Félag eldri femínista hefur ákveðið að byggja kvennahús þar sem eldri konur munu búa og eldast saman. Ætlunin er að í húsinu verði 23 litlar íbúðir, en á jarðhæðinni verði sameiginleg aðstaða og kaffihús, bæði fyrir konurnar og aðra í hverfinu. Garður verður einnig sameiginlegur. Þetta kom fram á fundi sem haldinn var nýlega hjá Reykjavíkurborg undir heitinu Hvar viljum við búa? Sjálfstæð búseta eldri borgara. Það voru Öldungaráð Reykjavíkur og borgin sem héldu fundinn.
Systrahúsið á sér fyrirmynd í París
Það er ekki alveg nýtt að eldri femínistar byggi slík hús, en fyrirmyndin er sótt í Baba Yaga systra- eða nornahúsið sem var reist í París fyrir rétt tæpum 30 árum. Það var fyrsta húsið sinnar tegundar, en síðan hafa fleiri kvennahús í þessum anda verið byggð. Fyrir þá sem ekki vita var Baba Yaga norn í slavneskum þjóðsögum. Margrét Ágústsdóttir sagði frá verkefninu á fundinum, en ætlunin er að reisa húsið á lóðinni á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Um konurnar sem standa að byggingunni sagði Margrét: „Okkur langaði að hafa áhrif á það sjálfar hvernig við eldumst.“ Hún sagði að húsið yrði sjálfbært, þær myndu sjá um sem mest sjálfar, en einnig kaupa þjónustu að og halda áfram að taka þátt í samfélaginu.
Hjálpa hver annarri að lifa með reisn
Eldri íbúum fjölgar bæði á Íslandi og annars staðar og margir vilja ráða hvernig þeir búa. Margrét segir það færast í vöxt að fólk vilji búa í kjarnasamfélögum með öðrum sem hafa svipuð áhugamál og lífsviðhorf. Um 8% Dana velja þetta sambúðarform. „Við erum femínistar og viljum ráða okkur sjálfar. Við munum virða einkalíf íbúanna í húsinu en hjálpa hver annarri að lifa með reisn,“ segir Margrét.
Spennandi sambúðarform
Á fundinum voru sýndar myndir af fyrirhuguðu húsi, sem er þó ekki enn fullhannað, en það virtist mjög fallegt og sambúðarformið spennandi. Hugmyndin byggist á því að íbúarnir taki þátt í nærsamfélginu, umhverfið verður vistvænt og þarna verður til að mynda samnýtanlegur rafmagnsbíll. „Öldruðum fjölgar og nú stefnir í að þeir verði um fjórðungur íbúa. Það hefur sýnt sig að það er ákveðin hætta á að eldra fólk einangrist, verði einmana og þunglynt. Við ætlum að búa sjálfstætt og hjálpa hver annarri,“ segir Margrét og bætir við að allir hópar geti tekið sig saman og spurt sig hvernig þeir vilji búa og í framhaldinu fengið byggingaraðila til að byggja íbúðirnar.