Hans Kristján Árnason hafa flestir heyrt um í ýmsu samhengi þótt lítið hafi farið fyrir honum undanfarið. Hann segir sjálfur að ævi hans hafi oft verið mjög skemmtileg enda hafi hann verið svo lánsamur að hafa getað verið mikið nálægt skemmtilegu og hæfileikaríku fólki.
Hans Kristján verður 75 ára í október næstkomandi og segist fara hægar en hann hefur oft gert þótt hann sé hvergi nærri hættur að gera skemmtilega hluti. ,,Ég er svo heppinn að eiga fjölmarga góða vini sem ég hitti alla daga. Ég fer til dæmis daglega í sund þar sem ég hitti nokkra þeirra í heita pottinum. Ég hef haft fyrir vana undanfarin 50 ár að fara í sund daglega og ætla ekki að hætta því á meðan ég kemst þangað,“ segir hann og brosir. Vesturbæjarlaugin er hans laug og þar hittist alltaf sami hópurinn eftir hádegið alla daga, líka um helgar. ,,Ég synti alltaf töluvert áður fyrr en núna nenni ég því ekki lengur,“ segir hann og er augljóslega vel útitekinn. ,,Potturinn er svo notalegur og þar sitjum við og spjöllum þangað til við erum orðnir vel soðnir. Ég held að það sé bara hollt fyrir okkur og svo er það alltaf skemmtilegt en við látum kalda pottinn vera. Ég geng hins vegar helst allra minna ferða.“
Viðburðarík ævi
Hans Kristján er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og fór í framhaldsnám í Lundúnaháskóla. Þegar hann kom heim frá námi fékk hann starf sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Þegar hann hætti þar eftir nokkur ár endurvakti hann umboðs- og innflutningsfyrirtæki sem afi hans, Hans Eide, hafði stofnað og bar nafn hans. Fyrirtækið hafði ekki verið í rekstri í mörg ár en Hans Kristján vakti það til lífsins og rak það í mörg ár. Með fram stundaði hann kennslu í Verslunarskólanum, bæði í hagfræði og stjórnun.
Hann seldi svo fyrirtækið og réði sig sem framkvæmdastjóra Alþýðuleikhússins sem hann segir að hafi verið óskaplega skemmtilegur og áhugaverður tími. Þar var hann í nokkur ár og hafði mjög gaman af að kynnast leikhúsheiminum svolítið.
Ný sjónvarpsstöð stofnuð
Þá var kominn tíminn þegar Hans Kristján tók þátt í stofnun Stöðvar 2 með Jóni Óttari Ragnarssyni. „Við Jón Óttar byrjuðum að undirbúa stofnun nýrrar sjónvarpsstöðvar 1983 og það var mikið ævintýri,“ segir Hans Kristján. „Einokun RÚV var aflétt 1984 og tók gildi 1985 og þá vorum við tilbúnir í slaginn. Við áttum enga peninga svo við fórum á fund bankastjóra Verslunarbankans sem hafði trú á okkur. Þarna vorum við að keppa við fyrirtækið Ísfilm sem var eign Reykjavíkurborgar, Morgunblaðsins, Sambandsins, DV og Indriða G. Þorsteinssonar. Þeir voru með sömu hugmynd en við vorum fljótari að hugsa og náðum góðum umboðum sem skipti sköpum. Það endaði með því að þeir hættu við sínar fyrirætlanir. Við gátum þá ráðið til okkar alla tæknimennina þeirra og fórum á flug. Stöðin fór í loftið 9. október 1986 og þá fór ég að gera þætti, t.d. seríu sem kallaðist Íslendingar erlendis sem margir muna eflaust eftir. Ég leitaði uppi Íslendinga sem höfðu getið sér gott orð í útlöndum. Við lögðum mikla áherslu á innlenda framleiðslu á meðan RÚV var alltaf að spara og hafði ekki látið búa til slíkt efni. Ég var á þessum tíma mikið í Bandaríkjunum þar sem ég bjó til þætti um fólk eins og Höllu Linker, Helga Tómasson, Hans G. Andersen og fleiri.“
Stöð 2 reis og féll
Í lok 1989 var skuldastaðan hjá Verslunarbankanum orðin slæm og frumkvöðlarnir misstu fyrirtækið. „Stöðin byrjaði með engar tekjur en fulla dagskrá allan sólarhringinn alla daga ársins og það var rosalega kostnaðarsamt. Svo fóru tekjurnar að koma smátt og smátt þegar við fórum að selja myndlykla og auglýsingar. En það dugði ekki til því það tekur hugmynd eins og þessa alltaf 5 – 7 ár að komast í góðan rekstur en hér var ekkert þolinmótt fjármagn að hafa á þessum tíma og engin Kauphöll. Við fengum því ekkert hlutafé til að halda áfram. Verslunarbankinn var með veð í hlutabréfum fyrirtækisins en mátti ekki nýta það fyrr en í lok árs 1989 og gerði það. Svo niðurstaðan varð því miður þessi,“ segir Hans Kristján og er að vonum vonsvikinn þegar hann rifjar þessa sögu upp en nú velkist enginn í vafa um að hugmyndin var góð. Frumkvöðlarnir ruddu brautina, fóru geyst en nutu ekki góðs af sem er því miður oft saga eldhuga.
