Börkur Thoroddsen tannlæknir lýsir því í þessum bráðskemmtilega pistli þegar hann og konan hans Adda Gerður Árnadóttir, sem nú er fallin frá, fluttu til Kaupmannahafnar nýgift fyrir 50 árum. Pistillinn sem var saminn fyrir nokkrum árum er birtur hér nokkuð styttur með góðfúslegu leyfi höfundar.
Þremur árum eftir stúdentsprófið hafði ég lokið fyrri hluta tannlæknanáms við Háskóla Íslands og var á leið til Danmerkur til að ljúka seinni hlutanum, klíníska náminu, við Københavns Tandlægehøjskole. Það stóð líkt á hjá mér og allmörgum skólabræðrum mínum úr MR, einkum verkfræðistúdentum, sem lokið höfðu fyrri hluta náms á Íslandi og stefndu á seinni hlutann við Danmarks Tekniske Universitet.
Eldri stúdentar, sem þekktu til, höfðu tjáð okkur að skynsamlegt væri að kaupa hús í Danmörku. Það væri hægt án þess að eiga mikinn pening. Hægt væri að fá raðhús með 20.000 króna útborgun, sem væri svipað og tryggingarfé það sem maður þyrfti að greiða tæki maður íbúð á leigu. Afborganir væru svo svipaðar og húsaleigan. Ekki var hefð fyrir því að danskur almenningur ætti eigið húsnæði. Vísitöludaninn bjó í leiguhúsnæði, sem var í félagseigu, í eigu samvinnufélaga eða fasteignasjóða. Danir voru ekki farnir að átta sig á stígandi verðbólgu, sem við Íslendingarnir þekktum mætavel. Nú var tækifærið til að hefja útrás. Fasteignaverð fór hækkandi. Við endursölu að námi loknu fengi maður alla peningana aftur. Vandinn var bara sá, að ekki var hægt að fá gjaldeyrisyfirfærslu til húsakaupa erlendis, svo að fara varð krókaleiðir.
Ég hafði haft þokkalega sumarvinnu og átti nokkurn sjóð. Mest munaði um það sem ég hafði lagt fyrir sumarið áður, en þá hafði ég verið kokkur á Helgu Björgu, 55 tonna báti sem Halldór Magnússon bekkjarbróðir minn gerði út. Við veiddum humar. Á þessum árum var þetta alvöru humar með 20 centimetra hala og verðmæti aflans var ótrúlegt.
Við Adda Gerður, nýgift gengum frá borði Gullfoss yfir Knippelsbrú meðfram Holmens Kanal og inn á Kóngsins Nýjatorg. Þar var Handelsbanken. Ætlunin var að leggja inn peningana okkar, aleiguna sem Adda geymdi vandlega i stóru handtöskunni sinni. Það vantaði bara að taskan væri hlekkjuð við úlnliðinn. Árið 1966 var ekkert til sem hét lögleg gjaldeyrisyfirfærsla. – Ekki frekar en í dag. Á Íslandi var tvöfalt hagkerfi; hið opinbera; að því áttu þeir aðeins aðgang sem voru með réttan pólitískan lit, voru innundir hjá kerfinu og af réttum ættum. Í neðanjarðarkerfinu voru við hin. Í því kerfi blómstraði verslun með bílainnflutningsleyfi, svokölluð sjómannaleyfi, gjaldeyri, spíra, 75% vodka, bjór, skinku og — Machintosch. Við Adda höfðum orðið okkur úti um gjaldeyri á svörtum, allt í reiðufé, aleigan okkar: dollarar, pund, danskar, sænskar og norskar krónur, gylIini, þýsk mörk og belgiskir frankar; einnig var talsverður bunki af íslenskum 100 kr. seðlum. Þeim var hægt að skipta erlendis, en með miklum afföllum.
