Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar.
Íslensk fyndni er síbreytileg og aldrei tímalaus. Á síðustu öld komu út um árabil vinsæl bókarhefti, Íslensk fyndni. Nútíma grínistar nota það sem brandara hversu ófyndnar þessar sögur eru. Sama máli gegnir reyndar um nútímafyndni. Ég held að Georg Bjarnfreðarson þyki ekki skemmtilegur eftir 30 ár. Hann er alltof tengdur inn í samtímann á sama hátt og íslensk fyndni Gunnars Sigurðssonar frá Selalæk. Föður mínum þótti Heljarslóðarorrusta Benedikts Gröndals skemmtilegasta bók sem skrifuð hafði verið. Nútímamenn hafa engan skilning á þeirri fyndni.
En hvað einkennir íslenska fyndni?
Hún er oft meinleg og grótesk. Hún er háðsk og dregur fram ákveðna veikleika þess sem sagt er frá. Bestu sögurnar eru alltaf persónulegar. Þær eru skemmtilegar fyrir þá sem þekkja viðkomandi aðila en ófyndnar fyrir aðra.
Dæmi um slíka sögu er:
Það eru tveir Jónar á Skeiðunum. Annar er göfugmenni, hinn býr í Vorsabæ.
Íslensk fyndni gengur að verulegu leyti útá að gera gys að jaðarsettum hópum í samfélaginu, niðursetningum, förufólki og alls konar vesalingum. Þetta fólk er venjulega nafngreint og jafnvel ættfært. Á síðustu öld voru sögur af Lása kokki og Hauki pressara sérlega vinsælar. Lási var sagður hafa sagt þegar skipið var að sökkva og menn báðu hann að forða sér: „Skipið er að sökkva, skipið er að sökkva og ég ekki búinn að vaska upp.“ Báðir voru þeir hluti af bæjarbrag Reykjavíkur svo að allir þekktu þá.
Nafngreint par, niðursetningar úr Landeyjunum, sigldu frá Vestmannaeyjum og í land. Konan, sem hét Gunna, var ólétt. Í lendingunni gekk brot yfir bátinn og konan féll útbyrðis en skaut strax upp aftur. Einn skipverja bjargaði henni upp í bátinn. Menn lofuðu snarræði sjómannsins og kjark. Kærastinn stóð álengdar og fannst hrifning viðstaddra ganga út í öfgar svo að hann sagði upp úr eins manns hljóði drýgindalega: „En hverjum var það að þakka að Gunna flaut?“
Margar sögur eru sagðar af prestum. Sr Róbert Jack átti þannig að hafa sagt í trúarjátningunni: Kristur var getinn af Pontíusi Pílatusi, píndur undir Maríu mey og steig á þriðjudögum niður til heljar. Jón prestur Halldórsson í Reykjahlíð sagði: Ég hef með guðs hjálp komist yfir allar konur í sókninni nema tvær.
Á liðinni öld var lausavísan stór þáttur af íslenskri fyndni. Gott dæmi er þessi vísa sem sögð var ort um þekktan útgerðarmann:
Víst er Helgi vinur sára fárra.
Virtur lítt af sínum næstu grönnum
En útlitið er innrætinu skárra
er hann þó með skuggalegri mönnum.
Margar sögur voru sagðar af hrokafullum sýslumönnum og kaupmönnum. Í slíkum tilvikum var fyndnin borgaraleg óhlýðni þar sem fólk gat hlegið að yfirvaldinu sem það hræddist öðru meira.
Íslensk fyndni hefur þróast með árunum. Hún er orðin meinlausari og dregur dám af alþjóðlegri fyndni. Hún er á engan hátt eins persónuleg og hún var. Hagmælsku þjóðarinnar hefur hrakað mjög svo að lausavísan er ekki eins áberandi og áður. Nú á tímum gæti enginn sem betur fer sagt gamansögur af undirmálsfólki eða vesalingum eins og tíðkaðist á liðinni öld. Slíkar sögur eru meiðandi og smánandi fyrir viðkomandi hópa. Þjóðinni hefur fjölgað og fólk þekkist ekki eins vel og áður. Fámennið skapaði grundvöll fyrir sögur sem spruttu af sjálfu sér um ákveðna einstaklinga.
Hefur íslensk fyndni batnað? Því getur enginn svarað. Fyndni er alltaf barn síns tíma. Hún úreldist og missir marks með tímanum og ný kemur í staðinn.