjartari eða dekkri eftir því hvort ummæli eða kynni leiða til fagurs eða niðrandi viðhorfs til einstaklingsins. Við sjáum okkar nánustu sem okkur þykir vænt um í gegnum rúður litaðar hlýjum og björtum litum. Þá sem við elskum sjáum við í hlýjustu litunum. Ef við hins vegar verðum særð samskiptasári af samferðafólki okkar kemur rispa í þessa rúðu. Rispurnar geta verið það litlar að við tökum ekki eftir þeim í fyrstu en ef þeim fjölgar fara þær að sjást. Ef særindin eru mikil verða rispurnar djúpar. Við getum fægt glerið en rispurnar hverfa ekki. Við horfum á fólkið umhverfis okkur gegnum þessa samskiptarúðu. Við sjáum þá sem hafa sært okkur alltaf í gegnum rispaða glerið. Við eigum að fyrirgefa og gerum það vonandi sem oftast en rispan eða rispurnar í rúðunni standa samt eftir sem áður. Við þurfum ekki að særa aðra. Við getum komið skoðunum okkar og athugasemdum á framfæri við aðra og um aðra án þess að gera það á særandi hátt. Höldum samskiptarúðunum hreinum og litum þær hlýjum og björtum litum með því að laða fram hið jákvæða í samskiptum við aðra. Rispum ekki rúðurnar