Beikon eða hafragraut í morgunmat

Beikon og svart kaffi í morgunmat eða hafragrautur og banani? Ef markmiðið er að léttast á nýju ári hafa flestir skoðanir á því hvað henti best og hvað skili mestum árangri. Megrunarkúrar verða fyrir sumt fólk hálfgerð trúarbrögð. Á hverju ári koma nýir megrunarkúrar til sögunnar sem eiga það sameiginlegt að eiga að vera mun betri en þeir sem fyrir eru eða svo segja þeir sem búa kúrana til. Á vefnum aarp.org var nú um áramótin fjallað um tvo kúra sem hafa fengið mikla athygli vestanhafs síðustu misserin.  Annars vegar lágkolvetnafæði og hins vegar fituskert mataræði. Báðir kúrarnir hafa verið rannsakaðir og niðurstöður þeirra rannsókna benda til að báðir skili þeir áhangendum sínum álíka miklum árangri. Sagt er frá nýlegri tilraun þar sem  stórum hópi fólks var skipt var niður í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn var á lágkolvetna fæði en hinn á fituskertu fæði. Þátttakendur í báðum hópunum voru hvattir til að neyta sem hreinastar fæðu, það er forðast unnin matvæli að öðru leyti áttu þeir að fylgja sínum kúr í eitt ár. Haldnir voru reglulegir fundir með fólkinu og því leiðbeint um hvernig væri best að halda sig annað hvort við fituskerta kúrinn eða þann kolvetnasnauða.  Niðurstöðurnar voru nokkuð mismunandi milli einstaklinganna en meðaltalstölurnar voru þær sömu. Að meðaltali léttist hver einstaklingur um 5 til 6 kíló, árið sem mataræðinu var fylgt. Christopher Gardner prófessor við Stanford University var einn þeirra sem stóðu að rannsókninni, hann segir að hún sé ekki gallalaus en gefi góðar vísbendingar um að öllum henti ekki sama mataræði. Sumir séu orðnir galnir af hungri skömmu eftir að hafa borðað ávexti og haframjöl í morgunmat á meðan það sé góð fylling fyrir aðra. Aðrir geta ekki hugsað sér að borða beikon eða mikla fitu á morgnana. Áður en fólk tekur ákvörðun um hvort það ætli að fylgja öðrum hvorum kúrnum þurfi það að gera upp við sig í hvorn hópinn það fellur. Zhaoping Li næringarfræðingur í Kalforninu segir að flestir megrunarkúrar virki ágætlega meðan þeim sé fylgt. Það sé hins vegar þrautin þyngri að finna kúr sem fólk geti verið á ævilangt. Það sé því  mikilvægast að læra að gæta hófs og gera það alla ævi, vilji fólk halda sér í kjörþyngd.

Ritstjórn janúar 8, 2019 10:22