Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur skrifar:
Amma hvað ætlarðu þá að gera? Þessa stóru spurningu fékk ég á dögunum frá níu ára gamalli sonardóttur minni og nöfnu sem hafði áður spurt mig hvort ég myndi bráðum hætta að vinna. Ég var ekki undir það búin að gefa ýtarleg eða nákvæm svör en sagði henni að ég myndi áreiðanlega hafa nóg að gera.
Þannig sé ég það fyrir mér. Nóg að gera. Vakna svolítið seinna en ég geri núna, því þá verður ekki lengur ástæða til að rjúka upp úr rúminu á sjöunda tímanum til að komast í ræktina áður en vinnudagur tekur við. Sofna ekki alveg eins snemma og ég geri núna af því að þá get ég kannski vakað fram yfir seinni fréttir sjónvarpsins. Og þá get ég líka horft á eina og eina bíómynd eða fylgst með spennuþáttaröð. Svo mun ég lesa blöðin ýtarlegar og ekki standa lengur upp í miðjum klíðum frá sudoku Fréttablaðsins. Og ég fer í rólegheitum í ræktina. Hádegismatnum mun ég ekki lengur skófla upp í mig á meðan ég sendi tölvupósta eða áminningar til viðskiptavinar næsta dags.
Svo mun ég gera ýmislegt sem mér finnst skemmtilegt en hef ekki gefið mér mikinn tíma til að sinna. Löngu látnar ömmur mínar munu fá góðan skerf af auknum tíma. Ég er nefnilega á bráðskemmtilegu námskeiði sem heitir „Til fundar við formæður“ og þar er ég að tileinka mér þá list að búa til sögur um þær. Nú þegar á ég ýmsa fróðleiksmola um formæður mínar í fórum mínum og þegar ég verð hætt að vinna gefst mér tími til að tengja þá saman og færa í nýjan búning. Námskeiðið er reyndar nýbyrjað, en ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa hent mér út í djúpu laugina og ákveðið að taka fyrir langa-langömmu mína og alnöfnu sem lést fyrir 130 árum síðan. Það eru ekki til neinar ljósmyndir af henni og enginn er á lífi sem þekkti hana. Ég veit ekki margt um hana annað en það sem stendur í kirkjubókum og ættfræðiritum. Fyrir vikið verður meira svigrúm fyrir mig til að taka mér skáldaleyfi, og það gerir verkefnið bara ennþá meira spennandi. Mér finnst að ég hafi átt svo margar ömmur og allar hinar munu bíða eftir að ég geri þeim skil á sama hátt.
Ég mun áreiðanlega fara oftar á tónleika, sjá fleiri myndlistarsýningar og hlusta á fleiri fyrirlestra. Á sumrin fer ég í fleiri göngutúra en ég geri núna og oftar í berjamó á haustin. Útvarpið verður oftar opið og betur fylgst með öllu því fjölbreytta efni sem það býður upp á. Kannski mun ég þurrka oftar af heima hjá mér, en ég er samt ekkert viss um það. En umfram allt mun ég eyða meiri tíma með ömmubörnunum mínum ef þau gefa kost á því. Það er nefnilega þannig að þótt ég þekki mikið af skemmtilegu fólki þá eru þau allra skemmtilegasta fólkið í heiminum. Tíminn sem ég eyði með þeim eru mínar dýrmætustu skemmtanir. Ætli megi þá ekki bara líta þannig á að ég stefni að því að verða skemmtanasjúk eftir starfslokin?