Fyrir hálfri öld, tíðkaðist það ekki að hefja jólin í nóvember, hvað þá fyrr. En margt hefur breyst og líka það hvað jólin, eða öllu heldur jólaundirbúningurinn, hefst snemma. Þannig er nokkuð síðan menn fóru að setja upp jólaskreytingarnar. Jólahlaðborðin eru byrjuð, þannig að menn geta farið að gæða sér á hangikjöti með uppstúf, ris a lamande, rjúpum og ýmsu fleiru sem eitt sinn þótti eingöngu tilheyra jólunum. IKEA byrjaði að auglýsa jólin fyrir nokkrum vikum.
Thanks giving í IKEA
Á veitingastaðnum þar var svo boðið uppá kalkún í gær, í tilefni af Thanks giving deginum í Bandaríkjunum. Ritstjóri Lifðu núna, leit þar inn í gær og hitti eldra par, sem var að fá sér kalkún og annað þeirra hafði fengið sér rauðvínsglas, en lítil flaska sem nægir í eitt glas kostaði 575 krónur. „Þetta er ódýrara en í fríhöfninni“, sagði húsbóndinn. Þau sögðu að IKEA væri eini vínveitingastaðurinn í Garðabæ. Þau sögðust hafa kynnst kalkún, þegar bandarískur nágranni þeirra bauð þeim í hann fyrir margt löngu.
Gerist ekki mikið ódýrara
Kalkúninn kostaði 1295 krónur skammturinn og síðan var hægt að fá jólaeftirrétt á 395 krónur. Máltíðirnar gerast ekki mikið ódýrari. Hangikjötsskammtur kostaði 1195 krónur. Annað par með grátt í vöngum, var einnig að fá sér mat á veitingastaðnum, en þau höfðu ákveðið að geyma sér kalkún og hangikjöt til jólanna. Þau voru þeirrar skoðunar að jólaundirbúningurinn hæfist of snemma og það væri svo mikið kapp í fólki, að þau hefðu til dæmis verið spurð að því nýlega, hvort þau væru búin að kaupa allar jólagjafirnar. Skreytingarnar væru hins vegar jákvæðar í skammdeginu.