Spilið milli kynjanna

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Sú var tíðin að mér þótt vænt um það að herra stæði upp fyrir mér í strætisvagninum, héldi dyrunum opnum þegar ég gekk fram hjá eða aðstoðaði mig við að fara í kápuna. Auðvitað var ég fullfær um að bjarga mér sjálf, en það skipti ekki máli. Þetta var staðfesting á því að ég væri dama sem menn tækju eftir og jafnframt staðfesting á eigin sjálfsblekkinu um að þeim þætti ég þokkalega hugguleg. Þetta var partur af spilinu milli kynjanna.

Ég vaknaði upp við vondan draum fyrir löngu og horfðist í augu við að íslenskur riddaraskapur virðist hafa verið aflagður. Táningurinn í strætó hreyfir sig ekki þegar ég kem inn í vagninn. Dyrnar brjóta næstum nef og gleraugu þegar þær slengjast á mig og herrarnir ryðjast fram hjá án þess að líta til hægri né vinstri. Ég reyndi að taka þetta ekki persónulega og horfðist í augu við þá staðreynd að skrautfjaðrirnar hafa fallið af og ég er engin pæja lengur.

Í kjölfarið tók ég bara þá stefnu að ég væri fegin að losna við þessa gamaldags riddaramennsku. Nú reyni ég að gefa körlum langt nef með því að halda dyrunum opnum fyrir þá og jafnvel aðstoða þá við að komast í jakkana sína, enda virðast þeir margir hverjir eldast miklu hraðar og verr en við. Ekki satt stelpur ?

Um daginn lenti ég í hremmingum í þessum efnum. Ég söðlaði um í fyrra og fór að vinna sem leiðsögumaður. Á fyrsta degi í tíu daga ferðinni minni nú í haust kom amerískur maður úr hópnum, stillti sér upp fyrir framan dyrnar á rútunni og gerði sig líklegan til þess að styðja mig út úr farartækinu. Ótal hugsanir þutu í gengum kollinn á mér. Guð minn góður, hann heldur að ég komist ekki á eigin vegum út úr fjárans rútunni. Hvað á ég að gera? Það er mitt starfa að hjálpa honum þegar hann rekur tærnar í þúfu eða dettur um hraunnibbu. Ég er reddarinn og hefði frekar átt að hjálpa honum út úr bílnum, enda var maðurinn á svipuðum aldri og ég. Átti ég að horfa fram hjá útréttri hönd hans og hoppa niður, léttfætt eins ég væri fædd í gær eða brosa blíðlega og þakka fyrir hjálpina. Ég valdi þann kostinn, en ég held að hann hafi lesið hugsanir mínar. Hann endurtók alla vega  ekki  þessa tilraun til þess að vera riddaralegur.

Viðbrögð mín við amerísku riddaramennskunni vöku hjá mér spurningar. Af hverju tók ég þessu svona illa ? Eina svarið sem ég finn er að innst inni í sálartetrinu sé aumur blettur sem segir að ég vilji ekki virðast vera gömul, hrum og hjálparþurfi. Nú er framrétta riddarahöndin orðin vísbending um hrumleika – höndin sem áður var vísbending um að manninum þætti ég sæt og eftirtektarverð. Já, öðru vísi mér áður brá.

Sigrún Stefánsdóttir október 1, 2018 09:15