Ljóð eru tungumál ástarinnar

Ástarljóð hafa alltaf verið áhrifarík til heilla þann sem náð hefur að fanga athygli manns. Löng hefð er fyrir því að nota þetta form til að tjá sínar innstu tilfinningar og ótal karlmenn og konur skapað ódauðleg ljóð. Þeim sem vefst tunga um tönn geta farið í smiðju þeirra og gert þeirra orð að sínum.

Skáld-Rósa orti til allra mannann í lífi sínu ást sínu fallegar vísur.  Að vísu fer tvennum sögum af því hvort hún og Páll Melsteð hafi átt í ástarsambandi og þá hvort vísan um þá fögru steina, augun þeirra hafi verið ort til hans. Víst er hins vegar að vísur Rósu til Natans Ketilssonar voru heitar og oft berorðar.  Önnur kona sem þekkt var fyrir að tjá söknuð sinn eftir eiginmanninum sem skildi við hana var Guðný frá Klömbrum. Nú á dögum hika íslenskar konur ekki lengur við að birta skáldskap sinn og senda ástvinum sínum ljóð og lýsa bæði góðum og slæmum hliðum ástarinnar. Nefna má Lendar elskhugans eftir Vigdísi Grimsdóttur, Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Jökulsdóttur og Gerður Kristný í Blóðhófni.

Páll Ólafsson sendi Ragnheiði sinni eldheit ljóð, enda ást þeirra í meinum til að byrja með og sú tegund ástar er víst jafnan heitust. Ótal margir fleiri hafa notið þess að yrkja um sínar innstu tilfinningar og nokkrir íslenskir karlmenn hafa ort til eiginkvenna sinna þótt þeir hafi aldrei ætlað þeim kvæðum að koma fyrir almenningssjónir. Í Landanum var eitt sinn sagt frá Önnu Maríu Björnsdóttur sem hafði samið tónlist við kvæði sem afi hennar, Ólafur Björn Guðmundsson, orti til ömmu hennar, Elínar Maríusdóttur. Hjónaband þeirra varði í 60 ár og því úr þónokkrum ljóðum að velja. Anna María gerði einnig heimildamynd um þau hjónin og ást þeirra sem heitir, Hver stund með þér. Anna María sá ljóðin fyrst eftir að afi hennar og amma voru bæði látin.

Fóður fyrir ástina

Hjörtur Gíslason blaðamaður sagði einnig frá því viðtali eitt sinn að hann yrkir eina vísu á hverjum degi til konu sinnar Helgu Þórarinsdóttur. Hún finnur þær jafnan einhvers staðar á heimili þeirra og þær gleðja hana ávallt jafnmikið. Menn eru mishagmæltir og ljóðagerð á ekki við alla en nú er pappír öllum aðgengilegur og þótt menn noti ekki stuðla og höfuðstafi er hægt að senda ástinni sinni falleg skilaboð og ef manni dettur ekkert í hug hví ekki að fá lánaðar fagurlega mótaðar ljóðlínur frá einverjum snillingi.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt, hvað er,

aldrei skal eg gleyma þér.

(Skáld-Rósa)

 

Ástin þín er ekki dyggð,

ekki skylda heldur,

hún er ekki heldur tryggð,

hún er bara eldur.

(Páll Ólafsson)

 

Í fyrsta sinn und friðarboga eg sá þig,

um fjöll og himin lagði geislinn brú.

Eg starði björtum, feimnum augum á þig,

og ást mín spurði: Hver, ó, hver ert þú?

 

Nú langt er orðið síðan fyrst eg sá þig,

um sundin leggur hvítur máninn brú.

Eg stari dauðafölum augum á þig,

og aftur spyr mitt hjarta: Hver ert þú?

(Guðfinna Jónsdóttir)

Ritstjórn apríl 8, 2024 08:26