Um 70 manns voru á haustfundi Háskóla þriðja æviskeiðsins U3A fyrir skömmu og hefur haustfundurinn ekki áður verið jafn fjölmennur, að sögn Hans Kristjáns Guðmundssonar formaður stjórnar U3A. Vetrarstarfið fór því af stað af miklum krafti og hófst á þriðjudaginn með fyrsta fyrirlestrinum í fyrirlestraröðinni Merkir Íslendingar, en þar verða fluttir fyrirlestrar um fyrstu fimm þingkonurnar sem settust á Alþingi, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttarins.
Aðgangseyrir 500 krónur
Hans Kristján segir að á félagsfundinum hafi verið rætt um starfið framundan í fjórum hópum og ýmsar nýjar hugmyndir hafi komið fram sem nú sé verið að vinna úr. Á hverjum þriðjudegi klukkan 17:15 verða fyrirlestrar í Hæðargarði 31 á vegum U3A og er aðgangseyrir 500 krónur. Sjá nánari dagskrá hér. Merkir Íslendingar eru mánaðarlega fram að jólum, en einnig verður umfjöllun um skipulagsmál sem Bjarni Reynarsson sér um og námskeið í samningatækni sem er í samstarfi við Tómas Möller hagverkfræðing hjá Rými Ofnasmiðju.
Húnvetnsk fræði
Hans Kristján segir að námskeið Jóns Björnssonar Húnvetnsk fræði eigi rætur að rekja til hugmyndar um átthagaástir Reykvíkinga. Það séu enn átthagafélög við lýði og í fyrra hafi kviknað sú hugmynd að setja á laggirnar námskeið þar sem átthagatengsl Reykvíkinga við landsbyggðina yrðu efnið. Hans tekur það sérstaklega fram að þáttaka í námskeiðinu veiti mönnum ekki rétt til að kalla sig Húnvetninga. Hugmyndin er svo að taka Vestmannaeyjar fyrir í vor.
Afar, ömmur og loftslagið
Kristín Vala Ragnarsdóttir mun tala á fundi í byrjun október um loftslagsbreytingar og sjálfbærni. Og Hans Kristján segir að uppi sé hugmynd um að koma á fót umræðuhópi um loftslagsbreytingar í anda hreyfingarinnar „Grandparent´s against Climate Change“. Einnig er ætlunin að athuga með að setja á laggirnar hóp sem kallast endurskapandi verkefni kvenna, en fyrirmyndin að honum er sótt til Bandaríkjanna og Frakklands.
Aukin virkni í samfélagsmálum
„Þetta eru tvær nýjar hugmyndir í hópastarfinu sem gætu orðið til þess að þessi aldurshópur gæti orðið virkur í samfélagsmálum“, segir Hans Kristján. „Það er mikilvægt að ljá þessum hópi rödd, en það hefur viljað brenna við að litið sé á eldra fólk sem byrði á samfélaginu“.