Spádómsgáfa og frjósöm náttúra

Auðvitað sætir það tíðindum þegar litrík og víðförul kona birtist í afskekktri íslenskri sveit. Við það bætist að hún er gædd dulrænum hæfileikum, sér lengra en nefbroddur hennar nær og ansi margir karlmenn þar í sveit og nærsveitum ýmist láta heillast eða vita ekki alveg í hvaða flokk á að skipa þessari konu. Á sama tíma beita yfirvöld bændurnar miklum órétti og reyna að ætla með góðu eða illu að virkja fegurstu á landsins sem rennur um dalinn. Það geta bændur ekki látið yfir sig ganga möglunarlaust. Þetta er í stuttu máli söguþráður bókarinnar Sjáandi eftir Ester Hilmarsdóttur.

Það er fjósastrákurinn Dofri sem er í forgrunni sögunnar. Hann er fósturbarn hjónanna á Molastöðum og nýtur þar ástríkis en kannski ekki alltaf skilnings. Foreldrar hans urðu fíknisjúkdómi að bráð og hann stóð þá einn upp og var svo heppinn að lenda hjá þessu góða fólki. Dofri finnur engu að síður vel til þess að hann stendur utangarðs, er ekki alveg eins og annað heimilsfólk á bænum. Þegar Gyða, fjarskyld frænka Gerðar húsfreyju kemur í heimsókn, tengist hann henni sterkum böndum, að því er virðist fyrirhafnarlaust. Milli þeirra liggur einhver sterkur strengur sem drengurinn færi ekki skýrt til fulls. Þau skilja hvort annað og hann finnur og veit að í þessari konu á hann bandamann og vin.

Það er nokkuð ljóst að Laxárdeilan árið 1970 er höfundi innblástur að þessari sögu og bakgrunnur kraumandi tilfinninga og fjölskrúðugs mannlífs. Hér segir af uppvexti unglings, ástinni í öllum sínum fjölbreytilegu myndum, ofbeldi, kúgun og hvernig hinir kúguðu rísa upp og rífa sig lausa á einn hátt eða annan. Og náttúran er allt umlykjandi. Fegurð hennar heldur fólkinu gangandi, er samofið öllu lífi þess og skapar því gleði á erfiðum stundum.

Þessi skemmtilega og spennandi saga fléttar saman lífi fólksins í sveitinni og þar er misjafn sauður í mörgu fé. Konurnar þurfa að takast á við ástina, missi, barnauppeldi, sorg, kúgun og gleði. En allir eru sammála um að landið þurfi að verja, dalnum og ánni verði að bjarga til að varðveita bæði lífsmáta fólksins og arfleifð. Hér kemur við sögu þrautseigja, vongleði og hvernig eðli og áhugamál hvers og eins skapa honum framtíðarörlög. Frásagnargleðin ljómar af hverri síðu og allar persónur bókarinnar eru málaðar sterkum litum og Ester tekst að koma til skila innri togstreitu persónanna og hvernig það að bjarga því sem er mest um vert verður manneskjunni sjálfri iðulega til bjargar.

Ester Hilmarsdóttir er fædd í Aðaldal og alin þar upp. Hún líkt Gyða spákona hélt út í heim og ferðaðist víða en sneri aftur því í dalnum er allt til alls. Þessi bók er fádæma vel skrifuð, litríkar persónur, spennandi og skondir atburðir halda athygli lesenda óskertri og höfundur hefur ótrúlegt vald á íslensku máli. Orðfæri hennar er blæbrigðaríkt og lifandi og það er hreinlega stórkostlega gaman að lesa textann hennar.

Ester hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir ljóðabók sína Fegurðin í flæðinu. Sjáandi er er fyrsta skáldsaga hennar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.