Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Ef marka má myndir á samfélagsmiðlum þessar vikurnar virðist sem hálf þjóðin sitji með tærnar upp í loft. Fólk er að láta sér líða vel á sólstólum með bjórglas við hönd. Í fjarska glittir í sólarströnd eða útsýni úr sumarbústað. Sjálfur sumarmunaðurinn. Á myndunum má sjá berar tær og krosslagða fótleggi, ýmist loðna eða vel snyrta og lakkaðar tær. Ef marka má þessar myndir mætti ætla að öll íslenska þjóðin væri með fallegar tær. Auðvitað er það ekki svo. Við hin birtum bara ekki myndir af tánum á okkur.
Samkvæmt erlendum fréttamiðlum eru léttir sandalar í tísku þetta sumarið. Systir mín er búin að kaupa sér fallegt par. Þessi tíska eru vondar fréttir fyrir okkur sem afhjúpum ekki á okkur tærnar. Tær eru ekki stór hluti af heildarfallþunga dæmigerðs Íslendings. En þær eru mikilvægar og án þeirra færum við ekki langt. Það er því um að gera að hætta ekki nota þær, þó ófríðar séu.
En ljótar tær hafa fleiri afleiðingar en þær að ég kaupi ekki fallega sandala. Ljótar tær verða líka til þess að ég leyfi mér ekki þann munað að fara í fótanudd eða fótsnyrtingu. Eg get ekki látið nokkurn mann sjá á mér fæturnar!
Fyrir nokkrum dögum kom ung og falleg stúlka í fjölskyldunni og sagði að hún héldi að hún væri með sama dæmi og ég. Hún væri að fá kúlur við tábergslið og henni væri illt í þeim. Þetta var það síðasta sem ég vildi heyra. Ég hef ýmislegt til brunns að bera sem hún hefði mátt erfa en ekki þetta. Þetta vildi ég ekki heyra. Allt nema bansettar kúlurnar sem eru sársaukafullar og skemma alla skó.
Fyrir nokkrum árum var Friðrik Ómar með útvarpsþátt á Rás 2 sem hét Með tærnar upp í loft. Ég er aldrei með tærnar upp í loft. Ég hefði samt alveg verð til í að hlusta á þennan þátt með inniskó á fótunum.
Mínar tær eru ekki til sýnis enda er ég með nokkuð sem heitir á latínu Hallux Valgus. Á íslensku er þetta hvimleiða fyrirbæri skýrt sem kúlur við táberg og er sagður algengur krankleiki hjá konu eftir miðjan aldur. Hann er líka til hjá körlum og jafnvel ungu fólk. Þar kemur unga stúlkan mín inn í myndina.
Við fáum öll okkar nesti út í lífið. Herra Hallux Valgus er alls ekki versti ferðafélaginn. Hins vegar þykja honum göngurnar mínar ekki skemmtilegar og hann kysi frekar að vera í hlýjum inniskóm uppi í sófa. En mitt ráð til þeirra sem búa með herra Hallux er að láta hann ekki ná yfirhöndinni. Það er mikilvægt að vanda sérstaklega val á skóm, hafa þá breiða, mjúka og ekki með sauma við tábergið. Þegar maður er kominn í slíkan skófatnað er ótrúlegt að hægt er að gleyma þessum krankleika og njóta þess að fara í gönguferð. Svo geta hinir bara loftað sínar tær.