Út er komin bókin Synir Himnasmiðs eftir Guðmund Andra Thorsson en hún er fyrsta skáldsaga Guðmundar í rúman áratug. Bókin lýsir degi í lífi tólf karla sem allir eru afkomendur Ólafs Jónssonar sem var uppi á 18. öld og var kallaður ,,himnasmiður“ því hann smíðaði kirkjur. Þessir tólf karlar eru feður og synir, vinir og óvinir, samherjar og keppinautar. Sumir þekkjast en aðrir ekki en flestir tengjast samt með alls konar hætti svo úr verður nokkurs konar frásagnavefur. ,,Eiginlega finnst mér ég stundum vera eins og vefari að setja saman ótal myndir og úr verður ein stór mynd sman,“ segir Guðmundur Andri. Hann bætir við að í raun séu sögurnar bara sögur af ástum og örlögum. ,,Fyrsta sagan er um tvo eftirlaunakarla sem búa saman og fá sér danskan frokost með snafsi og öllu til minningar um eiginkonu annars þeirra sem hinn elskaði alla tíð.
Einn þessara tólf gæti misst vinnuna þennan dag, annar gæti verið sá sem þarf að reka hann, sá þriðji sá sem vill láta reka og sá fjórði sem fann út að það þyrfti að reka hann … Og svona verða tengingarnar alls konar. Einn elskar konu sem er dóttir annars en eiginkona þess þriðja og mágkona þess fjórða. Þarna er ríkasti og voldugasti maður landsins og þarna er vinsælasti trúbador landsins en flestir þarna eru bara svona menn sem þú tekur varla eftir á götu en eru samt einstaklingar, feður, afar, synir, en ekki erkitýpur eða gangandi áminningar um góða eða slæma hegðun. Bara svona mennskir menn og sögurnar þeirra …,“ segir Guðmundur Andri.
Jón Kalman Stefánsson segir um söguna: ,,Synir himnasmiðs táldregur þig. Stemning bókarinnar, hinn hlýi, seiðandi, stundum tregafulli andardráttur stílsins, heillandi persónur hennar, afhjúpandi lífsviska, smýgur djúpt inn í þig, og verður hluti af þínu innra landslagi; maður les Syni himnasmiðs og eignast vin. Pínulítið óþekkan, ljúfsáran vin, með blúsmunnhörpu í vasanum.“
Sólveig Baldurdsóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.