Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar
Í aðdraganda Örlygsstaðabardaga 1238 hélt Gissur Þorvaldsson fræga ræðu yfir sínum mönnum. „Gæti oss allra Guð!“ voru lokaorðin við þetta tækifæri. Fram undan var bardagi við harðsnúnar sveitir Sturlunga og enginn vissi afdrif sín. Á slíkum stundum óvissu og ófyrirsjáanleika sneru menn sér til almættisins. Sjómenn tuldruðu sjóferðabæn áður en lagt var af stað á opnum báti. Veðurfarið var rysjótt og náttúruöflin engin lömb að leika sér við.
Nú er öldin önnur. Nútímamaðurinn krefst þess að allt sé fyrirsjáanlegt. Veðurstofur eiga að geta sagt fyrir um veður langt fram í tímann. Stormar og fárviðri eiga ekki að koma neinum á óvart. Jarðvísindamenn eiga að geta séð óróleika í iðrum jarðar. Læknar eiga að geta spáð fyrir um gang allra sjúkdóma. Hagfræðingar eiga að vita um allar sveiflur hagkerfisins. Ekkert á nokkru sinni að koma neinum á óvart.
Yfirstandandi ár var harla óvenjulegt. Gos kom upp á Reykjanesi í fyrsta sinn í margar aldir öllum á óvörum. Glóandi hraun ógnaði mannvirkjum og samgöngum. Leiðindapest frá Kína herjaði á heimsbyggðina og breytti öllu lífi fólks. Flestir héldu að slíkar pestir væru viðfangsefni gamalla fræðaþula en ekki nútímamanna. Appelsínugular lægðir gengu stöðugt yfir landið og breyttu ferðatilhögun fólks. Húsvagnar tóku upp á þeim skolla að takast á loft og fljúga út af vegum.
Fólki fellur illa þegar lífið kemur aftan að því á þennan hátt. Í öllum fréttatímum krefja fréttamenn lækna og vísindamenn skilyrðislausra svara. Þeir eiga að segja með óyggjandi vissu hver verður gangur pestarinnar og óróleikans á Reykjanesi. „Má búast við gosi?“ „Hvenær getum við ferðast óhindrað? Er ekki bráðum hægt að afskrifa pestina? Fer veðrið versnandi eða batnandi?“ Tími spálíkana-sérfræðinga er kominn. Forfeðurnir báðu Guð um leiðsögn og styrk en nútímamaðurinn trúir á reiknimeistara sem sjá inn í framtíðina. Menn krefjast þess að vita bæði eigin örlög og móður jarðar. Bæði pestin og jarðhræringar hafa þó sýnt okkur að enn er kraftur og óvissa í náttúrunni og hún lætur ekki segja sér fyrir verkum. Kannski er Guð að sanna tilvist sína. Í ríki fyrirsjáanleikans er nefnilega engin þörf fyrir Guð og handleiðslu hans vegna þess að ekkert kemur á óvart.