Sumarfrí í bústað rétt fyrir utan Akureyri er draumur á nánast allan hátt. Í öllum áttum blasir við undrafegurð náttúrunnar og ekkert heyrist nema fuglasöngur, örskotsstund tekur hins vegar að keyra inn í bæ og nálgast þar með alla þjónustu, vörur og afþreyingu sem hugurinn þráir, allt nema gott kaffi.
Upp frá því að Guðrún frá Lundi gerði uppáhellinguna ódauðlega í sögum sínum hafa Íslendingar vitað að kaffi hressir, kætir og bætir. Sumir eru svo heppnir að vera tilbúnir að drekka hvaða dökkleitan vökva sem að þeim er réttur en aðrir eru þurftafrekari, vandfýsnari eða bara snobbaðri. Því miður er undirrituð í þeim hópi. Eftir að hafa unnið áralangt með Guðríði Haraldsdóttur, sem fékk ekki að ástæðulausu viðurnefnið Kaffi-Gurrí, vandist ég af því að drekka hvaða skólp eða kattarmigu sem er og á að gera mikinn greinarmun á vondu og góðu kaffi.
Mér datt hins vegar aldrei annað í hug en að á Akureyri þyrfti ekki að kvíða, kaffihús á hverju strái og ferðamannaþjónusta á háu stigi. Annað kom á daginn. Eftir að hafa heimsótt sex kaffihús, og margvíslegar hremmingar á borð við að ekki fékkst önnur mjólk en haframjólk, staðið gamalt kaffi í kaffikönnunni, sjálfvirkar vélar helltu upp á bollann og í boði rammt kaffi sem helst minnti á kaffibætinn í gamla daga, fannst loks kaffi sem ekki var hellt í næsta niðurfall, Sykurverk býður besta kaffi á Akureyri, frábærar kökur, notalegt andrúmsloft og gómsætar franskar pönnukökur eða crépes. Kaffi Ilmur kemst næst þeim en þar er að fá fínt kaffi og góðar veitingar. Annars staðar ættu kaffiunnendur að forðast að panta kaffi.
Sykurverk er staðsett í Strandgötu 3 eiginlega alveg við Ráðhústorgið. Innréttingar og allur bragur veitingastaðarins er augljóslega miðaður við að hér geti vinkonur hist og notið samveru og þetta er bæði barnvænn og gæludýravænn staður. Þemað er bleikt en aðrir pastellitir í hávegum hafðir. Fyrir utan er loðnum gestum boðið upp á vatn úr bleikum dalli og innandyra er litríkt smakk í boði fyrir minni og stærri gesti. Framreiðsludömurnar klæðast bleiku og eru liprar og ljúfar í framkomu. Pönnukökurnar voru fullkomlega eldaðar, stökkar í endana, mjúkar í miðju og fyllingin sérlega vel útilátin. Allar kökur líta einstaklega girnilega út og þær sem við völdum smökkuðust ekki síður vel.
Kaffi Ilmur er hins vegar í brekkunni fyrir ofan göngugötuna í Hafnarstræti. Þar er mjög gott að sitja úti og njóta þess að horfa á iðandi mannlífið fyrir neðan. Þar er hægt að mæla með íslensku kjötsúpunni og Magnúsartertan var einstaklega góð. Kaffið er fínt en jafnast ekki á við Sykurverkskaffið.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.