Hér er komin kaka helgarinnar. Hún jafnast á við það besta þessi kaka og galdurinn er balsamedikberin sem dreift er yfir áður en hún er borin fram. Þegar berin eru látin liggja í balsamediklegi verða þau dásamlega ljúffeng og bragðið af ostakökunni, sem annars er fremur venjulegt, verður himneskt. Fyrir utan hvað kakan verður falleg.
Ostakaka með kexbotni
150 g kex, mulið smátt, má vera hafrakex en Oreo kex er líka mjög ljúffengt í botninum. Takið frá svolítið til að dreifa yfir í lokin ef vill.
3 msk. bráðið smjör
Blandið þessu saman og þjappið í botn á lausbotna formi eða öðru íláti sem gott er að bera kökuna fram í.
Kakan
200 g rjómaostur, notaði Philadelphia cream cheese en íslenskur rjómaostur er líka mjög góður
1/3 bolli sykur, má vera minna
½ tsk. salt
1 bolli rjómi, þeyttur
Blandið öllu saman og setjið yfir kexið. Geymið þetta í ísskáp þar til kakan er borin fram.
Balsamedikber
1 askja jarðarber, skorin í bita
1-3 tsk. sykur (eftir smekk)
2 msk. balsamedik
Blandið öllu saman og látið standa á meðan kakan er búin til. Setjið berin yfir kökuna áður en hún er borin fram og lögurinn er einstaklega ljúffengur, Honum má hella yfir líka.
Dreifið mulda kexinu yfir í lokin ef vill og þá er kakan tilbúin.