Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar
Þegar við vorum við nám í New York komu tegndaforeldrar mínir nokkru sinnum í heimsókn. Eitt sinn lögðu þau land undir fót og óku um tíu fylki Bandaríkjanna og í hverju fylki keyptu þau sér litla skeið með flaggi ríkisins á, til minningar um veru sína þar. Þegar þau komu aftur sýndu þau okkur skeiðarnar og ég spurði si svona, “hvað ætlið þið að gera við skeiðarnar”. Það var fátt um svör. Þá stakk ég upp á því að þau fengu sér skeiðarekka, sem þau gætu hengt skeiðarnar á og sett upp á vegg. Tegndamamma var fljót til svars og taldi þetta góða hugmynd, en spurði hvar hægt væri að fá slíka skeiðarekka. Þegar ég svaraði því til “í búðum í Bandaríkjunum”, bað hún mig um að kaupa einn slíkan fyrir sig, sem ég samþykkti að gera.
Það reyndist ekki eins auðvelt að finna skeiðarekka eins og ég hélt, en loksins fann ég fyrirtæki í norðanverðu New York fylki, sem framleiddi skeiðarekka og pantaði einn þaðan. Þegar pakkin barst, brá okkur í brún. Þó að skeiðarekkinn væri ekki þungur var hann ansi fyrirferðamikill og næsta spurning var, hvernig við kæmum pakkanum til Íslands. Á þessum árum taldist það alveg út úr myndinni að senda hluti í pósti, því póstgjald var hátt og svo mundi skeiðarekkinn líka lenda í tolli og við það mundi verð hans margfaldast. Einfaldara var að koma honum á einhvern sem var á leið til Íslands og létum við boð út ganga til íslenskra vina og kunningja í New York um að við værum með pakka sem við þyrftum að koma heim, svo ef viðkomandi væri á leið til Íslands eða einhver sem þeir þekktu, hvort hann gæti tekið pakkann fyrir okkur.
Það leið og beið, en dag einn hringdi góð vinkona okkar í okkur og sagði að bróðir sinn, sem var í stuttri viðskiptaferð í New York, væri tilbúinn að taka fyrir okkur pakkann, við yrðum bara að koma honum til hans á hótelið þar sem hann bjó, og áttum við að hitta hann þar klukkan fimm tiltekinn dag, en hann færi úti á flugvöll klukkan sex.
Ég tók að mér að koma pakkanum og tók neðanjarðalestina frá Litlu Ítalíu þar sem við bjuggum upp á austurhlið Manhattan, en bróðirinn var á hóteli rétt við Lexington Avenue.Það var mikil mannþröng í lestunum á þessum tíma dags og var það töluvert erfiði að burðast með fyrirferðarmikinn pakka innan um alla farþegana. Þegar ég kom á hótelið þá brá mér í brún, því þar biðu mín skilaboð frá bróðurnum, um að hann hafi verið kallaður skyndilega á fund og hann færi beint af fundinum út á völl, því miður. Ég var að vonum óhress yfir þessum tíðindum og æddi út af hótelinu með pakkann í fanginu og strunsaði niður Lexington Avenue. Þegar ég hafði gengið þar dágóðan spöl, sá ég mann í mannþrönginni sem ég þekkti af afspurn, en það var Lúðvík Jósepsson, þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, sem þá sat þing Sameinuðu Þjóðanna í New York. Ekki veit ég hvernig það gerðist, nema hvað að ég rauk á manninn og spurði hvort hann væri ekki Lúðvík Jóspesson. Hann játti því með bros á vör og fyrr en ég vissi af, var ég búin að segja honum sorgarsöguna af pakkanum og spurði hann hvort hann væri nokkuð á leið til Íslands. Svo var nú ekki, en fullur samúðar með mér, tók hann þá ráðherralegu ákvörðun að veiðimálastjóri Íslands, sem bjó á sama hóteli og hann og væri á leið heim næsta dag, tæki pakkann fyrir mig. Því næst bauð hann mér að koma með sér upp á hótel og hitta manninn, en hann reyndist þá vera úti í New Jersey við að koma farangri sínum á skip. Hann var væntanlegur eftir klukkutíma og þá bauð Lúðvík mér inn til sín til að hitta konuna sína, hana Fjólu, og drekka með þeim kaffi. Næsta klukkatíman sat ég hjá þeim hjónum í góðu yfirlæti og, eins og við var að búast, spurðu þau mig út í ættir mínar og uppruna og kom í ljós að þau þekktu móðurfólkið mitt að austan og svo hafði Lúðvík verið í skóla með föðursystur minni. Að klukkutíma liðnum, þá birtist veiðimálastjóri og afhenti ég honum pakkann umyrðalaust, sem hann síðan kom sómasamlega til skila til tengdaforeldra minna.
Ég var að vonum sporlétt þegar ég yfirgaf hótelið og kom heim, pakkalaus, með sigurbros á vör. Þegar konan sem deildi með okkur íbúðinni í Litlu Ítalíu, grennslaðist fyrir um gleði mína, sagði ég henni alla sólarsöguna, hvernig ég hefði haldið að ég yrði að drösla skeiðarekkanum aftur heim, þar til ég hitti mann á götu, sem leysti þann vanda fyrir mig. Þegar ég sagði henni frekari deili á manninum, þá urðu stóru augun hennar enn stærri og munnurinn gapandi, og svo sagði hún:
“Hugsaðu þér ég hefði verið á götu í Róm og í vandræðum með að koma til skila pakka til mömmu hér í Ameríku og ég hefði rekist á mann á götu, eins og til dæmis Henry Kissinger, og beðið hann um að taka pakkann fyrir mig. Það hefði aldrei nokkurn tímann getað gerst”. – Að þeim orðum sögðum rann upp fyrir mér hversu mikið undur það er að vera íslendingur.