Við göngum í bankann og snúum okkur að afgreiðslumanni. Ég segi: ,,Vi vil åbne bankebog”. ,,Hva beha” segir afgreiðslumaðurinn. Ég segi: ,,Vi vil legge ind penge”. ,,Nå ja”. ,,Skal De åbne en bankkonto. Hvað ætliði að leggja mikið inn”. Adda setur töskuna upp á borðið og hvolfir úr henni. Taskan er ekki af minnstu gerð. Peningamir velta yfir borðið og út á gólf. „Hold da kjæft“ segir afgreiðslumaðurinn, en áttar sig á því að við erum væntanlega stórir kúnnar og biður afsökunar á ,,udtrykket”. Á vettvang kemur yfirmaður, fuldmægtig Dahlin, sem býður okkur innfyrir og upp á kaffi meðan verið er að yfirfæra andvirði valútunnar i danskar krónur.
Fuldmægtig Dahlin er hugsandi, spyr um hagi okkar og áform. Dahlin spyr hvernig okkur hafi áskotnast aurarnir. Við skýrum frá því og Dahlin verður dapur a svipinn og talar um „pengevask“. Ég vissi ekki árið 1966 hvað peningaþvætti var. Ég gat bætt því við að faðir minn, sem var skipstjóri á Lagarfossi, hefði selt íslensk frímerki í erlendum höfnum til að kosta nám sonarins. Þá glaðnar yfir hr. Dahlin og hann segir: ,,Á skýrsluna til Nationalbanken skrifa ég bara frímerki”. Þetta reynast vera 44.000 danskar krónur. Miklir peningar í þá daga. Hluti af þessu var andvirði skyldusparnaðar Öddu sem hún fékk greitt við giftinguna, samkvæmt reglunum. — Adda hélt því stundum fram, að ég hefði gifst henni til fjár.
Við Adda fórum að skoða fasteignaauglýsingar. Bestu lánakjörin voru á nýjum raðhúsum í Tåstrup. Til Tåstrup var hálfrar stundar lestarferð frá miðborginni og svo alllangur spölur frá stöðinni í Tåstrup. Vegalengdin óx okkur nokkuð í augum. Hjá okkur á Íslandi var allt innan göngufæris. Árið 1966 var Tåstrup lítið þorp miðja vegu milli Kaupmannahafnar og Hróarskeldu. Byrjað var að byggja í jaðri þorpsins úti við akurinn. Húsin voru á mismunandi byggingastigi og byrjað var að flytja inn í þau lengst komnu. Ekki var gatnagerðinni lokið. Þarna var allt sem þurfti. Mjólkurpósturinn kom daglega. Maður setti bara miða í tóma flösku ef maður þurfti eitthvað meira en þetta venjulega og fisksalinn kom að dyrunum einu sinni í viku. Kaupmaðurinn var á næsta horni með flestar nauðsynjar og auðvitað øl, vín og snaps. Við ákváðum að leggja í ferð og tala við fasteignasalann, ejendomsmægler Hartzen sem hafði komið sér fyrir í einu af nýju húsunum.
Við Adda göngum a fund Hartzens. Hartzen nýtur greinilega gæða þessa heims i botn. Fyrir utan húsið er parkerað stórum amerískum bíl. Þannig bílar voru sjaldgæfir í Danmörku árið 1966. Aðstoðarstúlkurnar tvær eru eins og klipptar út úr tískublaðinu Vougue. Hartzen sjáIfur minnir á Hermann Göring i holdafari og útliti og er með stóran cigar i munninum. Annað glæsifljóðið aðstoðar okkur. Við höfum ýmislegt að spyrja um. Samgöngur. Ég spyr hvort ,,stredesvogn” sé væntanlegur út i hverfið. Fljóðið segir eftir nokkuð hik að víst muni koma busforbindelse innan tíðar, en best sé nú að nota reiðhjól til að komast á járnbrautarstöðina. Adda vill vita hvernig húsin eru hituð og spyr hvort sé ,,hedevede” – hitaveita. Nú skilur fljóðið ekkert og nær í Hartzen. Eftir nokkrar umræður er okkur sagt að víst sé centralvarme.
