Skoðum viðhorf okkar til eigin aldursfordóma

Ashton Applewhite

Eftirstríðaárakynslóðin heldur áfram baráttu sinni gegn óréttlæti og beinir nú sjónum sínum að viðhorfum til aldurs og öldrunar, bæði á vinnustöðum og í daglegu lífi.  Aðgerðarsinninn Ashton Applewhite er höfundur bókarinnar This Chair Rocks: A Manifesto Against Ageism. Lifðu núna fékk sent þetta viðtal við hana, þar sem hún segir að aldursfordómar byrji hjá okkur sjálfum og ber baráttuna gegn þeim, saman við aðra réttindabaráttu. Viðtalið fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Aldursfordómar og mismunun hafa viðgengist lengi lengi. Hvað veldur baráttunni gegn þeim núna?

Ég fæddist árið 1952, í kjölfar eftirstríðsárakynslóðarinnar. Mín kynslóð er ólík fyrri kynslóðum að því leyti að hún eldist öðruvísi, heldur heilsu lengur en foreldrar okkar gerðu og mun lengur en afar okkar og ömmur.Við mótmælum því að láta ýta okkur út af leiksviði lífsins. Við viljum halda áfram að vera með í samfélaginu, finna að við höfum tilgang og leggja okkar af mörkum.

Þú hefur gagnrýnt hugmyndina um árangursríka öldrun (succesful aging), hvers vegna?  

Þessi hugmynd gengur út á, að það að eldast vel snúist um að fólk haldi áfram að líta út og hreyfa sig, eins og það gerði þegar það var miklu yngra, að það eldist í raun og veru ekki. Að í  stað þess að halda áfram að vaxa og þroskast sé hægt að stöðva tímann. Þetta er afneitun sem kostar peninga. Við kaupum hluti sem við höfum varla efni á, allt til þess að við lítum út fyrir að vera yngri en við erum. Þar má til dæmis nefna alls kyns húðvörur. Við keppum við hvert annað um hver er unglegastur en það er engin leið að vinna þá baráttu, hún er fyrirfram töpuð.

Hvar eru aldursfordómarnir og hversu algengir eru þeir?

Aldursfordómar eru sérstakir að því leyti að við stöndum öll frammi fyrir þeim fyrr eða síðar. Þetta eru síðustu fordómarnir sem rata uppá yfirborð meðvitundarinnar. Þeir eru alls staðar, þar á meðal í hugskoti okkar flestra. Eldra fólk býr oft sjálft yfir mestu aldursfordómunum. Fyrsta skrefið sem við þurfum að taka er að líta á afstöðu okkar sjálfra til aldurs og aldursfordóma, vegna þess að ef við erum ekki meðvituð um þá, getum við ekki barist gegn þeim. Og fyrir flest okkar eru þetta nýjar hugmyndir. Fólkið, sem er núna að eldast, er oft fordómafyllst í garð þess að verða eldra. Það er vegna þess að þetta sama fólk hefur allt sitt líf mátt hlusta á neikvæða umræðu um þá sem eldri eru, svo sem eins og að þeir  geti ekki hitt og ekki þetta eða séu bara ekki með á nótunum. Ef ekki eru gerðar neinar athugasemdir við þessa umræðu síast hún inn í vitundina og verður hluti af henni.

Geturðu skilgreint baráttuna gegn aldursfordómum og hvernig hver og einn einstaklingur getur tekið þátt í henni?

Ég held að það sé best að bera hana saman við kvennabaráttuna. Konur komu saman og fóru að deila sögum. Þær komust að raun um að vandamálin sem þær stóðu frammi fyrir, svo sem áreitni, eða það að komast ekki áfram í atvinnulífinu voru ekki vegna persónulegra mistaka þeirra sjálfra. Ef þú færð ekki vinnu og öðlast ekki frama í starfi vegna þess að þú ert gráhærð/ur, er það ekki vegna þess að þú gerðir þau mistök að líta út fyrir að vera nákvæmlega á þeim aldri sem þú ert. Hér er á ferðinni kerfisbundin mismunun vegna aldurs, ekki síst ef þú ert kona. Ein af ástæðum þess að ekki er í meira mæli látið vita af þessari aldursmismunun á vinnustöðum, er vegna okkar eigin  inngrónu aldursfordóma. Við þurfum að skoða eigið viðhorf  til eldra fólks og aldursfordóma. Síðan er hægt að mynda stuðningshópa, fara vel yfir stöðuna og vanda eldra fólks og finna samhljóm með öðrum sama sinnis.

Hvað áttu við þegar þú segir að aldursfordómar skapi gjá milli kynslóða?

Það er fólki eðlilegt að ranghvolfa augunum yfir „ungdóminum í dag“ eða kenna foreldrum sínum um að hafa klúðrað öllu. Það er miklu auðveldara að skella skuldinni á aðra en vinna saman að því að bæta heiminn.

Hvert er þitt persónulega viðhorf til öldrunar?  Aldur þýðir víðsýni, sjálfstraust og sjálfstæði. Við höfum miklu minni áhyggjur af því hvað öðrum finnst um okkur, en þegar við vorum yngri. Er það ekki fagnaðarefni, sérstaklega fyrir konur? Við erum samansafn þeirrar reynslu sem við höfum öðlast. Það tók blóð svita og tár að öðlast hana. Hún hefur gert okkur að þeim sem við erum. Enginn vill byrja uppá nýtt. Við viljum bara lifa í samfélagi sem ber virðingu fyrir okkur eins og við erum.

 

Ritstjórn maí 11, 2023 07:00