Einmanaleiki hefur áhrif á heilsuna

Hildur J. Gísladóttir skrifar

Flestir aldraðir búa í sjálfstæðri búsetu. Sumir búa með fullorðnum börnum sínum eða hafa mikið samband við fullorðin börn sín en aðrir hafa aldrei gifst og aldrei eignast börn og búa einir.  Enn fleiri kjósa að búa í svokölluðum þjónustuíbúðum, þar sem þeir eru í meira návígi við annað fólk í sömu sporum og geta sótt sér þjónustu og félagsskap sem er innan seilingar. Fólk sem býr úti á landsbyggðinni er oft í erfiðari stöðu en þeir sem búa á stærri stöðum hvað varðar aðgengi að félagsskap og þjónustu og þá sérstaklega þeir sem búa utan byggðakjarna.

Treysta sér ekki til að keyra

Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk treysti sér ekki til að taka þátt í félagsstarfi. Það getur t.d verið að færð sé þannig að fólk treysti sér ekki til að keyra til að fara í félagsstarfið. Heyrnin getur verið orðið þannig að fólk vill helst ekki fara innan um annað fólk þar sem það heyrir lítið sem ekkert og finnst það vera utanveltu í margmenni og svo aðrar ástæður líka. Ein ástæða er líka sú að fólki sem er orðið lasburða finnst það vera baggi á börnum sínum og forðist þar með að hitta sína nánustu.

Getur valdið þunglyndi og elliglöpum

Einmanaleiki hefur verið skilgreindur sem vandamál meðal aldraðra þar sem hann hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks, getur m.a valdið þunglyndi, hækkun á blóðþrýstingi, skerðingu á hreyfigetu og jafnvel elliglöpum. Þetta kemur fram í desemberhefti Journal og aging studies á síðasta ári. Þó er það þannig eins og með margt annað, að fólk ber ábyrgð á sínu lífi og þeim lífsstíl sem það kýs sér. Það er öllum hollt að hafa félagsleg samskipti við annað fólk, margar leiðir eru til þess og nóg er í boði alls staðar.

Samskipti hafa jákvæð áhrif á líðan

Þannig er það undir hverjum og einum komið hvort eða hvernig hann tekst á við einmanaleika eða félagslega einangrun. Þetta er enn mikilvægara fyrir þá sem hafa ekki átt börn, gifst eða hafa misst maka sinn. Nokkur félagasamtök eru með þjónustu að senda fólk heim til að spjall við fólk og hafa margir eignast góða vini í gegnum slíka þjónustu. Einnig er mikilvægt að fólk sjálft hafi sig frammi og jafnvel setji á fót einhvers konar klúbba eða annað sem fær fólk til að koma saman og spjalla. Rannsóknir hafa sýnt fram á hvað samskipti hafa jákvæð áhrif á líðan fólks og heilsu og auka þar með lífsgæðin og lengja jafnvel lífið.

 

Ritstjórn október 28, 2014 17:06