Við gengum frá kaupunum og fluttum inn nokkrum dögum síðar. Eldhúsið var með öllum heimilistækjum og borðkrók. Stofan var alveg nógu stór til að búa og sofa í. Svefnherbergin þrjú vorum við búin að leigja út; íslenskum stúdentum. Einhvern veginn urðum við að fjármagna þetta. Við komum búslóðinni fyrir. Búslóðin var kommóðan hennar Öddu, einbreiði stutti svefnbekkurinn hennar og lampinn. Ég átti ekkert. Adda sagði stundum að ég hefði gifst sér til eigna. Lampinn var eina ljósið í húsinu, fyrir utan ljósið á baðinu. Í eldhúsinu mátti opna ísskápinn og sjá – þar varð ljós. Við hlýddum ráði Hartzensfljóðsins og keyptum okkur reiðhjól. Það tók 10 mínútur að hjóla á brautarstöðina í Tåstrup.
Það gekk bara vel að sofa á einbreiða stutta svefnbekknum hennar Öddu. Það fylgdu tvær pullur og mátti lengja bekkinn með þeim. Svo vorum við nú nýgift. Þetta gekk líka vel með lampann. Við stungum honum bara í samband þar sem við átti hverju sinni. Senn átti skólinn að hefjast hjá mér og Adda að byrja i vinnu hjá Eimskip.
Nú verður Adda veik. Við vitum ekkert hvað til bragðs skal taka. Það verður úr að ég stíg á bak hjólinu og renni niður á lögreglustöð, sem ekki er langt frá. Ég bið lögregluþjón að koma mér í samband við lækni. Hann réttir mér símann og segir: De skal dreje seksogtres fireogfirs otteoghalv-fems. Mér fellur allur ketill i eld. Lögregluþjónninn skynjar vandræði mín og segir 66 84 98. Stúlka kemur í símann og segir eitthvað sem ég skil ekki. Ég rétti lögregluþjóninum símann, hann segir eitthvað og réttir mér símann aftur. Nú er karlmaður í símanum. Eina sem ég skil er Dr. Hald. Samtalið fer fram á þennan veg:
Ég: Kan De komme? Min kone er síg. – Íslendingar hafa löngu týnt Y hljóðinu og segja síg. Danirnr segja syg.
Dr. Hald: Hvad fejler Deres kone? – Hvað er að konunni yðar?
Ég: Det ved jeg ikke, men min kone har hede.
Dr. Hald: Nå har Deres kone feber. Hvad måler hendes temperatur? Hve mikinn hita hefur hún?
Ég: Det ved jeg ikke.Vi har ingen hedemåler.
Dr. Hald: Nå har De ingen termometer? Hvemig vitið þér þá að hún hefur hita?
Ég: Jeg har taget hendes puls.
Dr. Hald: Hvad tæller hendes puls? Hversu hraður er púlsinn.
Ég: Det ved jeg ikke. Mit ur har ingen sekundviser.
Dr. Hald: Löng þögn. Síðan, ,,Jeg kommer.” Árið 1966 fóru læknar í húsvitjanir.
Ég sté á hjólið og náði að vera kominn heim á undan lækninum. Læknirinn sá Öddu unga og fallega liggjandi á mjóum svefnbekk, sveitamanninn – mig – sitjandi hjá henni og kommóðu með lampa á. Eftir að hafa spurt og skoðað Öddu bað læknirinn um að fá að skoða húsið. Það var orðið skuggsýnt. Ég tók lampann og færði hann á milli herbergjanna og skreið um til þess að leita að innstungunum. Við skoðuðum húsið saman. Læknirinn bjó sig til ferðar. Það er ekkert að þér sagði hann við Öddu. Þú ert stressuð vegna þess að þú ert að byrja í nýrri vinnu á framandi stað. Hver veit nema þú sért gravid sagði hann og leit a sófann. Það er nú lítið við að vera hér.