Hver kannast ekki við að hafa keypt of mikið af banönum sem smám saman þroskast meir og meir þangað til ekkert er að gera annað en henda þeim. Þá hellist samviskubitið yfir mann yfir að hafa nú ekki borðað þennan holla mat. Þeir verða sætari eftir því sem þeir þroskast og þá er auðvitað tilvalið að nota þá í matargerð. Bananabrauð er hollt og gott og þegar búið er að bæta valhnetum saman við er brauðið orðið að sælkerafæði. Með íslensku smjöri er það ómótstæðilegt. Varast skal að láta bananana þroskast of mikið ef nota á þá í brauðgerð. Þeir gefa ramman keim þegar þeir eru orðnir svartir. Hér uppskrift sem gengið hefur mann fram af manni.
3 mjúkir bananar
100 g smjör, mjúkt
2 egg
vanilludropar
100 g valhnetukjarnar, meira ef vill
200 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 g sykur
Skerið bananana í bita og látið í hrærivél ásamt smjörinu. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið áfram. Saxið valhneturnar og látið megnið af þeim út í deigið. Geymið hluta af þeim til að setja yfir í lokin. Blandið þurrefnunum saman og bætið í hrærivélarskálina. Klæðið aflangt kökuform með bökunarpappír, setjið deigið í og stráið valhnetubrotunum sem eftir voru yfir. Bakið við 180°C hita í miðjum ofni í u.þ.b. 50 mín. Brauðið er best daginn eftir og gott að smyrja það með íslensku smjöri.