Það er gaman að ganga um sýningarnar í Landnámssetri Íslands í Borgarnesi og alveg mátulegur bíltúr frá Reykjavík, langi fólk til að gera eitthvað skemmtilegt á virkum eða helgum degi. Þegar komið er á staðinn blasa við tvö af elstu húsum Borgarness, pakkhús sem nú hýsir sýningarnar um landnámið og Egilssögu og gamla verslunarhúsið þar sem núna er glæsilegt veitingahús. Á milli húsanna hefur verið reist tengibygging hönnuð af Sigíði Sigþórsdóttur arkitekt sem tekur sérstaklega tillit til gömlu húsanna og klettsins sem húsin standa við. Þar er aðalinngangurinn að sýningunum og verslun.
Það er erfitt að hugsa sér að fyrir rúmum tíu árum, hafi þetta allt saman verið hugmynd á einu A-4 blaði, sem þau Kjartan Ragnarsson leikstjóri og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir fréttamaður skrifuðu niður við eldhúsborðið heima hjá sér. Þau voru bæði fastráðin í skemmtilegum störfum þegar þetta var.
Sáu breytingar í ferðaþjónustunni
Kjartan segir að þau hafi verið á leið austur á Fljótsdalshérað þar sem þau höfðu tekið að sér leiðsögn í hestaferð, þegar hugmyndin kviknaði. Þau höfðu starfað sem leiðsögumenn í hestaferðum í u.þ.b 10 ár og verið vön því að fara strax beint uppá fjöll, en þarna ákváðu þau að fara í fyrsta sinn saman með byggðum, á leið sinni austur á land. Þau urðu þess áskynja að miklar breytingar voru að eiga sér stað í menningartengdri ferðaþjónustu. Á Ísafirði var það Neðstikaupstaður, á Hofsósi Vesturfarasetrið og á Siglufirði Síldarminjasafnið sem Örlygur Kristfinnsson byggði upp af eldmóði. „Við sáum hvernig þetta varð drifkraftur á þessum stöðum, sem laðaði að ferðamenn“, segir Kjartan.
Tækifæri í Egilssögu
Kjartan og Sirrý sáu þarna tækifæri í skapandi verkefnum, þar sem þau gætu notað reynslu sína til að búa til skemmtilegar sýningar. Þau höfðu séð hvernig hægt var í hestaferðunum að segja ákveðnar sögur sem gengu í gegnum ferðirnar, svo sem Hrafnkelssögu fyrir austan. Á vesturlandi fælist tækifærið í Egilssögu. Þar væri hægt að byggja á sögu landnámsins og því svæði sem tilheyrði Agli. Reykjavíkurborg var með Landnámssýningu í undirbúningi í Reykjavík, en hún byggði á forleifafræði, ekki á sögunum. „En við erum leikhúsfólk og getum sagt sögur“, segir Kjartan. Þau byggðu sýningarnar á Landnámu og Íslendingabók, og leituðu ráða hjá fræðmönnum í greininni og Landnámssetur Íslands varð til.
Frjósamur jarðvegur
Það er stundum rætt um að hugmyndir þurfi að kvikna á réttum tíma á réttum stað og þegar Sirrý og Kjartan fóru að skoða möguleikana á að stofna Landnámssetur í Borgarnesi, var jarðvegurinn frjósamur, því bæjaryfirvöld þar höfðu mikið velt fyrir sér hvað hægt væri að gera til að fá ferðamenn til að stoppa í Borgarnesi, í stað þess að aka bara í gegnum bæinn. Kjartan og Sirrý sáu fyrir sér að þau myndu fyrst og fremst setja upp sýningarnar, en bærinn myndi að öðru leyti sjá um þetta. En bæjaryfirvöld settu það sem skilyrði að þau sæu um reksturinn ef af yrði og réðu þau til að vinna hugmyndina áfram og þau fengu aðstoð við að gera viðskiptaáætlun fyrir verkefnið.
Tilbúin til að tapa í 4-5 ár
Eftir það fór boltinn að rúlla fyrir alvöru og um áramótin 2005 til 2006 tóku þau ákvörðun um að helga sig þessu verkefni, seldu húsið sitt í Reykjavík og fluttu í Borgarnes. „Þetta var mikil vinna“ segir Sirrý. Þau voru hins vegar viðbúin því að það myndi taka nokkur ár að byggja Landnámssetur upp. Þau höfðu leitað ráða hjá Birgi Þorgilssyni fyrrverandi ferðamálastjóra og hann sagði þeim að ef þau ætluðu á láta ferðþjónustuna taka mark á sér yrðu þau að hafa opið alla daga ársins og vera tilbúin til að tapa á rekstrinum fyrstu 4-5 árin. Þau ákváðu að fylgja ráðum hans og leggja áherslu á að vera með opið allt árið þó veturnir væru rekstrarlega erfiðir, en loka fyrr á daginn yfir vetrarmánuðin. Nú er svo komið að það er opið alla daga ársins frá kl.10 – 21. Reyndar aðeins styttra um jólin þe á aðfangadag og gamlaársdag frá 10 – 14 og á jóladag og Nýjársdag frá 11- 15.
