Gaby Aghioni stofnandi tískuhússins Chloé lést árið 2014 níutíu og þriggja ára að aldri. Hún var merkileg kona, innflytjandi er reis til æðstu metorða í veröld hátískunnar. Hún og maður hennar, Raymond, voru bóhemar og hluti af frjálslegu lífi listamanna í París eftir seinna stríð. Nýlega sendi merkið frá sér nýjan ilm, Nomade, innblásinn af hennar anda.
Gabrielle Hanoka fæddist árið 1921 í Alexandríu í Egyptalandi. Enginn veit nákvæmlega hvaða dag, yngst sjö systkina. Pabbi hennar var forstjóri ísígarettuverksmiðju og fjölskyldan var af grísk/ítölskum uppruna. Hún var menntuð á franskan máta en eigimanni sínum, Raymond Aghioni, kynntist hún fyrst sjö ára gömul þegar bæði hófu barnaskólanám. Móðir hennar hafði mikinn áhuga á tísku, einkum, „haute couture“, frá París og réð saumakonu til að endurgera sniðin upp úr frönskum tískublöðum og sauma á sig sambærilegar flíkur.
Þær mæðgur fóru saman til Parísar þegar Gaby var átján ára. Ári síðar giftist Gaby æskuástinni Raymond Aghion. Hann var einstaklega greindur og víðlesinn maður. Hann var eldheitur jafnaðarmaður og um tíma vann hann með kommúnistaflokki Egyptalands og var jafnframt mjög aktífur í antífasískum samtökum. Hann var einn stofnenda „Egypt’s Democratic Union“ árið 1939 en þar komu saman menntamenn og ræddu hvernig koma mætti á þjóðfélagsumbótum.
Flúðu til Parísar
Sjálfur var hann af velefnuðu fólki og þess vegna var ekki sjálfgefið að hann aðhylltist þær skoðanir er raunin var. Viðhorf hans urðu síðan til þess að þau hjónin neyddust til að flýja til Frakklands árið 1945. Þar kynntust þau fljótt vinstrisinnuðu listafólki, þeirra á meðal málaranum, Pablo Picasso og rithöfundinum Lawrence Durrell sem margir Íslendingar kynntust í sjónvarpsþáttunum, The Durrell’s sem sýndir voru á RÚV.
Gaby stofnaði Chloé árið 1952 og vakti þegar í stað athygli. Hún varð að berjast fyrir sjálfstæði sínu því þótt maður hennar teldi frelsi og sjálfræði verkafólks nauðsynlegan grundvöll þjóðfélgsumbóta gilti ekki hið sama um konur. Að hans mati átti gift kona ekki að vinna utan heimilis. Fjölskyldur þeirra beggja voru einnig á móti uppátækinu og meira að segja vinkona hennar, Chloé, sem hún skírði merkið eftir var full lítilsvirðingar. „Sko, fjölskylda þín er rík; ekki segja mér að þú ætlir að fara að lifa á þessu?“ Var það sem hún hafði að segja. Gaby varð mjög reið og kannski fleytti reiðin henni síðasta spölinn að minnsta kosti lét hún ekki stöðva sig.
Tíska eftirstríðsáranna var fremur afturhaldssöm og stíf. Þetta var sérstaklega áberandi í hinu „nýja útliti“ frá Dior. Dragtir og kjólar þröng í mittið og síð pils í anda „Belle Époque“ tímabilsins voru algeng en fyrsta lína Chloé var djörf því hún kom með mjúkar línur, blómamynstur og létt, flæðandi efni. Hún var sögð hafa verið fyrst til að nota orðasambandið prét a porter um tilbúnar hátískuflíkur er kaupa mátti beint af fataslánni í verslun en þannig var fatnaður Chloé. Ástæðan var sú að Gaby og vinkonur hennar vildu gjarnan klæðast fallegum fötum en höfðu ekki efni á að kaupa rándýrar „haute couture“ flíkur. Þær leituðu til saumakvenna og urðu jafnframt að sætta sig við óvandaðri efni og minni gæði. Á sama tíma sóttu konur í æ ríkari mæli út á vinnumarkaðinn og þær höfðu þurftu á fötum að halda sem ekki hömluðu þeim. Flestar voru einnig of tímabundnar til að geta mætt í mátun eftir mátun hjá tískuhúsunum.
