Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar:
Að segja sögur hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Vegna þeirrar þarfar urðu til sagnamenn- og konur, skáld- og kveðskapur. Munnlega geymdin er ótrygg og því varð þróunin sú að fólk fann upp aðferðir til að að skrifa niður það sem því þótti frásagnarvert – bæði sannar sögur og ósannar. Smám saman hefur tæknin þannig gert okkur fært að flytja fróðleik og skemmtun frá kynslóð til kynslóðar.
Tvennt er það þó sem hamlar sumu fólki að njóta sagna – versnandi sjón og heyrn. Við því er brugðist á ýmsan hátt, svo sem með hljóðbókasöfnum sem samanstanda af innlesnum sögum, blindraletri og fleiru.
Hinar upplesnu sögur duga þó ekki í öllum tilvikum, til að njóta þeirra þarf fólk að hafa getu til að stilla tæki og einbeitingu til að fylgja söguþræði.
Hvað er þá til ráða?
Maður einn tók það til bragðs að lesa sjálfur fyrir rúmliggjandi aðstanda sinn, sem bæði hafði skerta heyrn og sjón. Umræddur einstaklingur gat ekki vegna áfalls nýtt sér innlesnar bækur en hafði eigi að síður mikla ánægju af að hlusta á lesið efni. Maðurinn fann til sögu af því tagi sem hann vissi að myndi falla í kramið og fór að lesa fyrir sinn lasna aðstandanda.
Kona sem vann á öldrunarheimili sagði mér að fallegt hefði verið að verða vitni að þeim elskulega upplestri. Maðurinn gætti þess að lesa mjög hægt og skýrt. Öðru hvoru mundi aðstandandinn ekki alveg fyrri söguþráð eða ruglaði saman persónum sögunnar. Þá bætti maðurinn úr því, sagði frá því sem hinn rúmliggjandi mundi ekki og þannig tókst að lesa að gagni fyrir hinn sjón- og heyrnarskerta einstakling sögur sem hann ella hefði ekki getað notið.
Þessi aðferð, að lesa fyrir þá sem ekki geta nýtt sér útvarpsefni eða hljóðbókasöfn vegna skertrar færni, getur líka fært fólk nær hvort öðru. Sameiginlegt verkefni, að lesa bókina og ræða efni hennar, getur orðið drjúgt umræðuefni og vakið upp önnur samtalsefni. Með þessu móti geta skapast gleðilegar samvistir sem ekki snúast endilega um að segja fréttir af fjölskyldu eða því sem gerist í samfélaginu. Slíkt er auðvitað alltaf með í samvistunum en hitt, að hverfa á vit nýrra söguefna, er auðlind sem skapar miklu víðari umræðuefni.
Sem barn var ég látin lesa fyrir blindan mann þar sem ég var í sveit. Mér fannst efnið ekki skemmtilegt. Maðurinn sá vildi fregna sitthvað um fornleifafræði. Ég, ellefu ára stelpan, hafði engan áhuga á uppgreftri fornleifa. Mig langaði út í sólskinið til þess að njóta alls þess sem lífið þar bauð upp á. Eigi að síður lét ég mig hafa að lesa um fornleifarnar með þeim ágæta árangri að sem fullorðin manneskja hef ég haft áhuga á þeim fræðum. Þessi lestur fyrir blinda manninn gaf mér með öðrum orðum sýn inn í heim sem ég hef enn ómælda ánægju af að frétta frá en óvíst er að ég hefði haft áhuga á ella.
Lestur fyrir sjón- og heyrnarskert fólk, sem getur ekki lesið sjálft eða nýtt sér venjulegan upplestur, getur bæði verið gefandi fyrir þann sem les og hinn sem lesið er fyrir – og skapað óvæntan og skemmtilegan umræðugrundvöll.