Stofnaði bókaforlag og gaf út metsölubók
Eftir Stöðvar 2 ævintýrið hélt Hans Kristján áfram að gera þætti fyrir sjónvarp og skrifaði nokkrar bækur. Fyrst var bók sem hann skrifaði með Gunnari Dal heimspekingi og skáldi og þeir nefndu „Að elska er að lifa“ 1994. Hans Kristján hafði fyrst gert sjónvarpsþátt um Gunnar Dal fyrir RÚV og spurði hann í framhaldi hvort hann vildi að skrifa með sér viðtalsbók. „Gunnar var til í það og við byrjuðum í janúar og vorum búnir í maí og ég var alveg sannfærður um að ég myndi finna útgefanda,“ segir Hans Kristján. „Ég fór á milli allra bókaútgáfa á landinu með tilbúið handrit en enginn hafði áhuga. Ég endaði þá með því að gefa bókina út undir eigin nafni og það er skemmst frá því að segja að hún varð metsölubók það árið. Við endurprentuðum hana þrisvar fyrir jólin. Svo hélt ég áfram að gefa út bækur sem mér þóttu áhugaverðar og sé ekki eftir því.“
Hans Kristján hélt líka áfram að gera viðtalsþætti og má nefna þátt um Jón Baldvin Hannibalsson þegar hann kom heim frá Bandaríkjunum. Hann gerði líka þátt um Valgerði Bjarnadóttur þegar hún kom heim frá Brussel og nokkra fleiri þætti. Eftir Hans Kristján liggur því mikið efni, um 30 þættir, sem er óvéfengjanlega heimildir sem ekki mega glatast.
Einn merkilegasti þátturinn
Einn af þáttunum sem Hans Kristján er hvað stoltastur af er þáttur frá 2009 og er þáttur um fyrrverandi forstjóra MOMA (Museum of Modern Art í New York) en hann var Íslendingur og hét Sveinn Kristján Bjarnason. Hann fæddist á Breiðabólstað á Skógarströnd en tók síðar upp nafnið Holger Cahill. „Hann varð líklega áhrifamesti maður í myndlistaheimi Bandaríkjanna á fyrri hluta síðustu aldar,“ segir Hans Kristján. „Foreldrar Sveins fluttu með hann ungan til Dakota og þaðan fór hann táningur og velkist víða um heim og endaði í New York. Franklin D. Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, skipaði hann forstjóra The Federal Art Project sem var hluti af New Deal og þar með varð þessi Íslendingur, sem fæddist í torfbæ á Íslandi, valdamesti maður í bandarískri myndist 1935. Ég var í mörg ár að vinna þessa mynd því þetta er ofboðslega merkileg saga sem Íslendingar vissu ekkert um.“
Holger hitti Halldór Laxness í boði
„Til er fræg saga frá 1959 þegar Halldór Laxness og Auður voru í boði hjá þekktum listunnanda, judge Isaacs, í New York. Þar voru samankomnir ýmsir listunnendur og inn koma hjón og maðurinn kemur til Laxness og segir með þungum amerískum hreim: ,,Komdu sæll mr. Laxness. Ég heiti Sveinn Kristján Bjarnason frá Breiðabólstað.“ Þeim varð vel til vina og skrifuðust mikið á og Halldór íhugaði að skrifa ævisögu þessa manns. Hann bauð Sveini hingað heim til Íslands sumarið 1960 en þá um vorið lést Sveinn Kristján, eða Holger Cahill, svo úr ævisögurituninni varð aldrei. En einn síðasti þátturinn sem ég gerði var sem sagt um þennan merkilega mann.“
Fyrirmynd Flemings að James Bond
Annar þáttur sem Hans Kristján gerði var um fyrirmynd Ians Fleming að James Bond sem líka var Íslendingur. Sá hét Sir William Stephenson, fæddur á Skógarströnd eins og Sveinn Kristján (Holger). Stephenson var yfirmaður njósna Breta í Norður- og Suður-Ameríku á stríðsárunum og Fleming var starfsmaður þessa manns. Fleming sagði frá því í viðtali að hann hefði notað þennan yfirmann sinn sem fyrirmynd að James Bond.“ Hans Kristján hefur nú tekið þátt í að setja á stofn safn um Sir William Stephenson í Reykjavík.
