Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar
Ég verð fljótur í gegn, hugsaði ég með mér, búinn að bóka mig í flugið og aðeins með handfarangur. Frúin var farin nokkrum dögum á undan mér í kvennaferð til Valencia á Spáni, þeirrar fallegu borgar. Við ákváðum að hittast að lokinni kvennaferðinni á flugvellinum í Alicante. Hún yrði því eftir með mér í því sólbakaða landi þegar kvennahópurinn héldi heim.
Ég hélt því einn utan árla morguns. Seint kvöldið áður barst mér sms-skeyti frá mínum betri helmingi. Ég taldi víst að konan saknaði mín og vildi láta þess getið í stuttu skeyti, milli þess sem vinkonurnar lyftu glösum í borginni suðrænu. Hafi svo verið þá nefndi hún það ekki sérstaklega. Í skeytinu stóð aðeins: „Komdu með fennel.“ Ætla mætti að það að biðja um innflutning á fennel til Spánar sé eins og að fara með kaffi til Brasilíu – eða að flytja vatn til Íslands (sem er víst gert í stórum stíl) – en málið er ekki alveg svo einfalt.
Fyrir ári eða svo vissi ég ekki hvað fennel var. Þá vorum við líka stödd á Spáni. Fyrirhugað var að kaupa kræklinga í kvöldmatinn, einn af uppáhaldsréttum konunnar. Við vorum því sendir í leiðangur, ég og tengdasonur okkar, til kræklingakaupanna. Mikilvægt var líka að kaupa fennel, því besta uppskrift að kræklingasoði ku innihalda þá jurt. Ég lærði þá að fennel, sem einnig kallast fennika upp á íslensku, er kryddjurt, laukur í ætt gulróta, dills og kóríanders, svo eitthvað sé nefnt. Leyndarmál fennelsins er anís- eða lakkrísbragð sem tónar vel við ýmsar súpur og fleira gott, þar á meðal soð af kræklingum.
Við héldum því bjartsýnir af stað í risaverslun Carrefour þar sem nánast allt milli himins og jarðar fæst. Grænmetisborðið er hlaðið jurtum sem ég kann engin skil á en það var sama hversu vandlega við leituðum, fennel fundum við ekki. Við brugðum meira að segja upp mynd af fennellauknum í síma og sýndum starfsfólki, en það kom af fjöllum.
Fennellausir ætluðum við ekki að koma til baka svo við leituðum víðar, búð úr búð, gott ef þær voru ekki einar sjö sem við heimsóttum. Það dugði ekki til. Fennel var ekki að fá á Spáni, að minnsta kosti ekki í okkar nærumhverfi. Þetta er furðulegt því síðari tíma rannsóknir mínar sýna að Spánn er eitt þriggja helstu ríkja sem skaffa Íslendingum innfluttan fennel. Það breytir því þó ekki að frúin varð að sjóða kræklinginn án fennels.
Nú, ári síðar, skyldi komið í veg fyrir það. Þess vegna fékk ég skeytið um fennelkaupin. Orðsendingin barst það seint að venjulegar verslanir höfðu lokað – en það má alltaf bjarga sér á nætursölu Hagkaups í Garðabæ. Ég gúgglaði því fennel, skoðaði myndina vandlega svo ég næði í rétta jurt og brunaði í Garðabæinn. Hagkaup stóð sig betur en Carrefour og aðrar spænskar verslanir því ég gekk beint að lauknum góða í grænmetisborði verslunarinnar.
Fennelið fór því í bakpokann sem ég hafði meðferðis á flugvöllinn morguninn eftir. Allt gekk eins og í sögu þar til ég kom að borði tollvarðanna þar sem pokinn góði var gegnumlýstur. Ég fylgdist með ferðalagi hans gegnum apparatið. Ef allt er með felldu kemur handfarangurinn beina leið eftir færibandinu. Bakpokinn minn gerði það ekki. Honum var ýtt til hliðar. Kona í hópi tollvarða kallaði til mín: „Átt þú þennan bakpoka?“ Ég gat ekki neitað því. „Má ég opna hann?“ spurði tollvörðurinn. Ég samþykkti það. Konan opnaði pokann þar sem fennelið blasti við, hvítur einmana laukur. Ég bjóst við hinu versta, að ég yrði stoppaður og tekinn afsíðis sem fyrsti fennelsmyglari landsins. Slíkt kæmi væntanlega í blöðum og þætti hin versta ósvinna, jafnvel með mynd af mér með svart strik yfir augun.
Til þess kom þó ekki. Tollkonan horfði í forundran á þennan ferðalang á leið til Spánar með fátt í farangrinum nema fennellauk. Af kurteisi við þann álf kaus hún að segja ekki neitt, hugsaði þó sitt, lokaði pokanum og afhenti hann.
Fennelið komst því alla leið til Spánar og gaf kræklingasoðinu hið eftirsótta anís- eða lakkrísbragð. Það kætti konuna og þá var tilgangi flutningsins náð, þótt legið hafi við um tíma að ég fengi bágt fyrir smyglið.
Við frekari rannsóknir mínar á fennel komst ég að því, samkvæmt upplýsingum Bændablaðisins, að í dag er fennellaukurinn þekktastur sem megrunarfæði sem, eins og þar segir, „lætur spikið hreinlega renna af fólki.“ Sérfræðingur blaðsins bætir því síðan við að með því að bera fennelblandaða jógúrt framan í sig sléttist andlitshrukkur eins og hendi sé veifað. Mikil undraplanta er fennel og ætti því að henta vel til fegrunar fyrir fólk sem komið er á virðulegan aldur.
Hvort einn smygllaukur dugar til slíks er þó önnur saga.