Lifað og leikið á liðnu ári

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar

Ég hef nokkur undanfarin ár haft fyrir sið að kaupa mér borðdagatal sem er um það bil A4 að stærð. Hver mánuður á sér sína síðu og hver dagur sinn reit þar sem ég skrái nokkur orð til minnis. Á fyrsta degi nýbyrjaðs árs stendur til dæmis ganga, á þeim þriðja leikfimi og laugardaginn sjötta janúar hef ég skrifað leikhús – Orð gegn orði. Í lok árs lítum við gjarnan um öxl og rifjum upp árið sem er að líða. Þá kemur dagatalið sannarlega að góðum notum. Þó að minni mitt bregðist mér sjaldan sé ég þar, hvítt á bláu 😊, að árið var mun annasamara og tilbreytingaríkara en ég hefði haldið í fljótu bragði.

Þegar fólk er komið á virðulegan aldur, eins og ég, og er ekki lengur á vinnumarkaði breytist taktur daglegs lífs. Ramminn utan um það er hins vegar áfram sá sami og við aðhöfumst og gerum ýmislegt dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár án þess kannski að velta því mikið fyrir okkur. Það er helst þegar eitthvað truflar þennan fasta takt að við stöldrum við. Svefn er til dæmis sjálfsagður og eðlilegur – þangað til hann er það ekki lengur. Eins er það með matinn. Við hugsum heldur ekki mikið um daglegar neysluvenjur fyrr en matarlystin breytist eða eitthvað annað kemur upp á sem veldur því að við erum knúin til breytinga. Slík atriði hef ég ekki skráð á dagatalið góða heldur ýmislegt annað sem flokkast kannski ekki endilega sem lífsnauðsynleg atriði eins og svefn og næring en hafa hins vegar sannarlega áhrif á lífið og tilveruna.

Golf – ganga – leikfimi

Mér sýnist að á liðnu ári hafi ég skráð hjá mér að 150 daga hafi ég annað hvort farið í golf, út að ganga eða í leikfimi. 😊 Þessi staðreynd kom mér skemmtilega á óvart en þó ekki. Undanfarið hef ég neyðst til að vera meira heima en ég hefði helst viljað. Ég er sjálfri mér nóg og líður ágætlega í eigin félagsskap, les mikið og á auðvelt með að hafa ofan af fyrir sjálfri mér. En ég hef saknað þess að að hafa ekki haft tækifæri til að hreyfa mig jafn mikið og ég hef þörf fyrir. Í byrjun síðasta árs stundaði ég reglulega leikfimi tvisvar sinnum í viku. Þess á milli fór ég út að ganga eftir því sem veður og færð leyfðu. Oftast var ég ein á ferð en naut þess líka að góðar vinkonur slógust í för með mér. Þegar fór að vora og veðrið að skána tók golfið við. Þrátt fyrir kalt vor og vætusaman júnímánuð telst mér til að ég hafi farið um það bil 70 sinnum í golf á liðnu ári! Samkvæmt minni vísindalegu skráningu gekk ég fyrsta golfhringinn 30. maí, enda voraði seint og leiðindaveður nánast allan mánuðinn. Síðasta golfhringinn gekk ég 8. október enda haustið með eindæmum gott. Golf er í mínum huga ekki aðeins hreyfing og útivera og þó að ég hafi gaman að keppninni sem því fylgir eru það félagarnir sem ég leik með hverju sinni sem skipta mig mestu máli. Oftast gekk ég 9 holur en slíkur hringur tekur um það bil tvær klukkustundir. Suma golffélgana hef ég þekkt lengi og spilað með þeim árum saman, aðra hef ég þekkt skemur og svo bætast við nýir félagar ár hvert. Allt þetta fólk hefur að einhverju leyti auðgað tilveruna og gert íþróttina skemmtilegri. Ég hef líka skráð hjá mér 6 skipti í golfhermi. Tímarnir hafa kannski verið fleiri og ég gleymt að skrá þá enda finnst mér slíkt golf engan veginn jafnast á við golf úti undir berum himni.

Eftir að golfvertíðinni lauk tók leikfimin aftur við. Ég þekki reynda fáa sem eru með mér í tímunum en hef fyrirtakskennara sem leiðbeinir mér og hvetur eftir því sem efni og aðstæðu gefa tilefni til.  Það kemur mér á óvart að ég skuli ekki hafa skráð hjá mér nema 20 gönguferðir. Líklega er ástæðan sú að ég fer svo oft út að ganga að mér hefur ekki alltaf fundist taka því að færa gönguferðirnar til bókar.

