Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar – 9.ágúst 2021
Í dag 9. ágúst 2021 hefði móðir mín, Sigríður Guðbrandsdóttir, orðið 96 ára gömul. Hún var fædd 9. ágúst 1925, en lést 24. febrúar 2013. Á tuttugu ára afmælisdegi hennar, þann 9. ágúst 1945, vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengju á Nagasaki, en þrem dögum fyrr, eða 6. ágúst, höfðu þeir varpað sams konar sprengju á Hiroshima.
Endanlegur tölur um mannfall vegna sprenginganna liggja ekki fyrir, en talið er að um að minnsta kosti 220.000 Japanir hafi látist vegna þeirra. Meiri en helmingur þeirra lést samstundis, en aðrir létust síðar vegna geislavirkninnar, sem fylgdi í kjölfar sprengjunnar.
Skuggi þessara voðaverka, sem talin eru ein af þeim verstu í mannkynssögunni, skyggði ekki á gleði móður minnar á tuttugu ára afmælisdegi hennar þann 9. ágúst 1945.
Fréttin um að Japanir hefðu lýst sig sigraða barst um heimsbyggðina daginn eftir afmælið eða þann 10. ágúst, að vonum við mikinn fögnuð.
Mikil leynd hvíldi yfir árásunum tveimur og bandarísk hernaðaryfirvöld meinuðu blaðamönnum aðgang að Hiroshima og Nagasaki í kjölfar þeirra. Fyrir vikið var í fyrstu lítið vitað af mannfalli og öðrum afleiðingum kjarnorkusprengjunnar á borgirnar tvær.
Það var ekki fyrr en bandaríski blaðamaðurinn John Hersey tókst að smygla sér inn í Hiroshima tæpu ári eftir að sprengjurnar féllu, að fréttir um hinar hörmulegu afleiðingar hennar urðu almenningi kunnar. John Hearsy hafði starfað sem fréttamaður á vígvöllum Evrópu í stríðinu og hafði séð margt ljótt á sínum ferli, en eins og hann sagði síðar frá, hafði hann aldrei séð neitt sem jafnaðist á við hryllinginn í Hiroshima.
John Hersey birti ítarlega grein um ástandið í Hiroshima í tímaritinu The New Yorker í lok ágúst árið 1946. Engar aðrar greinar en hans voru birtar í því eintaki og engin grein í sögu New Yorker hefur verið jafn mikið lesin og greinin hans.
Við birtingu hennar urðu heiminum fyrst ljósar hinar skelfilegu afleiðingar kjarnorkusprengjunnar. Upp frá því fór fólk víða um heim að minnast árásanna tveggja þann 9. ágúst ár hvert, svo gleðin yfir afmæli móður minnar var ávallt blönduð minningum um árásirnar tvær.
En lífið er undarlegt og skrítið. Á tuttugu ára afmæli móður minnar hefði það aldrei hvarflað að henni, að fimm árum síðar mundi hún sjálf vera gift kona og búsett í landinu þar sem kjarnorkusprengjan féll á afmælisdegi hennar fimm árum áður. Hún og faðir minn bjuggu í Tókíó í tvö ár, en þar starfaði faðir minn sem barnalæknir á sjúkrahúsi, sem þjónaði Bandaríkjamönnum, sem unnu við uppbyggingu Japans eftir stríð.
Móðir mín heillaðist af Japan, japanskri menningu og listum og tileinkaði sér japanska brúðu-, blóma- og matargerðarlist og setti dvöl hennar í Japan mikinn svip á heimili okkar. Móðir mín þráði alltaf að fara aftur til Japans, en það varð þó aldrei raunin.