Það er hægt að finna ástina sama á hvaða aldri fólk er. Einn af þeim sem hefur hjálpað fólki finna að nýjan ástvin er Björn Ingi Halldórsson forritari og eigandi vefjarins Makaleit.is. Vefurinn hefur verið í lofinu frá því snemma árs 2013. Í dag eru um 950 virkir notendur á vefnum, flestir á aldrinum 40 til 70 ára. Það skemmtilega er að kynjahlutföllin á Makaleit.is eru nánast jöfn, um 50 prósent konur og álíka margir karlar.
Björn Ingi segir að honum þyki mjög vænt um vefinn og öll þau góðu skilaboð sem hann hafi fengið frá fólki í gegnum tíðina. Hann segir að notendur séu duglegir að hafa samband og láta vita hvernig hafi gengið og hvað þá langi til að boðið sé upp á. „Það er algengt að fólk hafi samband og segi að það langi til að hitta aðra sem eru í svipuðum sporum og það sjálft í öruggu umhverfi. Þetta varð til þess að ég ákvað að bjóða upp á hraðstefnumót á Hressó. Þau gengu vel og fólk var nokkuð ánægt. Fólk hafði tækifæri til að hittast og ræða stuttlega saman. Svo fékk ég ábendingar um að halda spilakvöld. Við stóðum fyrir nokkrum slíkum á Café Loka á Skólavörðustíg. Þar vorum við í lokuðum sal, þar sem fólk spilaði og spjallaði. Það var raunar svo gaman að þátttakendur voru ekkert á því að fara heim þegar staðnum var lokað, þeir vildu sitja áfram og spjalla,“ segir Björn Ingi.
Hann fékk nokkuð mörg skemmtileg skilaboð frá þeim sem tóku þátt í spilakvöldunum. „Frábært – eiginlega bara yndislegt að eiga góða stund með makaleitarfólkinu. Enginn að pæla í neinu eða neinum, bara spjallað, spilað og snarlað. Ég meira að segja lærði nýtt spil,“ voru skilaboðin frá 67 ára gamalli konu. „Mætti á spilakvöld hjá Makaleit.is á Café Loki og er skemmst frá því að segja að það fór fram úr björtustu vonum, mjög góð leið til að kynnast fólki og áður en ég vissi af var tíminn floginn í burt. Takk fyrir mig,“ sagði 54 ára karl.
Það átti að halda páskaeggjanámskeið nú í aðdraganda páska. Þátttaka í því var ekki nógu og góð það varð því að aflýsa námskeiðunum. „Það voru nógu magar konur sem vildu taka þátt en karlarnir voru eitthvað
feimnir við þetta. Við förum ekki af stað með námskeið nema það séu jafnmargir karlar og konur sem skrá sig til leiks,“ segir Björn Ingi og bætir við að þetta hafi verið mikil vonbrigði fyrir konurnar sem voru búnar að skrá sig.