Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar
„Þið gerðuð vel við erfiðar aðstæður, drífið ykkur nú heim í heitt bað,“ sagði þjálfari drengja í fimmta flokki ÍA eftir leik við jafnaldra í Breiðabliki. Skagadrengirnir tóku á móti Kópavogsdrengjunum á velli sínum á Akranesi – og tekið skal fram, vegna tilmæla ÍA þjálfarans til sinna drengja, að leikurinn var hvorki leikinn snemma vors né síðla hausts heldur í júní, þegar sól er hæst á lofti á landinu bláa.
Það var nefnilega sannkallað skítviðri á Skaganum, líkt og var lengst af á suðvesturhorni þessa lands allan maí mánuð og fram eftir júní, rok og beljandi rigning. Tré á þessu landshorni felldu laufin nánast áður en þau sprungu út og standa nú nakin að kalla. Þótt stöku dagur hafi síðan skotist í tveggja stafa tölu, 10-11 gráður, verður því ekki neitað að íbúar á þessu regnbarða landsvæði hafa upplifað dapurlega sumarbyrjun – og vor sem aldrei kom.
Móðir Blikadrengsins hringdi í mig og spurði hvort ég væri ekki til í að skutla sér og syni sínum, afadreng mínum, til Akraness. Þar stæði til leikur Breiðabliks og ÍA í 5 flokki, eða leikja öllu heldur því drengirnir áttu að leika fjóra leiki eða leikhluta, 12 mínútna langa. Það var auðsótt mál. Við héldum af stað í þeirri von að hlé yrði á rigningunni og rokinu rétt á meðan á leiknum stæði. Sú von brást. Þegar við komum á svæðið sáum við hrakta sveina, gul- og grænklædda á vellinum. Stöku foreldri barði sér til hita utan hliðarlínu.
Blikadrengurinn okkar hljóp til félaga sinna en við móðir hans horfðum hvort á annað, með miðstöð bílsins á fullu. Regnið lamdi rúðurnar. Ég sneri framenda bílsins að vellinum og viðurkenni fúslega að freistandi var að sitja áfram í vagninum og horfa þaðan. Nokkuð langt var hins vegar í völl sveinanna svo vont var að greina á milli okkar manns og annarra – en þyngra vó að við gátum ekki verið þekkt fyrir annað en að að horfa á kappleikinn frá hliðarlínunni, láta okkur hafa það.
Við snerum rassinum í vindinn, eins og hross í höm. Ég var ekki klæddur til útivistar, miðað við þessar aðstæður, í gallabuxum og vattúlpu. Hvorug flíkin var vatnsheld. Áhorfendur okkar megin voru ekki aðrir en ÍA-móðir og ÍA-afi, sem þó fylgdu sitt hvorum drengnum í sínu liði en ekki þeim sama eins og við feðginin. ÍA-afinn var í öllu vatnsheldu, vanur íslensku sumarveðri sem 10 ára drengjum er gert að gera sér að góðu. Ég gaf mig á tal við hann nokkru eftir að ég var orðinn alveg rassblautur. Þá kom í ljós að hann átti bæði barnabörn á Akranesi og í Kópvogi og því leikmenn bæði í ÍA og Breiðabliki. Það var því ekki harður slagur milli okkar stuðningsmanna þessara ágætu liða á kantinum þótt við klöppuðum að sjálfsögðu sitt á hvað þegar okkar drengir skoruðu. Það klapp heyrðist þó varla inn á völlinn fyrir vindgnauði, auk þess sem báðir vorum við með vettlinga þennan júnídag.
Ég verð að játa að örlítið var ég farinn að bíða í síðasta leikhlutanum eftir lokaflauti dómarans. Þá var rigningarvatnið farið að leka niður kálfana ofan í sokkana. Skórnir voru gegnblautir. Fyrirfram hafði ég, í bjartsýni minni, ætlað að bjóða dóttur minni og dóttursyni í eitthvað gott á Akranesi eftir leik en þær fyrirætlanir hurfu eins og dögg fyrir sólu – ef nefna má það sjaldséða fyrirbæri. Við höfðum ekki sama tækifæri og ÍA drengirnir – og væntanlega fyrrnefndur ÍA-afi og ÍA-móðir – að drífa okkur strax í heitt bað. Við áttum eftir að keyra til baka í Kópavoginn. Sem betur fer var ég með ullarteppi í bílnum. Það kom sér vel á heimleiðinni. Miðstöðin var sett á fullt og hiti í rassinn, bæði fram- og afturí.
Við sluppum við kvef og lungnabólgu, þökk sé rasshitanum í Landróvernum og heitu sturtunni um kvöldið. Drengurinn okkar lét vel af leiknum þótt Skagadrengirnir hefðu unnið 3-2. Það verður líka að læra að taka ósigri.
ÍA-afinn sagði við mig, þegar við kvöddumst eftir leik, að drengjunum yrði ekki meint af þessum sumarleik. Þeir hlypu sér til hita. Ég trúi því, hann virtist vanur vosbúðinni, miðað við hvað hann var skynsamlega klæddur.
Ég verð hins vegar, verði framhald á þessu sumarsporti, að splæsa í eitthvað vatns- og vindhelt. Það þýðir ekki að treysta á rasshitarann í Landróvernum einan og sér.