Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar
Eitt af því sem gefur lífinu gildi þegar maður eldist er samveran við barnabörnin. Eina sem er leiðinlegt er að geta ekki fylgt þeim nema nokkuð áleiðis á vegferðinni. Miseldrið er svo mikið í mörgum tilvikum. Það væri svo gaman að fá að sjá hvernig fólk þetta verður. Ágæt er því sú þróun hve langlífi fólks er að verða algengara.
Barnabörn á maður ekki að ala upp, það er hlutverk foreldranna. En samt geta amma og afi gengt stóru hlutverki í lífi barnabarna sinna. Þau er bakhjarl og kjölfesta í fjölskyldunni, ef þeim sýnist svo. Fátt er skemmtilegra en safna fólkinu sínu saman til þess að leyfa því að hittast og njóta þess að tilheyra frændgarðinum.
Amma og afi geta haft mikil áhrif á það hversu barnabörn þeirra tengjast vel. Systkinabörn sem fá að vera mikið saman njóta þess alla ævi. Í æsku bindast bönd sem eru sterk og duga vel í lífi einstaklingsins. Gott er að eiga góð systkini en það er líka mikill styrkur í góðu frændfólki.
En það er með þetta eins og margt annað, hafa þarf fyrir því. Eftir því sem fjölskyldan stækkar er að vissu leyti mikilvægara að gefa börnum og barnabörnum tækifæri til að vera samvistum. Ef enginn einn samanstaður er, þá er hætt við því að smám saman fari að trosna úr ættarböndunum. Þess vegna er mikilvægt fyrir eldra fólk að hafa góða stofu sem rúmað getur sem flesta. Ef slík aðstaða er ekki fyrir hendi þarf að finna lausn sem hentar. Til dæmis má safna fólki saman í veitingahús sem leigja þannig aðstöðu. Einnig má semja við eitthvern úr fjölskyldunni sem býr rúmt að leyfa slíkt samkomuhald stöku sinnum, svo allir geti hittst.
Ekki þarf að vera dýrt að hafa svona boð í heimahúsum. Allir geta hjálpast að. Ef til dæmis koma nokkrir með kökur, aðrir koma með brauð og álegg og enn aðrir með gosdrykki – þá er komin heljarmikil veisla áður en við er litið. Það þarf heldur ekki að vera með leiki eða skemmtiatriði. Fjölskyldan er saman komin til þess að skemmta sér sjálf, spjalla og leika, allt eftir aldri og getu.
Eldra fólkið getur haft mikil áhrifa á hve afkomendur þess og aðrir sem tilheyra fjölskylduhópnum hafa mikil samskipti. Ekki aðeins með veislum, heldur með því að bera fréttir á milli (auðvitað ekki neitt sem er trúnaðarmál). Einnig með því að sýna myndir og segja frá skemmtilegum atvikum hjá hinum í fjölskyldunni og skemmtilegum ummælum barna sem sjá heiminn oft í svo fersku ljósi.
Ekki má heldur gleyma að standa saman ef eitthvað kemur upp á. Hinir eldri geta auðveldlega komið á samvinnu milli systkina og barnabarna. Hvetja til þess að hjálpað sé til við flutninga, hjálpast að þegar eitthvað bilar, skiptast á fötum og þannig mætti telja. Allt þetta skapar samhug og þá einstaklega yndislegu tilfinningu að tilheyra hóp, sem ekki sundrast í áranna rás. Þarna getur eldra fólk unnið ómetanlegt starf. Það hefur reynsluna og þekkinguna, sem lífið hefur gefið af auðlegð sinni.
Ekki þarf að að kaupa dýra miða á tónleika, í leikhús eða neitt slíkt til þess að ná þessum áhrifum fram. Bara það að leyfa barnabörnunum að gista saman heima hjá ömmu og afa öðru hvoru gefur ríka samheldni. Allt þetta er fyrirhafnarinnar virði og skapar þeim sem eldri eru verðug hlutverk.
Endurbirtur pistill af Lifðu núna