Útlendingar 90% gestanna
Grunnurinn að Landnámssetri er sýningarnar tvær um landnámið og Egilssögu – þar sem gesturinn er leiddur í gegn með hljóðleiðsögn sem nú er til á 14 tungumálum auk barnaleiðsagnar á íslensku. En veitingahúsið nýtur sífellt meiri vinsælda og er nú ekki síður mikilvægur hluti rekstrarins. Fyrstu árin voru erfið þar sem aðsóknin sem var góð á sumrin, datt alltaf niður í byrjun október – en þá tóku við leiksýningar, tónleikar og alls kyns uppákomur sem löðuðu að innlenda gesti.Sýningar eins og Mr. Skallagrímsson og Brák slógu í gegn og Einar Kárason, Þórainn Eldjárn og fleiri listasmenn hafa sagt sögur sínar á Söguloftinu. Næst verður það Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikkona sem segir sögu Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Sýninguna kallar hún 1627 og verður frumsýningin 16. janúar. Og í mars flytur Einar Kárason og dóttir hans Júlía Margrét nýútkomna skáldsögu Einars „Skálmöld“ í bókaflokki hans um Sturlungaöldina. Sú frumsýning verður 6. mars. Með þessum sýningu hefur skapast hefð sem greinilega fellur fólki vel í geð, þ.e. að höfundar stígi á stokk og segi sitt eigið efni – „hinn talandi höfundur“
Heppin að vera á þessum tíma
Ferðaþjónustan hefur aukist um 20% á ári undanfarin ár og þau hafa notið góðs af því. Ferðaskrifstofurnar sem eru yfirleitt íhaldssamar eru farnar að reikna með Landnámssetrinu í sínum ferðum. Reksturinn hefur síðustu ár farið fram úr björtustu vonum. Í byrjun gerðu þau ráð fyrir 5 starfsmönnum, en nú eru heilsársstörfin í setrinu orðin 14. Við erum með frábært starfsfólk – 10 fastráðna á heilsárgrundvelli sem þýðið að loksins getum við farið í frí – en bara á veturna. „Við vorum geisilega heppin að vera á þessum tíma“ segir Sirrý.
Leið eins og ungu fólki
Þau segja að það felist ákveðinn endurnýjunarmáttur í því að gera eitthvað nýtt á miðjum aldri og allt annað en áður. „Okkur leið eins og ungu fólki sem er að byrja ákveðna uppbyggingu, en í leikhúsinu fannst mér ég vera orðinn öldungur“, segir Kjartan. Sirrý bætir við að endurnýjunarmátturin sé ekki bara andlegur, heldur líka líkamlegur. Þau hafi verið á vaktinni alla daga til að byrja með og það þarf að vera í góðu formi til að halda það út. Sjálf hafi hún haft gaman af að byggja upp veitingastaðinn með hollustufæði og grænmeti. Hún standi þó sjaldnar vaktina sjálf í eldhúsinu þótt þau séu alltaf á bakvakt, ef eitthvað kemur uppá. „En það er ekkert að því að vinna mikið, þegar það er það skemmtilegasta sem maður gerir“, segja þau.
Náttúruböð við stærsta hver í heimi
Uppbygging Landnámsseturs hefur vakið verðskuldaða athygli. Sirrý og Kjartan hafa komið að fleiri verkefnum í bænum, svo sem „Hinum guðdómlega gleðileik um fæðingu Jesú Krists“, sem er helgileikur í bundnu máli og með afar kómiskum brag sem bæjarbúar taka þátt í. Hann var frumsýndur á þriðju jólum 2008 og er síðan sýndur annað hvert ár – næst 27. desember 2015. Þá hafa þau tekið þátt í Brákarhátíðinni sem er haldin á sumrin. Þau eru líka í vinnuhópi sem kannar möguleika á að setja upp náttúruböð í nágrenni Hraunfossa. „Það yrði mikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna“, segir Kjartan. En þau segjast hafa meira en nóg á sinni könnu að reka Landnámssetrið, þar sem umfangið haldi áfram að aukast ár frá ári. Hugmyndin er að þróa náttúruböðin með fólkinu sem býr á svæðinu eða tengist því.
Ekki nóg að vilja vera frumkvöðull
Töluverð umræða er í nágrannalöndunum um möguleika fólks sem er komið yfir miðjan aldur á að gerast frumkvöðlar, stofna fyrirtæki og vera með eigin rekstur. Eins og sjá má af reynslu Kjartans og Sirrýar, er það stórt verkefni. Sirrý segir að það sé ekki nóg að ákveða að nú vilji menn gerast frumkvöðlar. „Kjarninn í því er að eiga sér draum, vera með hugmynd, eitthvað sem mann langar virkilega að gera og trúir á. Svo verður maður að vera tilbúinn að leggja heilmikið á sig og taka áföllum – en ef vel gengur þá er það sannarlega þess virði á sjá draumana rætast“, segir hún að lokum.
Hérna fyrir neðan eru svipmyndir frá Landnámssetrinu og sýningunni úr Egilssögu. Einnig eru myndir af Kjartani í leikhúsinu og Sirrý í Stundinni okkar sem hún sá eitt sinn um.