Döðlur líta ekki sérlega girnilega út. Brúnt ofurlítið hrukkótt yfirborð þeirra veldur því að þeir sem hafa ekki séð þær áður gætu haldið að um skemmdan ávöxt væri að ræða. Þær eru þó fullkomið dæmi um að ekki borgar sig að dæma eftir útlitinu mest því þessi ótrúlega gómsæti ávöxtur er bæði meinhollur, einstaklega sætur og sérlega góður í fjölbreytilega matargerð. Að auki eru döðlur fyrirtak fyrir húðina.
Döðlupálmi er ekkert sérstaklega velþekkt jurt á Íslandi, enda þarf hann mun þurrara og heitara loftslag en hér er. Talið er að hann eigi uppruna sinn í Marokkó en breiddist fljótt út um öll Miðausturlönd því bragðmiklir ávextir hans urðu fljótt eftirsóttir. Gamlar sagnir herma að döðlur hafi vaxið í Edensgarði og sumir meira að segja viljað meina að það hafi verið daðla en ekki epli sem Eva bauð Adam að smakka. En döðlupálminn er nefndur á nafn þónokkrum sinnum í Bíblíunni. Döðlupálmar eru ýmist kvenkyns eða karlkyns og aðeins kvenkynsplönturnar bera ávöxt. Þær byrja að gefa af sér fimm ára en ná fullri hæð og þroska tólf ára gamlar. Margar tegundir eru til af þessum ávöxtum þótt við þekkjum aðeins þessar brúnu þurrkuðu en þær geta verið skærgular, eldrauðar og allt þar á milli. Nánast öll blæbrigði þessara lita eru þekkt.
Lengi töldu menn að döðlur væru steinaldin vegna þess að steinn er í miðju ávaxtarins en svo er ekki. Döðlupálmar bárust til vesturstrandar Ameríku með spænskum trúboðum seint á sautjándu öld. Löngu síðar eða árið 1927 voru fluttir medjool-döðlupálmar upprunnir í Marokkó til Bandaríkjanna. Ellefu litlir sprotar voru geymdir í sóttkví í Nevada í sjö ár og þær níu plöntur sem lifðu hana af voru fluttar til Suður-Kaliforníu og plantað árið 1935. Medjool-döðlur þurfa mikla umönnun og bændur sem þær rækta verða að sinna þeim af umhyggju en þetta eru einu döðlurnar sem tína má beint af pálmanum, stinga upp í sig og njóta. Þessir níu litlu sprotar voru upphafið að umfangsmikilli ræktun og vinsældir döðlurnar jukust gífurlega í Bandaríkjunum.
Gott sætuefni
Döðlur eru borðaðar þurrkaðar einar og sér, notaðar í pottrétti einkum eiga þær vel við indversk krydd, góðar í salöt, kryddsultur, bakstur, alls konar mauk og ótalmargt fleira. Þær eru mjög sætar á bragðið og geta komið alveg í stað sykurs fyrir þá sem vilja draga úr sykurneyslu. Hægt er að fullyrða að þær séu ákaflega góður kostur því þær innihalda mikið af steinefnum, vítamínum og plöntunæringarefnum sem eru einstaklega holl fyrir líkamann. Þær eru trefjaríkar og bæta því meltinguna. Rannsóknir hafa sýnt að vegna þess að döðlur eru auðmeltar nýtast öll næringarefnin í þeim mjög vel.
Trefjarnar í döðlunum örva starfsemi ristilsins og hjálpa til við halda honum hreinum. Þær vinna einnig gegn uppsöfnun LDL-kólesterols í blóði og bindast ýmsum krabbameinsvaldandi efnum í líkamanum sem hreinsar þau úr meltingarveginum. Döðlur eru járnríkar, innhalda kalín sem er nauðsynlegt til að jafna hjartsláttinn og halda blóðþrýstingnum niðri. Þær eru einnig A-,B- og K-vítamínríkar og þær tilteknu tegundir þessara vítamína sem er að finna í döðlum hjálpa til við að viðhalda sjóninni, heilbrigði húðarinnar og rakahúð. Auk alls þessa er kopar, magnesíum, selen og mangan í döðlum.
En döðlur eru ekki bara næringarríkur og góður matur sem njóta má á margvíslegan hátt. Þær eru áhrifaríkt fegrunarlyf. Hakkaðar döðlur hafa um aldir verið notaðar í Jórdaníu, Dubai og Marokkó til að hreinsa húðina og gefa henni nýjan ljóma og líf. Nýlega fóru menn þar að gefa döðlukjarnanum aukinn gaum. Í ljós kom að hann inniheldur efni sem hægir á hormónabreytingum sem eru stærsti áhrifavaldur í öldrun húðarinnar. Nýjastu snyrtivörur þar eru unnar úr extrakt úr döðlukjörnum og þær gefa einstaklega góða raun. Já, döðlur eru sannarlega einstakir ávextir og enginn þarf að hafa samviskubit yfir að stinga upp sig fylltri döðlu eða lauma þeim í mat hvenær sem hægt er.
„Nýlega fóru menn þar að gefa döðlukjarnanum aukinn gaum. Í ljós kom að hann inniheldur efni sem hægir á hormónabreytingum sem eru stærsti áhrifavaldur í öldrun húðarinnar.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.