Eru eldri borgarar annars flokks þjóðfélagsþegnar?

Stjórn Landssambands eldri borgara samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum miðvikudaginn 10. september: 

Stjórn Landsambands eldri borgara skorar á stjórnvöld að gleyma ekki þeim stóra hópi eldri borgara sem hefur lágar tekjur og þungar byrgðar t.d. af sínu húsnæði, sérstaklega þau sem eru í leiguhúsnæði.

10.000 – 15.000 manns eru með heildartekjur undir lámarkstaxta almenns verkafólks en munur á grunnlífeyri TR og lágmarkstaxta er í dag rúmlega 104.000 kr.

Árið 2023 voru 27% karla og 40% kvenna, 67 ára og eldri, undir þessum lágmarkstaxta.

Mjög stór hópur er aðeins með grunnlífeyri sem er í dag 347.521 kr. og þegar búið er að taka skattinn af eru eftir rétt rúmlega 300.000 kr.

Þann 1. september sl. var gerð breyting á því kerfi er snýr að greiðslum til öryrkja og var það löngu tímabær og jákvæð breyting þeim til handa. Grunnlífeyrir þeirra hækkaði í 396.340 kr. og nú mega þeir hafa lífeyristekjur og/eða vaxtatekjur upp á 100.000 kr. án skerðingar á greiðslum frá TR.

Eldri borgarar eru með 347.521 kr. í grunnlífeyri eða 48.819 kr. lægri en hjá öryrkjum. Einnig eru skerðingarmörkin aðeins 36.500 kr. hjá eldri borgurum eða 63.500 kr. lægri.

Það er ljóst að margir eldri borgarar hafa það ágætt en sá hópur sem hefur það verst má ekki gleymast og því viljum við skora á stjórnvöld að koma sérstaklega til móts við þau eins og gert var svo vel við örorkuþega.

Krafa okkar er:

  • ✓  Sérstakar leiðréttingar fyrir þá sem eru í 3-4 neðstu tíundunum.
  • ✓  Að hækka ellilífeyri til samræmis við taxta SGS og tengja launavísitölu, til að komast hjákjaragliðnun í framtíðinni.
  • ✓  Hækka skerðingarmörkin í 100.000 kr. og að tengja þau við vísitölu.
  • ✓  Að samræma frítekjumark vegna fjármagnstekna í takti við skattalög
  • ✓  Endurskoða Almannatryggingarlögin sem snúa að eldri borgurumÞrátt fyrir boðaðar hækkanir í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar og einstaka ráðherra þá er það staðreynd að fjöldi eldri borgara mun áfram lifa í fátækt og njóta þess ekki að eiga ánægjuríkt ævikvöld.

    Tökum hausinn upp úr sandinum og leiðréttum þessi kjör, annað er óásættanlegt.