Stefán Jón Hafstein fyrrverandi útvarpsmaður með meiru

Stefán Jón Hafstein, útvarpsmaður og borgarfulltrúi var mjög áberandi í samfélaginu á ákveðnu tímabili. Ekki síst þegar hann var með dægurmálaútvarp Rásar tvö og spjallaði þar við landsmenn alla virka daga  í þættinum Þjóðarsálin og leyfði þeim ef svo bar undir, að hella úr skálum reiði sinnar yfir aðra hlustendur. Hann fór svo í pólitík fyrir Samfylkinguna og þaðan lá leiðin í þróunarhjálp í Afríku.  En hvar er hann núna?  „Ég er í Róm“  sagði Stefán Jón á hinum enda línunnar þegar blaðamaður Lifðu núna hringdi í hann. Þar er hann fastafulltrúi Íslands hjá FAO og Matvælaaðstoðinni, sem kallast World Food Program.  Stefán vann í Namibíu, Uganda og Malawi í samtals 8 ár, á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Sú stofnun var færð inní utanríkisráðuneytið fyrir nokkrum árum og Stefán var snemma á þessu ári skipaður fastafulltrúi hjá FAO í Róm, þar sem hann býr í miðborginni  rétt hjá bækistöðvum FAO.

„Ég var færður hingað“ segir hann. „ Þetta er eins manns póstur og ég kallast fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum, eins og við höfum í New York, Genf og Vín. Mitt starf er að fylgjast með og vera fulltrúi Íslands í þessum stofnunum hér í Róm. Það var metið svo að bakgrunnur minn  í þessu alþjóðlega starfi hentaði vel hér“.  Eiginkona Stefáns, Guðrún Kristín Sigurðardóttir, býr ekki í Róm, en var með honum bæði í Malawi og Namibíu. Hún býr heima á Íslandi þar sem hún fékk vinnu sem hún nýtur sín vel í, en hún er hönnuður hjá Icewear. „Við erum í fjarbúð núna. Maður venst því og gerir gott úr því. Þetta er ekki draumastaða, en við hittumst reglulega og notum tímann þá vel. Ég fer í sumarfrí og jólafrí til Íslands og hún kemur reglulega í heimsóknir hingað. Það líður aldrei mjög langt á milli“, segir Stefán.

Útvarpsþátturinn Þjóðarsálin braut að vissu marki blað í útvarpssögunni og var einn vinsælasti þátturinn í útvarpinu á sinni tíð, en hann gekk í nokkur ár á Rás tvö á níunda áratug síðustu aldar. „Það má segja að þátturinn hafi verið Facebook þess tíma“, segir Stefán. „Þetta var fastur póstur þar sem hægt var að hringja í útvarpið og þarna kom fólk með sínar „færslur“. Þegar ég horfi tilbaka hefur mér oft fundist þetta svipað. Þetta var skemmtilegur tími og þegar mest var hlustað á Þjóðarsálina, var það fjórði hver maður á landinu sem hlustaði og fólk vitnaði í Þjóðarsálina eins og það vitnar í Facebook í dag. Það vantar bara mann eins og mig sem stjórnar Facebook“, segir Stefán og hlær í Róm á endanum á símalínunni.

Stefán Jón var borgarfulltrúi í 5 ár, en segist ekki hafa tekið þátt í flokkspólitík í 10 ár. Hann skrifi um samfélagsmál, alþjóðamál og um þróunarsamvinnu. Fyrir þremur árum gaf hann út bók um Afríku þar sem hann gerði upp dvölina þar. „Mér fannst ég þurfa að koma frá mér þessari mannlegu lífsreynslu, en ekki endilega fjalla um sögu álfunnar eða efnahagsmálin“, segir hann. En hvað finnst honum standa uppúr í Afríku?  Stefán segir að fyrir sig sem náttúruunnanda og útivistarmann hafi það verið gríðarleg upplifun að kynnast dýralífi og náttúru Afríku. ,,En mikilvægast var það náttúrulega hvað maður öðlaðist mikla virðingu fyrir fólki sem berst fyrir lífi sínu og afkomenda sinna við erfiðar aðstæður, en heldur samt bæði reisn og  sjálfsvirðingu“. Hann segist hafa átt auðvelt með að hafa samskipti við fólk í Afríku. Þar hafi hann eignast vini og samstarfsmenn sem honum þyki vænt um. Það standi uppúr. „Ég þekkti söguna og hvernig efnahagsaðstæður voru í þessum löndum, en þegar maður kynnist fólkinu á vettvangi, fær maður aðra sýn. Þess vegna heitir bókin mín, Afríka, ást við aðra sýn“, segir hann.

Stefán Jón segir að eftir nokkra mánuði í Róm, finni hann hversu langt frá aðstæðum venjulegs fólks þessar miklu alþjóðastofnanir og sjóðir séu. „Maður þarf að klípa sig í handlegginn annað slagið og spyrja sig, fyrir hvern ertu að vinna? Það er enginn vafi á því að þessar stofnanir eru langt frá raunveruleikanum eins og hann er í fátækustu byggðum heimsins og maður þarf að halda tengslum við líf fólksins sem maður er að hjálpa. Það er enginn vandi að gleyma sér í þessari lífsgæða púpu sem maður er í. Maður er umvafinn silki í þessu vestræna ríka umhverfi, maður þarf alltaf að muna það, sama hvar er“.

 

Ritstjórn júní 14, 2018 10:40