Lækkaðu verðið á matarkörfunni

Viðvarandi verðbólga kemur við budduna hjá öllum og eldra fólk finnur ekki síður fyrir hækkandi verði á matarkörfunni en þeir sem yngri eru. Með því að skipuleggja innkaup sín og varast nokkrar alltof auðveldar gryfjur að falla í má draga úr kostnaði við heimilishaldið. Fyrsta skrefið er að vera meðvitaðri um hvað er keypt inn, hvenær og hversu oft.

Það er freistandi að kaupa tilbúinn mat eða eitthvað sem auðvelt er að elda en almennt gildir að þau matvæli eru dýrari og óhollari. Þau eru meira unnin og ætti þess vegna að forðast. Hér eru nokkrar leiðir til að bæði lækka verðið á matarkörfunni og líka bæta mataræðið:

  1. Veldu vel

Vissulega er öðruvísi að elda fyrir einn eða tvo en það var að setja saman holla máltíð fyrir heila fjölskyldu. Það er hins vegar hægt að finna leiðir til að gera slíka matargerð áhugaverða og skemmtilega líka. Vissulega eru tilbúnir skammtar af kjöti og fiski oftast nær miðaðir við fjóra en auðvelt er að skipta þeim niður eða elda réttinn og frysta helminginn. Það er tímasparnaður og þægindi síðar. Ef farið er í sérverslanir með kjöt eða fisk fást þessi hráefni hins vegar eftir vigt og þá er engin hætta á afgöngum. Til að auka grænmetisneyslu er gott ráð að til dæmis bæta rifnu grænmeti út í kjöthakk, kjötfars eða ofan á fiskrétti í ofni. Það gefur gott bragð í réttina og eykur hollustuna. Sumt grænmeti er vissulega dýrt á Íslandi en margt er verulega ódýrt, til dæmis, rófur, hvítkál og gulrætur. Hvítkál er gott í salat og pottrétti og það passar einkar vel með fiski. Til að bragðbæta hvítkálssalat er gott að bæta við rifnum eplum, ananas eða öðrum ávöxtum.

  1. Kex, kökur og annað kruðerí

Af kexi, kökum, snakki, poppi og sælgæti er mikið úrval í íslenskum verslunum og þessar vörutegundir eru dýrar og óhollar. Í staðinn fyrir að eiga kex eða annað til að grípa milli mála er sniðugt að kaupa ávexti og grænmeti og skera niður í þægilega bita. Þeir geymast ágætlega í ísskáp í um það bil tvo sólarhringa en svo má líka byrja hvern dag á að skera niður dagsskammt af grænmeti og ávöxtum. Það bæði þægilegt og sérlega gómsætt að grípa til yfir daginn.

  1. Innkaupalistar eru algjör nauðsyn

Að fara í búð án innkaupalista er oftast ávísun á að fleira ratar í körfuna en heimilið beinlínis vantar. Margir hafa hangandi í eldhúsinu minnismiða og skrifa á hann um leið og eitthvað klárast. Þessi miði verður svo innkaupalistinn og gott er að einsetja sér að kaupa aldrei neitt sem ekki er á honum. Sumir kjósa líka að ákveða matseðlana viku fram í tímann og kaupa inn með þá í huga.

  1. Dísætir drykkir og sódavatn

Mjög margir geta ekki verið án gosdrykkja og það færist í vöxt að Íslendingar drekki sódavatn í stað kranavatns. Þessi drykkir eru dýrir og algjör óþarfi í landi þar sem hreinasta og besta vatn sem hugsast getur kemur úr krönunum. Ekki má heldur gleyma að plastflöskur og áldósir eru síður en svo umhverfisvænar. Leggjum okkar af mörkum til náttúruverndar og hættum að kaupa drykki í verslunum. Njótum íslenska vatnsins og spörum í leiðinni.

  1. Kauptu þar sem er ódýrast

ASÍ gerir reglulega verðkannanir og það er sjálfsagt að skoða þær áður en haldið er af stað út í búð. Í stað þess að sýna búðinni á horninu tryggð er mun nær að verðlauna þann sem býður besta verðið.

  1. Veldu ódýrustu tegundina

Í flestum verslunum á Íslandi er mikið vöruúrval og sama varan fæst frá mörgum mismunandi merkjum. Gæðamunur er oftast lítill eða enginn. Veldu ódýrasta merkið. Það borgar sig þegar til lengri tíma er litið.

  1. Magninnkaup geta borgað sig

Í stórmörkuðum er oft mun ódýrara að kaupa meira magn en minna. Það getur borgað sig að nýta sér slíkt og eins að kaupa tilboðsvöru, skipta henni upp í hæfilegar einingar fyrir þitt heimili og frysta. Þurrvöru er hægt að geyma í góðum loftþéttum umbúðum í langan tíma svo oftast er óhætt að kaupa hana í talsverðu magni.

  1. Nýttu vel það sem keypt er

Enginn vill stunda matarsóun en á fámennum heimilum er oft erfitt að verjast því að hráefni skemmist. Grænmeti og ávextir sem keypt er, brauð, mjólkurvörur og annars konar ferskvara á það til að skemmast því tvær manneskjur komast einfaldlega ekki yfir að nýta þær eins hratt og þyrfti. Oft er hægt að frysta slíkan mat þegar ljóst er að hann verður ekki notaður strax. En það má líka drífa í að elda nokkra rétti og frysta þá. Ávexti er fyrirtak að frysta og nota í hristinga.

  1. Fylgist vel með verðlagi

Við erum fæst okkar meðvitaðir neytendur því miður. Margir vita ekki hvað lítri af mjólk kostar, skyrdós eða bréf á kjötáleggi. Það getur hins vegar skipt miklu máli að fylgjast vel með verðlagningunni og laga sig að breytingum á verði vörunnar. Ef kjötálegg hækkar velja þá eitthvað annað ofan á brauð til dæmis eða kjósa aðra tegund en venjulega ef hún er ódýrari. Undanfarið hefur einnig mikið verið tala um að framleiðendur notfæri sér hrekkleysi neytenda og minnki magn í umbúðunum en selji vöruna áfram á sama verði. Allir ættu að sniðganga framleiðanda sem fer þannig að ráði sínu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 19, 2024 07:00