Eigum við eingöngu vini á okkar aldri? Það er vel þess virði að leggja sig eftir að kynnast unga fólkinu og viðhorfum þess. En hvernig förum við að því? Þessi lífsstílsgrein af vefnum sixtyandme, reifar þetta og gefur ráð um hvernig gott er að umgangast yngri kynslóðina. Hún fer hér á eftir í lauslegri þýðingu Lifðu núna.
Ég er komin á sjötugsaldur og vinn alla vikuna sem kokkur. Ég er 66 ára og á sama aldri og ömmur margra yngri vinnufélaga minna. Það er stundum erfitt, en aðallega er það skemmtilegt og upplífgandi og lætur mér líða eins og ég sé yngri en ég er.
Einn þjónanna sagði mér frá því um daginn að hún ætlaði að fara í mánaðarlanga fjallgöngu með bakpokann sinn í sumarfríinu. Hún veit að ég fer oft í gönguferðir og bað mig um ráðleggingar varðandi undribúning ferðarinnar. Ég bauðst til að sýna henni uppáhalds göngustaðina mína og hún þáði það. Hún er 19 ára gömul.
Mér flaug í hug, hvort ég væri kannski að ganga fram af mér líkamlega við að reyna að halda í við svona unga konu á göngunni, sterka og í góðu formi. Ég ákvað hins vegar að prófa og sjá hvort ég gæti þetta. Við höfðum mjög gaman af gönguferðinni sem við fórum í og uppgötvuðum að við vorum í svipuðu formi og fórum álíka hratt.
Við höfum núna lokið átta vikna gönguferðum saman og hún er farin í sumarleyfisferðina sína. Göngurnar hafa aukið áhuga minn á að ganga meira og finna leiðir sem reyna meira á. Ég hef í kjölfarið velt því fyrir mér hvernig á að halda kröftum og halda sambandi við fólk sem er miklu yngra en ég. Hér koma nokkrar hugmyndir um það hvernig við getum umgengist yngra fólk, þrátt fyrir aldursmuninn.
Kannaðu hvað þið eigið sameiginlegt
Spurðu unga fólkið hvað það hefur áhuga á og segðu frá þínum áhugamálum. Finnið út hvort þið eigið eitthvað sameiginlegt. Kannski hafið þið lesið sömu bækur nýlega, farið á veitingahús eða ferðast til spennandi staða. Finnið eitthvað sem getur myndað tengsl ykkar í milli.
Ræðið heilsufar og lækna við jafnaldra ykkar
Ekki tala um síðustu aðgerðina sem þið fóruð í á sjúkrahúsinu eða um veikindi almennt. Það getur verið gagnlegt að ræða slíkt við jafnaldra sína og bera saman bækur. Flestir sem eru ungir eru við góða heilsu og velta þessu ekki mikið fyrir sér. Það er bara ekki inná kortinu hjá þeim.
Spyrjið varlega
Spyrjið hvað þau eru að gera. Ekki yfirheyra þau um skólann, plönin sem þau eru með í lífinu eða ástarsamböndin sem þau eru í. Þau eru rétt að byrja lífið og eru þegar undir alveg nægri pressu, um að taka ákvarðanir um framtíðina.
Hlustið meira og talið minna
Ef ykkur langar til að unga fólkið opni huga sinn fyrir ykkur, gefið því tíma og tækifæri. Spyrjið opinna spurninga og hlustið vel þegar þau byrja að tala. Svarið í hlutlausum en styðjandi tón.
Haldið trúnað
Svarið á jákvæðan hátt og sýnið áhuga, sama hverju ykkur er trúað fyrir. Dæmið ekki, það kemur í veg fyrir heiðarlegt samtal. Verið hreinskilin en vingjarnleg.
Verið meðvituð um að tímarnir breytast
Ekki tala stöðugt um hvað allt var miklu betra hér áður fyrr, þegar þið voruð ung. Manndómsár ykkar skildu eftir sig góðar minningar, en það er ekki víst að þær skili sér endilega vel til yngri kynslóða. Menningin breytist og hver kynslóð skapar sína menningu.
Þeirra öld er tölvuöldin
Þetta unga fólk ólst upp sem tölvufólk. Tölvurnar eru fyrir þeim það sama og síminn var fyrir okkur. Ekki gagnrýna samfélagsmiðlana. Það er þeirra leið til að hafa samskipti. Það virkar ópersónulegt og skrítið fyrir ykkur, en hentar þeim vel.
Og að lokum: Gerið ykkur grein fyrir að þau eru ekki jafnaldrar ykkar. Það verða alltaf ár á milli ykkar og mismunandi sjónarmið og lífsreynsla skilur fólk að. Fagnið því hversu ólík þið eruð og leyfið þeim að kynna fyrir ykkur nýja sýn á veröldina. Það er ekki alltaf auðvelt að sýna hugrekki og taka virkan þátt í heimi nútímans með unga fólkinu. En ef þú hoppar út í djúpu laugina verðurðu sannarlega reynslunni ríkari.