Þegar við hugsum um hvort við eigum að geyma eitthvað handa barnabörnunum til að gefa þeim þegar þau fullorðnast dettur okkur flestum í hug málverk, peningar eða skartgripir. En það eru aðrir hlutir sem barnabörnunum gæti þótt gaman að fá í hendurnar þegar fram líða stundir og kosta ekkert eða næstum ekki neitt.
- Dagblað sem var gefið út daginn sem þau fæddust. Flestum finnst gaman að vita hvað var að gerast í veröldinni daginn sem þau fæddust. Ef ekki er hægt að fá dagblað er sem best hægt notast við tímarit sem var annað hvort gefið út í vikunni eða mánuðinum sem barnabarnið fæddist. Á tímum stafrænnar tækni finnst krökkum kannski enn skemmtilegra að fá blað í hendurnar en ykkur hefði þótt á þeirra aldri.
- Gömul skjöl. Til dæmis giftingavottorð afa og ömmu, fyrsta ökuskírteinið, gamalt háskólaskírteini og svo framvegis. Um leið og þið gefið barnabörnunum þetta gæti verið gaman að rifja upp atburði sem tengjast þessum skírteinum og vottorðum.
- Gamlar fjölskylduuppskriftir. Margir eiga góðar minningar frá fjölskyldumáltíðunum. Það þarf ekki finna uppskrift að hverri einustu máltíð sem fjölskyldan hefur borðað saman ein eða tvær geta alveg dugað. Geymið einungis uppskriftir af réttum sem þið hafið útbúið fyrir fjölskylduna eða með barnabörnunum. Ef uppskriftirnar eiga sér sögu innan fjölskyldunnar látið þá söguna fylgja með uppskriftinni.
- Mynd af ykkur þar sem þið haldið á barnabörnunum í frumbernsku. Flestir geyma myndir nú til dags á stafrænu formi. Finnið endilega eina eða tvær og látið setja þær á pappír. Börnum á öllum aldri finnst gott að vita að þau hafa verið elskuð frá fæðingu.
- Gömul flík. Flestir geyma einhverja flík sem þeir áttu þegar þeir voru ungir, annað hvort vegna þess að góða minningar fylgja flíkinni eða hún var sérlega smart þegar hún var keypt. Tískan fer í hringi og það er aldrei að vita nema barnabörnin hafi gaman að því að nota gömul föt af ykkur.
- Fjölskyldutré. Búið til ættartré þar sem hægt er að sjá hvernig fólk í fjölskyldunni tengist. Ef hægt er setjið þá myndir með hverju nafni. Þegar elsta fólkið í fjölskyldunni fellur frá glatast oft mikilvæg vitneskja um fjölskylduna. Börnum finnst gaman að vita um forfeður sína.
- Eitthvað sem hefur skipt þig máli. Gömul plata eða bíómynd sem þið látið færa yfir á stafrænt form. En það getur líka verið medalía sem þú fékkst þegar þú tókst þátt í fótboltamóti, miði frá tónleikum sem þú fórst á, farmiðar til útlanda eða eitthvað í þessa veru. Krökkum finnst gaman að vita af hverju þetta skiptir þig máli segðu þeim sögur af því.
- Uppáhaldsbókin þín þegar þú varst barn. Lestur er mikilvægur fyrir vitsmunalegan þroska barna. Að gefa barnabarninu bók sem þér fannst skemmtileg eða finna nýtt eintak af bók sem þú áttir einu sinni getur aukið áhuga þeirra á lestri. Þetta gefur ykkur líka tækifæri á að skiptast á skoðunum um efni bókarinnar. Enn betra er að lesa bókina upphátt með þeim það er fátt sem skapar jafn náin tengsl milli afa og ömmu og barnabarnanna.