„ Mér finnst með ólíkindum að það gangi svona illa að semja við lækna“, segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara, „og ég trúi ekki öðru en að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra klári það mál áður en til verkfalls kemur. Það er orðin mikil nauðsyn að hlúa betur að heilbrigðiskerfinu, sem skiptir verulegu máli fyrir eldri borgara og raunar alla íbúa landsins“.
Vill ekki að Landsvirkjun verði seld
Landssambandið er mjög hlynnt því að nýr Landsspítali verði reistur, en hvað fjármögnun varðar segist Jóna Valgerður andvíg því að selja Landsvirkjun. „ Þar eru svo miklar auðlindir sem eiga að vera í ríkiseign og okkar grunnþjónusta byggir á“, segir hún. Hún segist líka vera á móti auðlegðarskattinum eins og hann var í framkvæmd. „Ég fékk mörg dæmi um, að um eldri borgara var að ræða, sem ég held að hafi verið um 2/3 þeirra sem greiddu auðlegðarskattinn á sínum tíma. Það var fólk sem hafði ekki tekjur til að borga með, og gat tæplega selt þessar eignir heldur. Mér fannst þar vera um tvískattlagningu að ræða eins og eignaskatturinn var á sínum tíma, sem gekk undir nafninu ekknaskattur“.
Sala annarra ríkiseigna eða nefskattur
Varðandi fjámögnun spítalans segir Jóna Valgerður að hugsanlega sé hægt að selja einhverjar ríkiseignir, til dæmis byggingar eða ríkisjarðir. Hugsanlega megi leggja á nefskatt, eins og gert var í framkvæmdasjóð aldraðra. „Ég held að þjóðin myndi taka þátt í því“ segir hún. Það sé líka hægt að fá lífeyrissjóðina til að lána til byggingarinnar.