Þessi einfalda kjúklingauppskrift er ættuð frá Portúgal. Það besta við hana er að hér er allt eldað í einu fati og það sparar heilmikla vinnu. Það sem tilþarf er þetta:
2 hvítlauksrif marin
1 rauður chilli fræhreinsaður og skorinn smátt
2 msk rauðvíns edik
1 msk olífuolía
1 msk púðursykur
1 msk paprikuduft
1 msk oreganó smátt saxað
1 tsk sjávarsalt
2 kg. kjúklingur í bitum
1 kg kartöflur skornar í hæfilega bita
2 rauðlaukar skornir í báta
Setjið olíu, hvítlauk, chilli, rauðvínsedik, púðursykur, paprikuduft, oreganó og salt í skál og blandið vel saman. Setjið kjúklingabitana út í og passið að kryddblandan þeki þá vel. Lokið með plastfilmu og látið standa í ísskáp í að minnsta kosti tvo tíma.
Hitið ofninn í 200 gráður. Setjið kjúklingabitana í eldfast mót. Skerið kartöflurnar í hæfilega bita og laukinn í báta og stingið inn á milli kjúklingabitanna. Bakið í ofni í um klukkustund eða þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Snúið bitunum nokkrum sinnum á meðan þeir eru að bakast. Verði ykkur að góðu.