Tíska fyrir ungar konur
Gaby sá í þessu tækifæri til að skapa tísku er höfða myndi til ungra kvenna sem vildu vera smart og flott útfærðar en geta hreyft sig og unnið. Með þetta í huga hannaði hún sex sumarkjóla og lét sauma úr hágæðabómull. Hún var einnig séð í viðskiptum því hún bannaði verslunum er seldu vörur hennar að taka framleiðslumerkið úr flíkinni og árið 1957 var Chloé-tiskuhúsið orðið svo velþekkt fyrir kjóla sína að fjallað var um það í Vogue.
Ári síðar hóf hún samvinnu við Jaques Lenoir en hann sá um viðskiptahliðina. Þremur árum seinna var sýnd full vörulína á tískusýningu á Café de Flore. Gaby kaus alltaf vönduð efni og notaði mikið siffon, liti er klæða flesta og snið er löguðu sig að kvenlíkamanum. Meðal lita er einkenndu línur hennar voru miðnæturblár, rósgullinn og beis. Hún var mjög hrifin af geometrískum mynstrum og art deco-stílnum. Einmitt þessi einkenni eru mjög áberandi í nýja Nomade-ilmvatnsglasinu. Það var raunar hannað með Drew-töskuna í huga en sú er löngu orðin klassísk og margar konur dreymir um að eignast eina slíka.
Gaby hóf árið 1959 að ráða aðra hönnuði til liðs við sig og hún þótti hafa einstaklega næmt auga fyrir hæfileikum. Meðal þeirra er unnu með henni voru, Maxime de la Falaise, Graziella Fontana og Gérard Pipart. Árið 1964 var hún farin að senda frá sér tvær vörulínur á ári í einu herbergi ægði öllu saman, hönnuðum, stílistum, efnum og teikningum. „Á einhvern óskiljanlegan hátt komumst við hjá því að drepa hvert annað og setja saman samræmda línu hvert vor og haust,“ sagði Gaby síðar í viðtali.
Milli Chloé og Karls Lagerfeld
Um þetta leyti gekk Karl Lagerfeld til liðs við hana. Hún var meira en tíu árum eldri og hann bar ómælda virðingu fyrir henni. Hann hefur oft nefnt að hún hafi verið einn á áhrifamestu mentorum hans þegar hann var að byrja í faginu. Gaby var sömuleiðis mjög hrifin af unga manninum og kallaði hann eina raunverulega andans manninn sem hún hefði unnið með. „Það var eitthvað á milli okkar,“ sagði hún einhverju sinni. „Við spurðum hvort annað: Hvað eigum við að gera? Síðan fór Karl heim og kom tveimur dögum seinna með heilan haug af teikningum og ég fór í gegnum þær eina af annarri.“ Hún viðurkenndi einnig að enginn annar hönnuður hefði reynst hálfdrættingur á við hann hvað afköst varðaði. Karl Lagerfeld hætti hjá Chloé árið 1983 en kom aftur tímabundið á tíunda áratug síðustu aldar, þá til að endurhanna hina frjálslegu flæðandi kjóla sem Chloé var svo þekkt fyrir.
Á sjöunda áratugnum opnaði verslun á Rue de Bac í París. Það var ótrúleg bylting að geta gengið inn af götunni í tískuverslun þar sem fötin hengu tilbúin uppi, máta og ganga út með nýja flík. Þangað komu Jackie Kennedy, Brigitte Bardot og Grace Kelly. Árið 1985 dró Gaby sig í hlé og seldi sinn hlut í Chloé, Dunhill Holdings. Þótt hún væri opinberlega hætt að vinna var hún í stöðugu samstarfi við tískuhúsið og kom á allar tískusýningar þess í París. Þegar Chloé hét upp á sextiu ára afmæli fyrirtækisins árið 2012 voru gerðar tuttugu og sex stuttmyndir hver og ein helguð fyrri sýningum merkisins en þær hétu eftir stöfunum í franska stafrófinu en það var venja Gaby að merkja hverja vörulínu með einum bókstaf. Árið 2013 var Gaby Aghion sæmd Legion of Honour, orðunni en það er æðsta viðurkenning sem Frakkar veita borgurum sínum. Hún fékk hana fyrir framlag sitt til tískuiðnaðarins. Raymond lést árið 2009 en hjónin áttu einn son, Philippe, en hann er hagfræðingur.