Fiskur eftir hátíðarnar – allir út í fiskbúð

 

Nú hafa margir þörf fyrir fisk eftir margar, stórar kjötmáltíðir. Við erum ekki að tala um fisk, kartöflur og tómatsósu heldur dýrlega fiskrétti sem auðvelt er að matbúa. Gaman er að prófa aðrar fisktegundir en ýsu og þorsk því fjöldi tegunda er að sjá í borðum fiskbúðum nú til dags. Fiskbúðirnar þjóna nú sama hlutverki og kaupmaðurinn á hornin gerði áður og mesta skemmtun er að versla í þeim. Þar myndast önnur stemmning en í stórmörkuðum og engu líkara en þangað sé eingöngu ráðið alúðlegt, hjálplegt og skemmtilegt starfsfólk sem hefur gaman af vinnu sinni. Ferðin í fiskbúðina er hin mesta skemmtun. Hér birtum við uppfkrift af vef Norðanfisks hér sem við höfum prófað og sannreynt að er sérlega vel heppnaður réttur, sannkallaður veisluréttur. Kryddjurtasmjörið er eina fyrirhöfnin en er þó mjög auðvelt að útbúa. Það er síðan sett yfir fiskinn áður en hann er settur í ofninn við 200°C í 6 mínútur. Auðveldara getur það ekki verið og sannarlega óhætt að bjóða gestum að njóta með. Svo má auðvitað nota hvaða hvíta fisk sem maður vill í þennan rétt.

800 g gullkarfi

500 g ósaltað smjör

250 g panko raspur (japanskur brauðraspur)

2 msk. kryddjurtir; t.d. tarrragon, kerfill, graslaukur og steinselja

2 msk. Ísbúi Óðalsostur, rifinn

1 msk. Tabasco sósa

1 msk. Worcestershire sósa

1 ½ msk. hvítlaukur, fínsaxaður

2 msk. sítrónusafi

3 msk. beikon, vel steikt

salt og pipar

Blandið saman mjúku smjörinu, raspinum, kryddjurtunum, ostinum, sósunum, hvítlauknum, sítrónusafanum og steikta beikoninu. Setjið smjörblönduna á gullkarfann og í eldfast mót og bakið í ofni við 200°C í u.þ.b. 6 mín. Berið fram með salati og bökuðum kartöflum.

Ritstjórn janúar 8, 2021 10:05