Orðinn frekar rólegur
Hans Kristján segir brosandi frá að hann hafi verið forseti félags sem kallast Loki en það er félagsskapur stofnaður um 1960 af mönnum sem voru þá við nám í Munchen. „Þessi klúbbur hittist mánaðarlega í hádegismat og þá koma alltaf fyrirlesarar og er alveg ferlega skemmtileg stund. Svo hef ég verið í framboði en ég fór í framboð með Lýðræðisvaktinni þar sem kom saman merkisfólk. Okkar stóra mál var ný stjórnarskrá og það munaði minnstu að við næðum í gegn. Svo var ég framkvæmdastjóri Þjóðarhreyfingarinnar með Ólafi Hannibalssyni, Þorvaldi Gylfasyni, Jónatani Þórmundssyni, Valgerði Bjarnadóttur og fleira góðu fólki, þá verð ég að nefna sérstaklega Einar bróður minn sem var frumkvöðull að þessu öllu. Við byrjuðum á að berjast gegn fjölmiðlafrumvarpi Davíðs Oddssonar sem Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir. Stórt mál var líka þegar við mótmæltum harðlega þátttöku Íslands í innrásinni í Írak. Ég var þá framkvæmdastjóri Þjóðarhreyfingarinnar. Við söfnuðum nokkrum milljónum og keyptum heilsíðu auglýsingu í New York Times. Þar lýstum við því yfir að Íslendingar væru ekki sammála framgöngu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar og sú auglýsing vakti gífurlega athygli.“
Ver tíma sínum með skemmtilegu fólki
Hans Kristján segist vera aðdáandi borga, ekki síst Reykjavíkur og ferðast mest í borgum en ekki úti í náttúrunni. Hann hefur átt unnustu til margra ára, Sigríði Halldórsdóttur, og dvelur flesta daga hjá henni en er enn með íbúð sína í miðbænum. Þau Sigríður hafa ferðast mikið saman, bæði innanlands og utan og enn ein borgin sem er komin á uppáhaldslista Hans Kristjáns en Þórsöfn í Færeyjum. „Við vorum nokkrir vinir sem höfðum ætlað að fara til Færeyja þegar covid brast á en nú létum við verða af þeirri ferð í vor og komumst að því að Þórhöfn er svona eins og lítil Kaupmannahöfn. Alveg stórkostleg heim að sækja og ég ætla þangað aftur í haust.“
Hans Kristján hittir hóp manna daglega í ,,happy hour“ á Den Danske kro á milli 16:30 og 18:30. „Þetta erum við búnir að gera í mörg ár og alltaf jafn gaman að hittast yfir einum öl að spjalla um pólitík og það sem er efst á baugi þá stundina. Þessar stundir eru aldrei fyllerí heldur bara vinahittingur. Svo fer ég til Siggu klukkan hálf sjö og við eldum saman, fáum stundum vini heimsókn, horfum á sjónvarpið, lesum og spjöllum.“
Óhætt er að segja að Hans Kristján kunni að lifa lífinu því eins og hann segir sjálfur er ekkert eins gaman og að vera nálægt skemmtilegu fólki og hann eigi nóg af slíkum vinum.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.