Jóhanna Margrét Einarsdóttir ritstjóri skrifar
Margir setja sér markmið í upphafi nýs árs og það gerði ég í fyrra. Ákvað að létta mig eða taka til í holdafarinu eins og hún Steinunn Þorvaldsdóttir líkamræktarkennari sagði svo eftirminnilega í pistli á Lifðu núna á síðasta ári. Það gerðist hins vegar ekkert nema ég lét mig dreyma um að léttast en það léttist víst enginn af draumunum einum saman. Sumarið leið og ég var jafn þung og í upphafi árs.
Undanfarin misseri hef ég af og til verið í tímum hjá líkamsrækt JSB í Lágmúlanum. Þar komst ég ekki hjá því að heyra um TT námskeiðin, frá Toppi til táar. Hafði raunar hitt konur sem höfðu náð undraverðum árangri í að léttast á þessum námskeiðum. Ég ákvað að slá til og hóf leika um mánaðamótin ágúst/september. Það voru þrír morguntímar í viku og svo mátti mæta í opna tíma eða tækjasalinn þegar maður vildi. Auk þess var fundur með Báru einu sinni í viku þar sem hún kenndi okkur sitthvað nytsamlegt sem lýtur að þyngdartapi.
Ég ákvað að mæta þrisvar í viku, fannst það alveg nóg. Í annarri viku fjölgaði ég skiptunum upp í fjögur og í þeirri þriðju í fimm skipti á viku. Mér fannst einfaldlega tímarnir svo fjölbreyttir og skemmtilegir að mig langaði að mæta oftar. Það gekk hins vegar brösuglega með þyngdartapið. Í byrjun léttist ég ekki neitt, en ég þyngdist ekki heldur. Að þremur vikum liðnum og svo sem einu kílói var ég farin að örvænta. Þetta var ekki það sem ég sá fyrir mér þegar ég lét mig dreyma um að megrast á ógnarhraða og ná fyrri þyngd á undraskömmum tíma. Samt fannst mér ég vera að gera allt rétt, borðaði eins og spörfugl og hreyfði mig helling. Ég bar mig upp við Báru og kennarana og kvartaði sáran. Svarið sem ég fékk var að ég borðaði annaðhvort of mikið eða hreyfði mig ekki nóg. Svo var stungið upp á því að ég fjölgaði dögum þar sem ég borðaði létt og léti súpu eða annað léttmeti duga í kvöldmat. Það hreif.
Ég byrjaði að léttast og eftir sex vikur var ég orðin tæpum fjórum kílóum léttari en í upphafi. Þetta var langt í frá línuleg létting, ég þyngdist og léttist á víxl -en kílóunum fækkaði smátt og smátt. Ég ákvað að taka annað sex vikna námskeið og það gekk ágætlega þangað til í áttundu viku, þá hætti ég að léttast. Hélt þó áfram að mæta vel og borða skynsamlega. Svona gekk þetta í þrjár vikur en þá fór kílóunum aftur fækkandi. Í þrettándu viku voru tæp tíu kíló farin. Ég orðin öll önnur búin að ná mínum markmiðum og komin í „rétta þyngd“. Ég ákvað samt að halda áfram og klára sextán vikur. Ég léttist um rúmt kíló til viðbótar, ákvað gera það svo ég hefði upp á eitthvað að hlaupa um jól og áramót sem var mjög góð ákvörðun því ég þyngdist um næstum tvö kíló í fríinu.
Allir sem eru á TT fá matarplan til að styðjast við og fjöldann allan af góðum uppskriftum. Ég fylgdi planinu gróflega, borðaði að vísu sjaldnar en gert var ráð fyrir, tók svokallaða 17:7 föstu, en hún er þannig að maður fastar í 17 tíma, en má boða innan 7 tíma rammans. Það hentaði mér einfaldlega að gera þetta þannig. Öðrum hentar kannski eitthvað annað. Hver og einn verður að finna sinn takt. Það er ekkert einfalt að ætla að skafa af sér aukakílóin en það hefst. Mér fannst ég líka læra margt nytsamlegt á TT námskeiðunum svo sem að taka léttan dag á eftir matarmiklum degi. Yfirleitt veit fólk hvort það er að fara í veislur eða í matarboð með einhverjum fyrirvara. Ég fór í mínar veislur og í flest þau matarboð sem ég var boðin í. Ég undirbjó mig hins vegar undir boðin, með því að taka tvo til þrjá létta daga áður og fá mér að borða heima áður en ég mætti. Eitt til tvö egg eða hafragrautssletta kemur í veg fyrir að maður freistist um of. Svo er það framhaldið, nú er ég ekki lengur á TT og hef ekki það utanumhald sem ég hafði þar. Ég ætla hins vegar að halda áfram að mæta í ræktina fjórum til fimm sinnum í viku og vigta mig reglulega. Ég veit að fenginni reynslu að það er auðveldara að ná af sér tveimur til þremur kílóum sem geta safnast upp þegar maður fer í frí, heldur en ef maður leyfir þessu að danka og kílóin verða tíu, tuttugu eða enn fleiri. Svo er að viðhalda þessu þyngdartapi um það mun ég skrifa annan pistil í vor.