Áfengi hefur áhrif á svefn okkar, hvort sem um er að ræða bjór, létt eða sterkt vín. Mörgum finnst notalegt að fá sér eitt eða tvö glös áður en þeir fara að sofa. Telja jafnvel að þeir sofi betur. Að einu leyti er það rétt, fólki gengur betur að slaka á eftir að hafa fengið sér vínglas og er fljótara að falla í svefn. Áfengið hefur hins vegar slæm áhrif á svefninn.
Fólk er líklegra til að vakna aftur stuttu eftir að það sofnar og áfengi hefur mikil áhrif á djúpsvefninn jafnvel þótt fólk fái sér bara eitt eða tvö glös. Fólk vaknar þreytt og illa fyrir kallað daginn eftir. Áhrifin á líkamann eru miklu meiri og verri ef fólk drekkur fleiri glös. Þó að áfengisneysla virki róandi og jafnvel svæfandi skaltu aldrei nota það til þess að slaka betur á og sofa betur. Áfengi hefur áhrif á REM-svefninn sem er dýpsta stig svefnsins og það mikilvægasta. Einbeitingarleysi, þreyta og minnisleysi kemur fram á mjög stuttum tíma ef þú nærð ekki djúpum svefni og góðri hvíld.
Um það bil tveimur stundum eftir að fólk tekur síðasta sopann fer líkaminn að reyna að hreinsa áfengið úr líkamanum, en fyrir honum er áfengi eitur. Áfengi er í raun og veru mjög öflugt þvagræsilyf og fólk þarf því að fara oft á klósettið. Það getur truflað nætursvefninn. Of tíð þvaglát geta haft það í för með sér að fólk tapar vítamínum og steinefnum úr líkamanum.
Ef fólk vill ná sínum nætursvefni ætti það ekki að drekka áfengi þremur til fjórum tímum áður en það ætlar upp í rúm að sofa. Hafa ber þó í huga að áfengi hefur mismikil áhrif á fólk, það fer eftir kyni, eftir þyngd þess, hvort það drekkur á fastandi maga eða neytir matar samhliða drykkjunni.
Drekkið tvö vatnsglös fyrir hvert vínglas sem þið neytið. Það hjálpar líkamanum að skola áfenginu á brott. Sé alkóhóls neytt með gosi sogast það hraðar út í blóðið, og því berst alkóhólið í freyðivíni hraðar út í blóðrásina en sama magn í léttu víni án goss.
Ef þið ætlið að fá ykkur í glas, neytið þá matar um leið. Maturinn hægir á upptöku líkamans á áfengi og fólk verður síður drukkið.
Aldrei drekka og taka svefnpillur um leið. Áfengi hefur áhrif á öndun, getur slæft hana. Áfengi hefur slæm áhrif á svefn og þeir sem eru með kæfisvefn ættu alls ekki að drekka áður en þeir fara að sofa. Áfengi getur líka valdið fótapirringi og því að fólk gangi í svefni.