Landsmenn ganga til sveitarstjórnakosninga í dag. Alls eru 277.127 manns á kjörskrá og hafa aldrei verið fleiri. Kjörnir sveitarstórnarmenn voru alls 502 í síðustu kosningum árið 2018, en þeim fækkar lítið eitt núna þar sem nokkur sveitarfélög hafa sameinast. Eftir sem áður er þó meira en helmingur íslenskra sveitarfélaga með færri en 1.000 skráða kjósendur og níu með innan við 100.
Athygli vekur að af þeim 502 sem náðu kjöri til setu í sveitarstjórn fyrir fjórum árum voru einungin 55 í aldurshópnum sextíu ára og eldri, eða 11 prósent af heildinni. Þetta segir Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðiprófessor, sem er sérfróð um sveitarstjórnarmál,
að sé mun lægra hlutfall en gerist og gengur á hinum Norðurlöndunum. Meðalaldur sveitarstjórnarmanna á Íslandi hafi á því kjörtímabili sem lýkur í dag verið 46 ár; í Danmörku sé hann aftur á móti 56 ár. Þetta sé umhugsunarefni; margt í stjórnsýslu sveitarfélaga sé flókið og taki tíma fyrir fólk að setja sig inn í. Því geti reynsla verið dýrmæt fyrir skilvirkni stjórnýslunnar og gæði þeirrar þjónustu sem íbúarnir fá hjá sínu sveitarfélagi.
Eva Marín hefur áður vakið athygli á því að endurnýjun sé milli 50 og 60 prósent í sveitastjórnakosningum og alveg upp undir 65 prósent hjá konum. Hún bendir á að þegar endurnýjunarhlutfall sé orðið svo hátt í hverjum kosningum þýði það einfaldlega að mikil þekking fari út úr sveitarstjórnunum og hún sé kannski að fara aðeins of hratt.
Í ljósi þessa finnst Evu Marín framboð eins og „Vinir Kópavogs” með reynsluboltann Helgu Jónsdóttur í fararbroddi, og framboð Guðmundar Árna Stefánssonar fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði vera athyglisverð. Þar sé verið að veðja á að sú ríkulega reynsla sem oddvitar framboðanna búi yfir höfði til kjósenda.
17,8% kjósenda 67 ára og eldri
Lifðu núna kannaði hvert hlutfall kjósenda á aldrinum 67 ára og yfir væri í kosningunum nú. Það er 17,8 prósent að meðaltali, en hlutfallið er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Þegar litið er til fjölmennustu sveitarfélaganna er hlutfallið lægst í Reykjanesbæ, rúmlega 13%, en hæst í Seltjarnarnesbæ, 21,74 prósent. Í langfjölmennasta sveitarfélaginu Reykjavík er það 16,72 prósent. En þar sem kjörsókn er almennt meiri í þessum aldurshópi en hjá hinum yngri er vægi hans víðast hvar meira en sem nemur þessum tölum.
Þeir sem vilja kynna sér nánar töluleg gögn um kosningarnar geta nálgast þær á vef Þjóðskrár og á vef Hagstofunnar. Almennar hagnýtar upplýsingar fyrir kjósendur er annars að finna hér, á vef Stjórnarráðsins, til að mynda um það hvar kjörstaðir eru og hvernig fólk fer að því að fletta sjálfu sér upp í kjörskrá.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.