Ganga til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini

Styrktarfélagið Göngum saman, efnir til styrktargöngu á 14 stöðum á landinu á mæðradaginn 10.maí, til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.  Í Reykjavík verður gengið frá Háskólatorgi klukkan 11:00.  Einnig verður gengið á eftirfarandi stöðum:  Borgarnesi, Stykkishólmi, Patreksfirði, Ísafirði, Hvammstanga, Siglufirði, Akureyri, Egilsstöðum, Vopnafirði, Neskaupsstað, Fáskrúðsfirði, Höfn og Selfossi.

Ætlunin er að veita 10 milljónir í styrki á þessu ári, sem er sama upphæð og á síðasta ári.  Frá því félagið var stofnað fyrir átta árum hefur það veitt 50 milljónum króna til vísindamanna sem stunda rannsóknir á brjóstakrabbameini.

Krabbamein snertir alla

En hvað er það sem fær hundruð manna til að ganga saman til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini?  Gunnhildur Óskarsdóttir formaður Göngum saman, segir að brjóstakrabbamein og krabbamein almennt snerti alla og menn séu tilbúnir að taka þátt í að styðja málefni sem þeim finnst skipta máli.  Fyrir hana sjálfa sem hefur í tvígang greinst með brjóstakrabbamein hefur félagsskapurinn mikla þýðingu. Göngur séu líka heilsueflandi og það sé gott að vera í samskiptum við fólk.  Þar skipti máli félagsskapurinn, samhugurinn og allt sem tilheyri honum.  „Við höfum mætt svo mikilli velvild“, segir hún.  „Fólki finnst líka jákvætt að láta gott af sér leiða og  vinna sjálfboðaliðastarf sem gefur mönnum von.  Hver einasta króna sem safnast fer í rannsóknir, við erum ekki með neina yfirbyggingu og allir gefa vinnuna sína“.

Rannsóknir kynntar

Á göngudaginn 10.maí, verða vísindamenn á Háskólatorgi sem hafa fengið fé í rannsóknir sínar frá Göngum saman.  Þeir verða þar og sitja fyrir svörum, hafi menn áhuga á að ræða við þá um rannsóknir þeirra. Gunnhildur segir þetta frábæra fulltrúa íslenskra vísindamanna, bæði reynslumikið fólk og svo nemar í meistara- og doktorsnámi.  „Þetta er fólk sem er að leggja lið málum sem skipta framtíðina miklu máli“, segir hún.

Nánari upplýsingar um Göngum saman má finna á www.gongumsaman.is

 

 

 

 

Ritstjórn maí 7, 2015 10:30