Frá veikindum til visku

Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur hefur ekki aðeins lært næringarfræði á akademískan hátt – heldur einnig í gegnum eigin reynslu af alvarlegum veikindum. Þessi persónulega vegferð, frá því að vera í hjólastól eftir sjálfsofnæmissjúkdóm til þess að leiða aðra í átt að bættri heilsu, hefur mótað hennar einstöku nálgun á ráðgjöf.

Í dag nýtir hún bæði fræðilega þekkingu og lífsreynslu til að hjálpa fólki að öðlast betri líðan og dýpri tengingu við eigin líkama og þarfir. Heildræn ráðgjöf hennar byggir á því að skoða ekki aðeins mataræði, heldur einnig lífsögu, streitu, tilfinningar og geðheilsu – því allt tengist.

Með þessari nálgun hefur Elísabet hjálpað fjölda einstaklinga að komast í betra jafnvægi – bæði líkamlega og andlega – og orðið þeim leiðarljós á eigin vegferð til heilsu og vellíðunar.

Sjúkdómur varð vendipunktur

Beta, greindist með Guillian-Barré árið 2001, aðeins stuttu eftir fæðingu dóttur sinnar. „Ég lamaðist og þurfti aðstoð við allt. Lengi vel var óvíst hvað var að og bataferlið tók mörg ár.“ Beta lagðist inn á Grensás og síðar á Reykjalund þar sem hún fór í gegnum endurhæfingu.

Þessi reynsla vakti áhuga hennar á næringartengdum lausnum og þekkingarleit. Hún lauk námi í næringarþerapíu í Danmörku áður en hún hóf háskólanám í næringarfræði.

Frá hjólastól í háskóla

„Ég var spurð hvort ég væri klikkuð að fara í háskólanám í veikindum – en þetta var draumur minn frá barnæsku. Ég vildi læra um líkamann, mat og heilbrigði.“ Hún lýsir náminu sem krefjandi en gefandi. Orkuleysi og takmörkuð geta til lesturs á kvöldin urðu hennar raunveruleiki – en með þrautseigju og aga tókst henni að ljúka bæði BS- og MS-gráðu með fyrstu einkunn.

Næringarfræðingur með hjartað á réttum stað

„Ég hef kynnst næringu sem lækningu – í mínu tilfelli var hún lykill að batanum.“ Í dag starfar hún sjálfstætt sem ráðgjafi og vinnur heildrænt með skjólstæðingum sínum.

„Ég byrja á að kynnast lífshlaupi og bakgrunni fólks, því sagan segir oft til um heilsuna í dag. Sjúkdómar, lífsvenjur og andleg líðan fléttast saman og geta haft áhrif á líkamsástand, matarvenjur og vellíðan. Því er mikilvægt að skoða heildarmyndina – jafnvel frá æsku. Stundum þarf fólk að vinna úr andlegum málum áður en við getum unnið með líkamlega heilsu. Það að þekkja sögu hjálpar mér að veita markvissari ráðgjöf.“

Nýtur góðra lífsgæða

Þú hefur þá ekki náð þér að fullu. „Nei, en ég nýt góðra lífsgæða. Það er tvennt ólíkt að maður sé að kljást við eitthvað og að vera alvarlega veikur. Ég lifi góðu lífi vegna þess að ég passa upp á allt. Ég hreyfi mig daglega það er að segja þegar ég á góða daga, hugsa vel um mataræðið, nýt góðs félagsskapar og sinni andlegu hliðinni. Þetta tel ég skipta öllu máli og geng út frá því í starfi. Ég reyni að fylgja öllum þáttum heilbrigðis, sem er að sinna sér andlega, líkamlega og félagslega. Ég ber ábyrgð á mér og hef alveg átt mín erfið ár og eitt slíkt var að líða og færði mér þroska og lærdóm. Nú er nýtt ár og ný tækifæri og ég ætla að nýta þetta ár vel. Það er spennandi tímar sem ég mun segja frá rista tækifæri sem er að þróast síðar (glottir og með glampa í augunum).

Þarf fólk að breyta mataræði sínu þegar aldurinn færist yfir?

