Ávallt barist fyrir bættum kjörum eldri borgara

Samanburður á tekjum þeirra sem hafa ellilífeyri frá Tryggingastofnun og lágmarkslaunum sýnir að tekjur þeirra sem eru um miðbik hópsins sem fær greiðslur frá TR hafa á síðustu þremur árum lækkað um fimm prósent sem hlutfall af lágmarkslaunum. Lifðu núna hefur beðið alla nefndarmenn velferðarnefndar Alþingis að svara fjórum spurningum um kjör eldri borgara. Svör  þeirra birtast í starófsröð og hérna koma svör Ásmundar Friðrikssonar sem á sæti í velferðarnefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins?

Öllum ber réttur til að fá úrlausn sinna mála fyrir dómstóli. Það ber hins vegar að hafa hugfast að ákvæði 59. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja sjálfstæði dómstóla gagnvart handhöfum framkvæmdavaldsins. Það er því ekki hlutverk þingmanna að aðhafast vegna mála sem rekin eru fyrir dómstólum hvað sem þeim kunni svo að finnast um tilefni viðkomandi málshöfðunar. Ég gef dómstólunum því það svigrúm sem þeir eiga að fá án aðkomu þingmanns.

Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu eins og staðreyndin er?

Tekjur þeirra sem fá lífeyri frá ríkinu eru ákvarðaðar í fjárlögum sem jafnan eru samþykkt á Alþingi og gilda fyrir næstkomandi fjárlagaár. Með fjárlög fer eins og önnur lög frá Alþingi að þau gilda nema þingið taki lögin upp og breyti þeim, tekjuforsendum þeirra eða útgjaldaliðum með aukafjárlögum. Slíkt er ekki gert nema í neyð eins og gerst hefur á þessu ári undir afar sérstökum aðstæðum. Þetta á ekki við um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Til upprifjunar þá mælir vísitala neysluverðs þróun á verðlagi, byggða á mánaðarlegum könnunum Hagstofunnar á verði vöru og þjónustu sem landsmenn kaupa. Á nokkurra ára fresti kannar Hagstofan hvaða vörur og þjónustu hin dæmigerða fjölskylda kaupir þannig að samsetningin breytist í takt við breytingar á neyslu. Launavísitalan sýnir breytingar á launum á almennum og opinberum vinnumarkaði milli mánaða og byggir á upplýsingum um launagreiðslur fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga.

Í 69. gr. laga um almannatryggingar er það skýrt að greiðslur almannatrygginga hækka í samræmi við fjárlög og skal taka mið af launaþróun,  þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að bætur lækki ekki skyndilega ef launaþróun er neikvæð eins og ástatt er á vinnumarkaðnum nú.

Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar?

Ellilífeyrir getur að hámarki verið 256.789 kr. á mánuði árið 2020. Þeir sem búa einir fá aukalega greidda heimilisuppbót sem getur mest numið 64.889 kr. Tekjur umfram frítekjumörk skerða greiðslurnar um 45%. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni lagt til að umrædd skerðingarprósenta verði lækkuð í áföngum. Skerðingarhlutfall heimilisuppbótar er 11,9%. Greiðslur ellilífeyris falla niður ef viðkomandi er með meira en 595.642 kr. á mánuði eða 7.147.707 kr. á ári.

Ég tel það ekki eðlilegt að þingmaður sem hefur um 1,3 milljónir króna í laun á mánuði eigi við 67 ára aldur að fá viðbótaraðstoð til framfærslu frá TR upp á 300.000 kr. launauppbót á mánuði meðan hann situr á Alþingi. Þann rétt ætti þingmaðurinn á meðan hann situr á Alþingi og síðan til viðbótar lífeyrissjóðsgreiðslur til dauðadags. Margir þingmenn og ráðherrar hafa góðan lífeyrissjóð  og ég tel það ekki í verkahring TR að vera viðbótar öryggisnet fyrir afkomu einstaklinga sem þegar hafa góð eftirlaun af lífeyrissjóði. Þetta á við um marga fleiri, jafnt opinbera starfsmenn sem launafólk á almennum vinnumarkaði og atvinnurekendur. Það er síðan alltaf spurningin um hvar skurðpunktur skerðinga liggur og eðlilegt að takast á um þá hagsmuni.

Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna?

Almennt frítekjumark sem hægt er að nýta fyrir allar tekjur, þ. á m. atvinnutekjur nemur 25.000 kr. á mánuði eða 300.000 kr. á ári. Sérstakt frítekjumark atvinnutekna, sem nemur 100.000 kr. á mánuði, bætist við almenna frítekjumarkið en á einungis við um atvinnutekjur. Ef bæði frítekjumörkin eru nýtt að fullu hækkar fjárhæðin sem greiðslur falla niður við um fjárhæð sérstaka frítekjumarksins vegna atvinnutekna, þ.e. um 1.200.000 kr. á ári.

Þess ber að geta að á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins var lengi vel stefnt að því að breyta almannatryggingalögum á þann veg að einstaklingar gætu búið sig undir sveigjanleg starfslok með því að starfa lengur á vinnumarkaði og fresta töku lífeyris. Sá árangur náðist með lagabreytingu árið 2016 sem heimilaði einstaklingum að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins.

Þá má geta þess að eldri borgari getur frá 65 ára aldri tekið hálfan lífeyri frá TR á móti atvinnutekjum án þess að skerða lífeyrinn og haldið áfram að greiða í lífeyrissjóð til 70 ára aldurs. Þá geta 60 ára og eldri hafið töku hlutalífeyris með atvinnutekjum svo það eru til margar leiðir að vinna lengur og hyggja vel að sínu ævikvöldi.

Ég hef alla tíð barist fyrir því að bæta kjör eldri borgara og þá ekki síst þeirra sem af ýmsum ástæðum höfðu ekki tækifæri til að byggja upp réttindi í lífeyrissjóðum, nema að takmörkuðu leyti. Ég er sannfærður um að þar sé verk að vinna. En um leið er einnig nauðsynlegt að halda til haga að almennt hefur tekjuþróun eldri borgara á síðustu árum verið hagstæð. Þannig hækkuðu ráðstöfunartekjur 66 ára og eldri að meðaltali um 5,5-6% á ári frá 2012 til 2018.

Að lokum, þá kemur það mér á óvart að Lifðu núna spyr ekkert um kjör þeirra 3500 eldri borgara sem hafa eingöngu framfærslu á strípuðum bótum og eiga engan rétt í lífeyrissjóði, geta ekki aflað sér tekna á vinnumarkaði og hafa engar fjármagnstekjur. Það er hópurinn sem kallar á baráttu fyrir betri kjörum og ég hef mesta samúð með. Ég hef margoft komið þeim skoðunum mínum á framfæri um stöðu þessa hóps

Til upprifjunar:

Þegar tekjur þeirra sem hafa ellilífeyri frá Tryggingastofnun eru bornar saman við lágmarkslaun, kemur fram að tekjur þeirra hafa á síðustu þremur árum lækkað um fimm present sem hlutfall af lágmarkslaunum. Laun þeirra allra lægstu hjá TR hafa lækkað enn meira eða um 6,7 prósent og voru heildartekjur þeirra 11,8 prósent undir lágmarkslaunum. Með breytingum á almannatryggingalögum 2017 tókst að bæta kjör eldri borgara en ekkert framhald hefur orðið síðan þá.

Ef ellilífeyrir er borinn saman við launaþróun þá kemur í ljós að vísitala neysluverðs hækkaði aðeins um 32,7% á meðan launavísitalan hækkaði um 91%. Ellilífeyrir án heimilisuppbótar samanborið við heildarlaun á vinnumarkaði hækkaði um 58% 2010-2019 en heildarlaun á vinnumarkaði hækkuðu um 71% og lágmarkslaun um 92%. Þingfararkaup hækkaði á þessu tímabili um 112%. Það kemur því berlega í ljós að eldri borgarar sitja eftir.

Grái herinn hefur ákveðið að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort það samræmist stjórnarskrá að skerða lögbundin eftirlaun frá almannatryggingum. Þrír einstaklingar höfða málið gegn skerðingunum fyrir hönd Gráa hersins og hefur það þegar verið þingfest. Málið er einkum reist á þeim forsendum að skerðingarnar stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði um mismunun.

 

Ritstjórn ágúst 20, 2020 11:31