Starfslok miðist við færni en ekki aldur

„Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga á að fá lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum,“ segir í kosningastefnu Viðreisnar í málefnum eldra fólks. Flokkurinn vill að lífeyriskerfi almannatrygginga sé einfaldað og skerðingum hætt.

Lifðu núna hefur undanfarna daga skoðað kosningastefnu stjórnmálaflokkanna í málefnum eldra fólks og er þetta síðasta greinin fyrir alþingiskosingarnar sem fram fara á laugardaginn kemur.

Í kosningastefnu Viðreisnar segir að flokkurinn vilji búa eldra fólki áhyggjulaust ævikvöld. Hann vill að framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum sé í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Þá vill hann koma á millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimila og tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk.

Einnig segir í kosningastefnunni að starfslok eigi að miðast við færni fremur en aldur. Flokkurinn vill samhæfa stuðning ríkis og sveitarfélaga.

Viðreisn vill gera fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er, segir jafnframt í kosningastefnunni. Flokkurinn vill fjölga hjúkrunarrýmum í samstarfi við ríkið.

Þá er vikið að heilsueflingu, en Viðreisn stefnir að heilsueflandi samfélagi fyrir alla aldurshópa. Flokkurinn vill tryggja aðgengi að fræðslu og heilsueflandi úrræðum handa öllum út æviskeiðið.

Formaður Viðreisnar er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og skipar hún fyrsta sætið í Suðvesturkjördæmi. Viðreisn býður fram undir listabókstafnum C. Stefnu flokksins í málefnum eldra fólks má nálgast í heild á eftirfarandi slóð: vidreisn.is/malefni/aldradir.

Ritstjórn september 23, 2021 11:00