Sjúkraþjálfun – heilsa – snyrting

Ég reyni að fara vikulega til sjúkraþjálfara og finn að ég hef verulega gott af því. Reyndar höfum við, sjúkraþjálfarinn og ég, komið okkur saman um að fella tímana niður yfir sumarmánuðina og láta golfið hafa forgang. Sem betur fer er ég hraust og hef ekki oft þurft að leita til læknis. Ég er sannfærð um að meðal skýringa á því eru reglulegar heimsóknir til sjúkraþjálfara, hreyfing og útivera. Mér sýnist á dagatalinu að ferðir til sjúkraþjálfara og heimsóknir til læknis hafi verið samtal 34 skipti.

Ég læt reglulega laga á mér hárið og fer líka reglulega á snyrtistofu. Hvoru tveggja skipir mig máli en ég er svo hégómleg að ég ætla að sleppa því að nefna hve oft ég hef farið annað hvort í hárgreiðslu eða á snyrtistofu.

Boð – spilamennska –  fundir – hádegisverðir

Samkvæmt dagatalinu hefur okkur hjónum verið boðið í mat eða við haldið matarboð 35 sinnum á liðnu ári! Reyndar eru þau mun fleiri boðin sem við höfum verið gestir í en þau sem við höfum haldið. Vonandi náum við á nýju ári að rétta aðeins við þann halla. Ég er mjög þakklát fyrir öll boðin sem við höfum notið. En mér finnst miklvægt að geta endurgoldið velviljann. Góð vinátta og góð samskipti snúast um að bæði gefa og þyggja.

Ég hef verið félagi í bridsklúbbi í áratugi og nýt þess að hafa í gegnum spilamennskuna eignast einstakar vinkonur. Við hittumst reglulega, spilum, borðum góðan mat, spjöllum og eflum vináttuna. Ég hef skráð hjá mér að spilakvöldin sem ég náði að njóta á síðasta ári hafi verið 10. Vondandi verður breyting þar á á nýju ári og ég næ að mæta oftar.

Ég sæki reglulega fundi í nokkrum félögum sem ég á aðild að og undantekningalaust finnst mér ég græða á að sækja fundina og fylgjast með því sem þar fer fram. Fundasóknin var mest framan af árinu og fram á haust og ég finn að ég sakna þess að hafa ekki haft tækifæri til að mæta oftar. Það er mér mikilvægt að fylgjast aðeins með andardrætti mannlífsins og fá að hafa fingurinn á púlsi samfélagsins. Samkvæmt dagatalinu eru fundirnir sem ég hef sótt 18.

Ég er svo gæfusöm að eiga margar og góðar vinkonur fyrir utan þær sem eru með mér í spilaklúbbnum eða félögunum sem ég á aðild að. Áður fyrr hittumst við heima hjá hver annarri en með árunum hefur það breyst og við hittumst frekar á veitingahúsum. Dagatalið góða segir mér að 10 sinnum á liðnu ári hafi ég snætt hádegisverð með góðri vinkonu.

Jarðarfarir – leikhús – bíó

Samkvæmt dagatalinu góða hef ég tvisvar sinnum á liðnu ári farið í jarðarför. Ég viðurkenni að það kemur mér á óvart að ég skuli ekki hafa sótt fleiri jarðarfarir enda komin á þann aldur að sífellt fjölgar samferðamönnum sem falla frá. Þrisvar sinnum á liðnu ári fór ég í leikhús og þrisvar sinnum í bíó.

Utanlandsferðir

Samkvæmt dagatalinu stóð til að utanlandsferðir okkar hjóna yrðu tvær á síðastliðnu ári. En örlögin gripu í taumana og við urðum að blása síðari ferðina af. Fyrri ferðin stóð yfir í 8 daga. 4 sinnum í ferðinni spilaði ég golf og þá daga sem ekkert golf var naut ég þess að ganga úti á framandi slóðum í hlýju og góðu veðri.

Bækur og lestur

Áður en ég lýk þessari upptalningu á því sem ég sá ástæðu til að skrá sérstaklega hjá mér á dagatalið góða verð ég að nefna mitt helsta áhugamál og afþreyingu – bóklestur. Ég er alin upp á miklu bókaheimili og naut þess líka í uppvextinum að bókasafn var handan götunnar þar sem ég átti heima. Síðan giftist ég rithöfundi sem líka hefur unnið við bókaútgáfu. Bækur og bóklestur hafa því verið yfir og allt um kring í lífi mínu frá því að ég man eftir mér. Nú er svo komið að ég er orðin verulega háð bókum! Svo háð þeim að ég get alls ekki farið að sofa án þess að líta aðeins í bók fyrir svefninn. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég las margar bækur á síðast liðnu ári. Ég veit hins vegar að um jól hafði ég náð að lesa 19 af þeim bókum sem komu út fyrir síðustu jól. 😊 En það er með bækurnar eins og marga föstu liðina sem ramma inn tilveru mína að heiti þeirra koma ekki fram á dagatalinu góða. Ef svo hefði verið hefði líklega fátt annað komist þar að.

Gullveig Sæmundsdóttir janúar 4, 2024 07:00