Stjórnvöld ekki tilbúin að greiða það sem þarf

Pétur Magnússon

Hjúkrunarheimilin í landinu fá almennt ekki nægar fjárveitingar frá ríkinu til að uppfylla þær kröfur sem Landlæknisembættið gerir til þeirra um þjónustu við íbúana. Pétur Magnússon formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu segir að samkvæmt samningnum við ríkið sem heimilin starfi eftir, geti þau ekki mætt kröfum landlæknis. Það megi líkja þessu við hótelrekstur. Landlæknir geri kröfu um fimm stjörnu hótel, en ríkið vilji ekki greiða nema fyrir tveggja eða þriggja stjörnu hótel. Þjónustan í núverandi samningi sé því minni en landlæknir leggur til. „Ein aðalathugasemdin þegar ákveðið var að loka Kumbaravogi, var að mönnun þar væri ekki í samræmi við það sem landlæknir geri ráð fyrir. Við viljum auðvitað að farið sé að kröfu landlæknis, en ráðuneytið hefur ekki verið tilbúið að greiða það sem það kostar. Það er algert ósamræmi þarna á milli“, segir Pétur.

Langflest heimilin hafa ekki uppfyllt kröfurnar

Hann segir að Samtökin hafi fengið óháðan ráðgjafa til að reikna út hvað það kostaði að uppfylla kröfur landlæknis. „Það vantaði 30% inní daggjöldin til að það væri hægt“, segir hann . Þetta þýði þó ekki að þjónustan taki stakkaskiptum þó ekki hafi tekist að fá daggjöldin hækkuð sem þessu nemi. Langflest hjúkrunarheimili hafi ekki verið að uppfylla kröfurnar hvort eð var. „Það er tvennt í stöðunni, annað hvort að borga meira, eða minnka kröfurnar“, segir Pétur. Hann segir að Samtökin hafi farið fram á fund með stjórnvöldum til að ræða þetta misræmi. Sá fundur hafi verið haldinn og þau bíði til að sjá hvort hann muni einhverju skila.

Viðmið en ekki kröfur

Hjá Embætti landlæknis  fengum við þær upplýsingar að embættið hefði sett fram viðmið um mönnun á hjúkrunarheimilum en ekki kröfur. Þau hafi meðal annars verið sett vegna eindreginnar óskar frá stjórnendum á íslenskum hjúkrunarheimilum.  Það komi skýrt fram að þessi faglegu viðmið hafi hvorki lagalegt gildi, né reglugerðargildi.  Tilgangur þeirra sé að styrkja þjónustu hjúkrunarheimila og tryggja gæði hennar og öryggi íbúa eins og frekast sé kostur. Mönnun skuli taka mið af umfangi og eðli þjónustunnar og aðstæðum hverju sinni.

Kröfulýsingin metnaðarfull

Það sé  á ábyrgð stjórnenda hjúkrunarheimila að tryggja að mönnun sé með þeim hætti að hægt sé að veita þá þjónustu sem skilgreind er í kröfulýsingu velferðarráðuneytisins og liggur til grundvallar samningnum sem gerður var við þá sem reka hjúkrunarheimilin. Að mati landlæknis er kröfulýsing ráðuneytisins metnaðarfull og krefst ákveðinnar mönnunar svo hægt sé að standa undir henni.

 

Ritstjórn mars 29, 2017 12:43