Já, þegar aldurinn færist yfir breytast bæði líkamlegar þarfir og meltingarhæfni – og mataræðið ætti að endurspegla það. Eldra fólk þarf oft meira prótein til að viðhalda vöðvamassa, auk þess sem frásog næringarefna eins og B12, D-vítamíns, kalsíums og járns minnkar. Því er mikilvægt að velja næringarríka fæðu, borða reglulega og drekka vel. Einnig þarf að huga að trefjum fyrir meltinguna og gæta að sætindum, salti og ekki síst fitutegund.

Mikilvægur fróðleikur til að hafa í huga:

Þegar magasýrur minnka með aldrinum – sem er algengt – getur það haft ýmis áhrif á meltingu og upptöku næringarefna. Hér eru helstu afleiðingar:

Trufluð niðurbrot næringar: Magasýra hjálpar til við að brjóta niður prótein og örvar framleiðslu á meltingarensímum. Skortur getur valdið því að prótein meltist illa og valdið uppþembu, lofti og óþægindum.

Skert upptaka vítamína og steinefna: Sérstaklega B12, járns, kalsíums og magnesíums. Þetta getur með tímanum leitt til næringarskorts.

Aukin áhætta á sýkingum: Magasýra ver okkur gegn skaðlegum örverum úr fæðunni. Með minni sýru eykst hættan á ofvexti baktería í meltingarvegi.

Bakflæði getur versnað: Þó að það hljómi mótsagnakennt getur lágar magasýrur ýtt undir bakflæði, þar sem magainnihald stoppar lengur og þrýstingur eykst.

Margir eldri einstaklingar átta sig ekki á þessum breytingum – og rugla oft saman of mikla og of litla magasýru.

Gott ráð er að taka eplaedik (rétt gerjað eða með móðurinni) fyrir hverja máltíð. Mæli með að byrja rólega eða 1 tsk. í glas af vatni (ekki ísköldu og ekki of heitu) mæli með volgu vatni. Það hjápar til við sýrustigið í maganum og kemur jafnvægi á meltinguna.

Einnig er hægt að nota súrkál með máltíðum og volgt sítrónuvatn fyrir máltíð.

Meðvituð næring – lykill að heilbrigðri öldrun

Eftir því sem við eldumst breytast bæði líkamlegar þarfir og hvernig líkaminn vinnur úr næringu. Meðvituð nálgun á mataræði getur haft afgerandi áhrif á heilsu, orku og lífsgæði. Hér eru helstu ávinningarnir:

Þegar við eldumst þá þurfum við oft meira af ákveðnum næringarefnum, eins og próteini, B12-, D-vítamíni og kalki. Með meðvitaðri neyslu dregur úr hættu á skorti og líkaminn fær það sem hann þarf til að viðhalda vöðvamassa, beinstyrk og orku.

Það er líka mikilvægt að borða mat sem hefur bólgueyðandi eiginleika – eins og grænmeti, omega-3 fitusýrur, ólífuolía og krydd eins og túrmerik – getur dregið úr verkjum og stirðleika sem oft fylgja aldrinum.

Að halda blóðsykri stöðugum með próteinríku og trefjaríku fæði getur hjálpað til við að minnka þreytu, skapbreytingar og svefntruflanir, auk þess sem það minnkar áhættu á sykursýki 2.

Heilbrigð melting

Aldraðir finna oft fyrir breytingum í meltingu. Með því að neyta trefja, prebiotics og fjölbreyttrar plöntufæðu má styðja við þarmaflóru sem hefur áhrif á ónæmi, upptöku næringarefna og andlega heilsu.

Munum að borða hægar, með athygli og tengslum við hungur- og mettutilfinningu, hjálpar til við að koma í veg fyrir ofát og stuðlar að betri meltingu og vellíðan.

Verum meðvitund um það hvað og hvernig við borðum getur gjörbreytt hvernig við eldumst. Það er aldrei of seint að byrja – jafnvel smáar breytingar geta skilað stórum ávinningi.

Beta starfar sem ráðgjafi hjá Sálfræðingunum á Engjateig 9 og UMI Studio Seltjarnarnesi. Upplýsingar og tímapantanir: betareynis.is.

Ritstjórn maí 15, 2025 07:00